Föstudagur 25. október, 2024
6.9 C
Reykjavik

Hugsunargangur landans er að breytast

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áhugi landsmanna á garðyrkju tók heljarstökk eftir bankahrun og vex með hverju árinu. Auður I. Ottesen, smiður og garðyrkjufræðingur, býst við sprengingu í lífrænni ræktun innan tíu ára enda vilji þjóðin rækta eigið grænmeti og ávexti í stað þess að reiða sig á innflutning.

Vafalaust eru fáir Íslendingar með jafngræna fingur og Auður I. Ottesen, smiður og garðyrkjufræðingur, sem hefur frá árinu 2000 gefið út tímaritið Sumarhúsið og garðurinn ásamt eiginmanni sínum Páli Jökli Péturssyni, auk þess sem hún hefur gefið út ellefu garðyrkjubækur, haldið fjölda námskeiða og staðið fyrir stórum garðyrkjusýningum undanfarin ár. Hjónin hafa búið á Selfossi síðan árið 2011 þar sem þau halda m.a. námskeið og skipuleggja hátíðir í garðinum heima hjá sér. Bankahrunið og yfirstandandi heimsfaraldur eiga það sameiginlegt að hennar sögn að hafa vakið áhuga ólíkra hópa í samfélaginu á garðyrkju. „Áhugi á garðyrkju tók heljarstökk í bankakreppunni árið 2009. Fyrir þann tíma átti allt að vera svo ljómandi fínt í garðinum en garðyrkjuverkin sjálf máttu alls ekki vera tímafrek, allt átti að vera fyrirhafnarlaust. Þetta gjörbreyttist í efnahagshruninu, ekki síst hjá unga fólkinu sem fyllti alla glugga af tómataplöntum og pottablómum. Skólagarðarnir sem var búið að afleggja var breytt í grenndargarða og þangað flykktist fólk með fræ og forræktaðar plöntur um allt land til að rækta til matar.“

Breytt hugsun

Þá varð tengingin við náttúruna lífsnauðsynleg og lopapeysan og gúmmítúttur urðu vinsælar á ný. „Vörubretti og allt sem var endurnýtanlegt komst í tísku. Til marks um áhugann voru garðyrkjusíður þær fjölmennustu á Facebook. Hverjum hefði dottið í hug að síða sem Hafsteinn Hafliðason garðyrkjufræðingur stofnaði um pottaplöntur næði 25.000 vinum? Í COVID-19 faraldrinum er ánægjulegt að verða vitni að því að unga fólkið sem býr í blokkum gerir nú kröfu um að fá hluta af túnunum við blokkina undir ræktun á grænmeti. Það gleður mitt garðyrkjuhjarta.“

..

Hún segist vera nokkuð bjartsýn á enn frekari áhuga landsmanna á ræktun, þá helst lífrænni ræktun. „Ég á von á sprengingu í lífrænni ræktun innan tíu ára. Hugsunargangur landans er að breytast, bæði vegna jarðtengingarinnar og vegna alvarlegs ástands í loftslagsmálum. Einnig finn ég fyrir aukinni kröfu um að þjóðin geti ræktað sitt eigið grænmeti og ávexti í stað þess reiða sig á innflutning. Ég gleðst yfir öllum röddum sem gera kröfu um að garðyrkjubændur fái betri kjör á rafmagni til að framleiða samkeppnishæfar afurðir. Svo fagna ég COVID-19 lausnum ríkisstjórnarinnar þar sem fjármunum er ráðstafað í nýsköpun í matvælaiðnaði. Slíkt gefur nýútskrifuðu fagfólki tækifæri sem var áður ógerningur án stuðnings.“

Breyttir kennsluhættir

- Auglýsing -

Samkomubannið hafði áhrif á námskeiðahald Auðar, eins og aðra, en vorin eru stór vertíð fyrir hana. Þetta tímabil hefur þó verið lærdómsríkt fyrir hana eins og fleiri þar sem hún lærði m.a. á Zoom-forritið og færði um leið námskeiðin sín yfir á netið. „Ég hef frá árinu 2009 kennt rúmlega 2.000 manns að rækta krydd- og matjurtir og ýmislegt annað tengt garðyrkju- og sumarhúsalífinu, m.a. í sérhönnuðum sýningar- og kennslugarði á heimili okkar hjóna á Selfossi.“

.

Yfirfærslan yfir á netið sló svo sannarlega í gegn. „Fyrsta námskeiðið var á vegum Farskólans á Sauðárkróki og Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Námskeiðið seldist upp og ég kenndi þremur hópum þar að forrækta grænmeti og að rækta grænmeti og krydd í útirækt. Það má eiginlega segja að námskeiðin hafi slegið í gegn og nú hef ég kennt í öllum landshlutum og nemendurnir orðnir rétt um 200. Þetta hefur verið ofboðslega gaman og gefandi.“

Yngri karlar sækja á

- Auglýsing -

Hún segir það jákvætt að bæði ungt og eldra fólk sæki námskeiðin. „Tæplega helmingur hefur aldrei ræktað áður en vill rækta sitt eigið krydd og grænmeti og verða sjálfbærari. Konur hafa hingað til verið í miklum meirihluta en karlar sækja á, sérstaklega yngri karlmenn sem hafa brennandi áhuga á ræktun.“

Þrátt fyrir allt er hún bjartsýn á sumarið og nefnir þar til sögunnar eigið verkefni sem hún kallar Kíktu í skúrinn til Auðar. „Ég stefni á að bjóða upp á verkleg námskeið í bílskúrnum sem ég er að rífa núna og endursmíða. Námskeið í garðyrkju, smíði garðhúsgagna og er fram í sækir steypuverka. Svo vil ég geta farið að taka á móti gestum í garðinn.“

Lifandi tákn

Ef allt gengur eftir mæta gestir á viðburðinn Stefnumót við Múlatorg 18. júlí í garðinum hjá þeim hjónum. „Ég vona innilega að þetta geti orðið því ég elska að hitta fólkið mitt og miðla af öllu því sem við erum að fást við í garðinum. Að öllu óbreyttu munum við bjóða upp á handverks- og listamarkað og vörusölu fyrir garð- og sumarhúsaeigendur. Lifandi tónlist ómar allan daginn og við erum með ljósmynda- og listasýningar í garðinum auk þess að sýna hvernig hægt er að smíða garðhúsgögn, steypa skrautmuni og ýmislegt garðyrkjutengt.“

Auður ætlar einnig í sumar að vinna að sjálfbærri garðyrkju í upphækkuðu beði sem er í miðjum garðinum en þar ræktar hún fjöldann allan af tegundum sem allar gefa af sér til átu. „Ég er hreykin af beðinu mínu því það er lifandi tákn um að það er hægt að ná mun betri árangri með lífrænni ræktun með ánamöðkum í hundraðavís sem næra plönturnar með eigin skít. Mér sýnist að uppskeran úr þessu beði sé um 30% meiri en í hefðbundinni ræktun í grenndargarðinum þar sem ég rækta líka.“

Texti / Starri Jónsson
Myndir / Aðsendar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -