„Auðvitað er hryllilega leiðinlegt að þetta þurfi að fara svona,“ segir tónleikarhaldarinn Wiktoria Joanna Ginter í samtali við Mannlíf.
Wiktoria stefndi Hatara í september á síðasta ári vegna meintra vanefnda Svikamyllu, sem heldur utan um rekstur hljómsveitarinnar, á samningi um að sveitin kæmi fram á fernum tónleikum á tónlistarhátíð í Póllandi dagana 20. til 24. ágúst. Wiktoria var einn af aðalskipuleggjendum hátíðarinnar, Iceland to Poland, og telur að Hatari hafi brotið á samningi þeirra á milli þegar þeir afboðuðu komu sína. Með úrskurði hérðasdóms Reykjavíkur í desember var staðfest að ágreiningurinn heyrði undir gerðardóm í samræmi við samning þeirra milli. Beiðni hefur verið send á gerðardóm um að hann taki málið fyrir.
„Við leitumst eftir því að það gerist í maí og þá verði valinn dómari sem báðir aðilar geta sæst á,“ segir Wiktoria, sem vill fá úr því skorið hvort Hatari hafi brotið á henni, en hún telur sig eiga rétt á skaðabótum frá sveitinni vegna málsins.
„Hatari skrifaði undir samning um að koma fram en hætti seinna við eftir að hafa farið fram á miklu hærri þóknun en var fyrst rædd. Við buðum sveitinni að draga sig út úr verkefninu gegn því að greiða fyrir bókun nýs listamanns, eins og tekið er fram í samningi, en hún svaraði ekki. Í kjölfarið gat ég ekki uppfyllt ýmsar fjárshagslegar skuldbindingar vegna hátíðarinnar og sit uppi með skuldir. Það er auðvitað magnað að sveit sem segist vera antíkapítalísk sé reiðubúin að rústa litla tónlistarhátið.“
Þess má geta að Hatari hefur sagst hafa hætt við tónleikana í Póllandi þar sem ekki hafi verið séð fram á að sveitin fengi greitt fyrir framkomuna.