Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hulda er bæði með vefjagigt og MS sjúkdóminn: „Það var ömurlegt að þurfa að hætta að vinna.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hulda Kobbelt er rúmlega sextug og búin að vera á óvinnufær síðan hún var 34 ára. Legslímuflakk. Vefjagigt. Tvenns konar taugasjúkdómar. MS. Krabbamein. Viðkvæmni í tengslum við rafmagn og ýmis efni. Hulda hefur upplifað ýmiss konar áföll í gegnum tíðina og það nýjasta er sonarmissir en eldri sonur hennar varð bráðkvaddur í sumar. Hann var 44 ára. Hér er brot úr helgarviðtali Mannlífs:

Vefjagigt og MS

Hulda giftist eiginmanni sínum þegar hún var 19 ára og eignuðust þau eldri son sinn, Víði, sama ár. Yngri sonur þeirra, Fannar, fæddist fjórum árum síðar.

Hulda vann við ýmislegt næstu árin. „Maður vann alltaf einhverja verkamannavinnu; maður menntaði sig ekkert þannig nema í skóla lífsins. Ég vann til dæmis í eldhúsinu á sjúkrahúsinu á Siglufirði í 13 ár þar sem tengdamamma var ráðskona.“

Hulda greindist með vefjagigt þegar hún var 33 ára. „Ég var pottþétt búin að vera með þetta í nokkur ár. Ég missti smám saman kraftinn í höndunum og er með verki alla daga í vöðvum og vefjum. Svo er ég með slit í hálsliðunum og á milli herðablaðanna og annar þumallinn er eiginlega orðinn óvirkur. Ég var búin á því um 34 ára og gat ekki unnið. Ég fór þá í uppskurð og legið var tekið út af legslímuflakkinu en þeir skildu eftir stubb en það var sagt að það væri gott til að styðja við grindarbotninn. Og þá átti ég öll að verða svo fín. Þetta var hins vegar eins og að hella olíu á eld; þá fyrst varð ég veik. Bara hrundi endanlega. Það var eins og þetta færi út í allan líkamann. Það voru ekki bara þessir túrverkir og þetta vesen; þá hefur líkaminn sjálfsagt verið orðinn uppgefinn. Maður getur ekki endalaust tekið við veikindum og álagi. Ég var oft svo veik þegar ég fór í vinnuna og svo endaði það á því að ég varð að hætta að vinna þegar ég var 35 ára. Ég gat þetta ekki. Það var ömurlegt að þurfa að hætta að vinna.“

Maður getur ekki endalaust tekið við veikindum og álagi.

Hjónin lifðu af launum eiginmannsins næstu árin. Þau bjuggu í eigin húsi á Siglufirði um árabil en misstu það reyndar árið 1992 þegar fyrirtæki eiginmannsins varð gjaldþrota og fóru þá á leigumarkaðinn. Þau voru á leigumarkaðnum í nokkur ár og þá festu hjónin kaup á raðhúsi. Hulda segir að ýmislegt hafi verið að í húsinu. „Það var mikil mygla í báðum baðherbergjunum og við löguðum það. Það var allt grafið út á lóðinni og sett nýtt dren en við vissum ekki að það þyrfti að hreinsa miklu meira; ef myglað húsnæði er ekki hreinsað eins og á að gera þá losnar fólk ekkert við gróin. Og þetta fluttum við allt með okkur í nýja íbúð í Grafarholti í Reykjavík þar sem við bjuggum í 14 ár.“

- Auglýsing -

Hulda fór að finna fyrir doða í útlimum þegar þau bjuggu í raðhúsinu á Siglufirði og greindist með MS-sjúkdóminn þegar hún var 45 ára árið 2003. „Ég held ég hafi fengið sjúkdóminn út frá eitrinu í myglusveppnum. Og það hafa fleiri sagt þetta og ég hef líka lesið um þetta. Ég fæ doðaköst annað slagið og þá aðallega þegar ég er undir álagi. Það er talið að köstin tengist álagi.“

Hjónin fluttu til Reykjavíkur árið 2004 og eftir það fór Hulda á öorkubætur. Hún var þá 46 ára. „Ég fékk örorkubætur af því að ég var orðin það veik að ég gat ekki unnið fulla vinnu og ekki einu sinni hálfa vinnu. En þá var ég ekki orðin svona slæm af þessu óþoli sem ég er með núna,“ segir hún en meira um það síðar.

Sjá allt viðtalið hér: Hulda hefur gengið í gegnum hræðileg áföll í lífinu: „Maður þakkar fyrir lífið hvern einasta dag“

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -