Fimmtudagur 2. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Húðskammar Miðflokkinn fyrir að auka bið fátækra eftir réttlætismálum með málþófi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, húðskammaði Miðflokksmenn á Alþingi í dag. Inga sagði Miðflokksmenn ekki þekkja sinn vitjunartíma, hygla sjálfum sér og halda þinginu í gíslingu. Afleiðingin sé sú að þingmál sem varði fátæka komist ekkert áfram.

„ Við höfum heyrt minnst á það að fátækt fólk geti ekki beðið eftir réttlæti, hæstv. forsætisráðherra sagði meira að segja fyrir réttu einu og hálfu ári að fátækt fólk gæti ekki beðið lengur eftir réttlæti. En það er nákvæmlega það sem fátækt fólk er að gera núna og nú í boði málþófs á Alþingi Íslendinga, í boði þess að við erum hér með mjög mörg góð mál,“ sagði formaður Flokks fólksins.

Króna á móti krónu, velferð barna og atvinnuréttindi aldraðra
Inga taldi upp nokkur dæmi um mál sem hún telur mikilvægt að þingið nái að klára. „Ég ætla að nefna nokkur af þessum góðu málum. Ég ætla að nefna krónu á móti krónu skerðingar sem Píratar eru með og við erum að ná út úr nefnd. Ég ætla að nefna afnám skerðinga á atvinnutekjur aldraðra, mál sem er að koma út úr velferðarnefnd núna og er hugur í okkur að koma í þinglega meðferð. Ég ætla að nefna risamál Samfylkingarinnar í 17 liðum um velferð og bættan hag barna. Ég gæti haldið áfram lengi enda hefur hæstv. forseti bent á það að í nefndum liggja mál sem bíða eftir að fá að komast í þinglega meðferð á meðan Alþingi Íslendinga, æðsta ræðustól landsins, er haldið í gíslingu í nafni lýðræðis.“

Enn mótfallinn þriðja orkupakkanum
Sjálf segist þingkonan ekki samþykkt þriðja orkupakkanum en að önnur mál verði að komast að. „Ég vil taka fram, virðulegi forseti, að það var ég sem fór fyrst að tala um innleiðingu þriðja orkupakkans í þessu ræðupúlti . Ég hef alla tíð verið andsnúin innleiðingu þessa þriðja orkupakka. Ég hef í ræðu og riti talað um hvað ég er andsnúin þessum þriðja orkupakka, en það breytir ekki þeirri staðreynd að það hlýtur einhvern tímann að koma sá tímapunktur að maður viti hvenær vitjunartími manns er kominn og maður hætti að lemja hausnum í vegginn og hygla sjálfum sér daginn út og inn í einræðu á hinu háa Alþingi Íslendinga. Ég skora á okkur öll. Það þýðir ekki í nafni lýðræðis að láta lítinn minni hluta haga sér eins og við höfum þurft að þola hér allan þennan tíma. Í rauninni hef ég ekki upplifað neina aðra tilfinningu en ofbeldi og vanlíðan yfir því að geta ekki sinnt þeim störfum sem ég var kosin til að fylgja.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -