Síðast en ekki síst
Eftir / Stefán Pálsson
Fyrir nokkrum árum bjó kunningjafólk mitt við hliðina á landsfrægum glæpamanni. Þetta var á þessum skringilega tíma þegar alræmdir handrukkarar og fíkniefnasalar töldust frægðarfólk á Íslandi og blöðin birtu fréttir af lífsstíl þeirra og afrekum í skemmtanalífinu. Nágranninn var sem sagt einn af þeim kunnari úr þessum þjóðfélagshóp.
Sem vænta mátti vorkenndu flestir fólkinu að sitja uppi með slíkan granna og spurðu varfærnislega út í sambúðina. Svörin komu örlítið á óvart: ofbeldishrottinn var víst fyrirmyndar nágranni. Hann hélt aldrei partí heima hjá sér, greiddi samviskusamlega sinn hlut í framkvæmdum, iðnaðarmenn mættu stundvíslega í öll verk í húsinu og innbrot og smáskemmdarverk heyrðu sögunni til í götunni. Enginn þjófur var svo bíræfinn að láta til sín taka á þessum slóðum.
Sagan um glæpagrannann fræga kemur upp í hugann þessa dagana í tengslum við 70 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins. Innganga Íslands í Nató var samþykkt í skjóli ofbeldis gegn saklausum mótmælendum þann 30. mars árið 1949 og upp frá því hefur landið verið aðili að hernaðarbandalaginu.
Stuðningsmenn Nató halda því mjög á lofti að á starfstíma þess hafi ríkt friður í Evrópu. Sá friður er þó sömu gerðar og hlaust af sambýlinu við handrukkarann. Meðal aðildarþjóða Nató eru mörg helstu vopnaframleiðsluríki í heimi, sem ala á styrjöldum um víða veröld. Blóðsúthellingar kalda stríðsins áttu sér ekki stað í Evrópu, heldur í þriðja heiminum þar sem risaveldin öttu saman leppum sínum og kostuðu milljónir mannslífa. Nató ber höfuðábyrgð á stríðum í Afganistan, Líbíu og víðar. Og kjarnorkuvopn eru hornsteinn í hernaðarstefnu Nató, sem áskilur sér réttinn til að nota þau að fyrra bragði.
Atlantshafsbandalagið ber beina og óbeina ábyrgð á dauða milljóna og ógnar tilvist mannkyns með háskalegustu vopnum sem smíðuð hafa verið. Að kalla það friðbera er jafnfráleitt og að kætast yfir að búa við hliðina á siðblindum glæpamanni.