Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

Prófessorinn hlaut þrisvar dóm – Huldumaður bjargaði Hannesi Hólmsteini

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nokkru áður en útvarpsrekstur var gefinn frjáls í landinu urðu hörkuátök þegar þeir Kjartan Gunnarsson, Hannes Hólmsteinn Gissurarson og Eiríkur Ingólfsson, stóðu að rekstri útvarpsstöðvar undir merki Frjáls útvarps. Þetta gerðist á níunda áratugnum í verkfalli BSRB. Ríkisútvarpið var lamað og engar útsendingar þar. Aðstandendur útvarpsstöðvarinnar voru allir talsmenn frelsis og hugsjónamenn á því sviði og brautryðjendur. Þeir héldu stöðinni úti um tíma en afleiðingarnar urðu þær að frumherjar frelsisins voru ákærðir fyrir lögbrot og loks dæmdir til greiðslu 20 þúsund króna sektar eða fangelsis í 15 daga að öðrum kosti.

„Við höfum ákveðið að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Ég hef ekki trú á að Hæstiréttur kveði upp sama dóm. Ég mun ekki greiða sektina verði ég dæmdur í Hæstarétti. Frekar mun ég sitja inni til að mótmæla dómnum,“ sagði Hannes Hólmsteinn í viðtali við DV í febrúar 1986.

„Dómurinn kom mér ákaflega mikið á óvart því að við höfðum tekið fram sterkar röksemdir fyrir réttmæti og lögmæti frjálsu útvarpsstöðvanna. Ákæruvaldinu er beitt í pólitískum tilgangi. Við erum ákærðir fyrir rekstur fréttaútvarps á sama tíma og margar útvarps- og sjónvarpsstöðvar víða um land eru látnar óátaldar. Þess má t.d. geta að sjónvarpsstöð á Ólafsfirði er nú starfrækt. Stöðin greiðir söluskatt til fjármálaráðuneytisins. Þetta er furðulegt,“ sagði Hannes Hólmsteinn.

Málið fór á þann veg, Hannesi til undrunar, að Hæstiréttur staðfesti dóminn yfir forsvarsmönnum útvarpsstöðvarinnar.

Stundin hafði samband við Hannes Hólmstein, sem í dag er prófessor við Háskóla Íslands. Hann upplýsti að huldumaður greiddi sekt hans. Hannes Hólmsteinn sat því aldrei í fangelsi vegna málsins en lýsir málinu í skriflegu svari.

- Auglýsing -

„Ég skrifaði heilan kafla um það í bókina mína Fjölmiðlar nútímans. Það er líka kafli um málið í bók Jóns Steinars Gunnlaugssonar, Deilt á dómarana. Ræða mín fyrir dómi er birt í bókinni Frjálshyggjan er mannúðarstefna. Við vorum dæmdir í sekt í héraðsdómi, og dómurinn var staðfestur í Hæstarétti. Ég ætlaði ekki að greiða sektina og sitja hana frekar af mér (mig minnir, að það hafi verið tólf dagar), enda hefði það verið lífsreynsla að sitja í fangelsi. En einhvern tímann, þegar ég hafði verið lengi í útlöndum, hafði einhver greitt sektina. Mig grunaði Kjartan Gunnarsson, en hann bar það af sér“.

Hannes Hólmsteinn slapp sem sagt við fangavist á þessum tíma. Seinna fékk hann dóm vegna ummmæla um auðmanninn Jón Ólafsson, Jón Bæjó. Hannes sagði á nor­ræna blaðamanna í Reyk­holti í októ­ber 1999 að Jón hefði auðgast á vafasaman hátt. Úrdráttur úr erindi hans var birtur á ensku heimasíðu Hannesar. Jón stefndi Hannesi fyrir enskum dómstólum og krafðist 11 milljón króna. Dómstólinn féllst á kröfu Jóns og dæmdi Hannes til að greiða 11 milljónier króna. Það var talið lyk­il­atriði í mála­ferl­unum að út­drátt­ur úr er­ind­inu var birt­ur á ensku á heimasíðu Hann­es­ar Hólm­steins. Af þeim sök­um hefði mynd­ast grund­völl­ur fyr­ir mála­ferl­um í Englandi.

Greip ekki til varna

Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði í samtali við Morgunblaðið að sér hefði fundist fráleitt að hægt væri að draga hann fyrir dóm í Englandi fyrir ummæli sem hann lét falla hérlendis. Hannes Hólmsteinn sagði að hann hefði, að ráði lögfræðinga sinna ákveðið að grípa ekki til varna  vegna þess að því fylgdi gríðarlegur kostnaður að eiga í málaferlum í Englandi. Kveðinn var upp útivistardómur og Jón innheimti bæturnar af hörku. Hannes lenti í miklum vandræðum og endaði með því að selja Kjartani Gunnarssyni húsið sitt. Enn kom huldumaður til hjálpar.

- Auglýsing -
Frétt DV um vandræði Hannesar vegna dómsins í Bretlandi

Útdrátt­ur­inn úr er­ind­inu var á heimasíðu Hann­es­ar Hólm­steins frá 1999 til 2004 þegar hann lokaði heimasíðunni „til að losna við þetta stríð við Jón Ólafs­son“. Hann­es Hólm­steinn kvaðst eng­an tíma hafa haft til að sinna mál­inu enda á kafi í ritstörf­um á þess­um tíma auk þess sem hann lagðist á sjúkra­hús vegna veik­inda stuttu eft­ir að málið var höfðað. Þetta eru að líkindum hæstu bætur sem Íslendingi hefur verið gert að greiða landa sínum. Hannes lenti í fjárhagserfiðleikum vegna þessa en tókst með góðri hjálp að vinna sig út úr þeim.

Stolið frá Nóbelsskáldi

Þriðja málið sem olli Hannesi erfiðleikum var þegar hann skrifaði ævisögu Nóbelsskáldsins Halldórs Kiljans Laxneness og tók þá ófrjálsri hendi texta skáldsins án þess að geta heimilda. Auður Laxness, ekkja Halldórs Kiljans, lögsótti Hannes sem var dæmdur fyrir ritstuld og gert að greiða bætur.

Málavextir eru að árið 2003 kom út bókin Halldór 1902-1932, ævisaga Halldórs Kiljans Laxness, eftir Hannes H. Gissurarson. Auður taldi að Hannes hefði við ritun bókar sinnar nýtt sér í miklum mæli texta Laxness og með því framið umfangsmikil brot á höfundarétti. Taldi hún í bókinni mætti finna 120 tilvik þar sem Hannes hefði brotið gegn höfundarlögum.  Hæstiréttur féllst á sjónarmið ekkjunnar og kvapð upp dóm í mars 2008. Hannes þurfti að greiða 1,5 milljón króna fyrir brot á höfundarétti, auk þess sem hann var dæmdur til að greiða 1,6 milljónir í málskostnað. Hannes hafði verið sýknaður í Héraðsdómi vegna málsins en Hæstiréttur snéri dómnum.

Þrátt fyrir dóminn hélt Hannes starfi sínu sem prófessor við Háskóla Íslands. Málið hafði engar afleiðingar fyrir hann og fékk hann ekki einu sinni áminningu.

Hluti greinarinnar birtist áður í Stundinni en höfundur er sá sami og nú.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -