Aðfaranótt laugardagsins 21. mars kom lambhrútur í heiminn í Stórholti í Saurbæ. Lambhrúturinn í Stórholti hefur nú hlotið nafnið Þórólfur Víðir Möller. Þetta kemur fram á vefnum búðardalur.is.
Hrúturinn krúttlegi heitir eftir Þórólfi Guðnasyni, sóttvarnarlækni, Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni, og Ölmu Möller, landlækni, en fáir einstaklingar eru eins áberandi í íslensku samfélagi þessa dagana.
Alma er himinlifandi með nafn hrútsins og segir frá því á Facebook.
„Við þrjú á palli urðum mikils heiðurs aðnjótandi þegar þessi fallegi hrútur, sem fæddist í Stórholti í Saurbæ, fékk nafnið Þórólfur Víðir Möller,“ skrifaði Alma á Facebook.
Á búðardalur.is segir að móðir Þórólfs Víðis Möller sé hún Malla sem ber númerið 19-964. Faðerni hrútsins er ekki á hreinu.