Sunnudagur 19. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Hún sagði mér að fangelsið væri öruggara en hjónabandið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Móðir Nöru Walker, sem var dæmd í 18 mánaða fangelsi hérlendis fyrir að bíta hluta tungunnar úr þáverandi eiginmanni sínum, segist hafa verið lömuð af ótta þegar hún fékk fréttir af því að dóttir hennar sæti í fangelsi hinu meginn á hnettinum. Þrátt fyrir að vera ósátt við þá meðferð sem Nara fékk frammi fyrir íslenskum dómstólum er hún mjög hrifin af Íslandi og íslenskri þjóð.

Umrætt atvik átti sér stað í byrjun nóvember 2017. Nara og þáverandi eiginmaður hennar höfðu boðið ónefndri konu og bandarískum ferðamanni heim til sín eftir að þau höfðu verið úti að skemmta sér í miðborg Reykjavíkur. Staðfest er að til ósættis hafi komið milli eiginmannsins og bandaríska ferðamannsins sem endaði með því að þeim síðarnefnda var vísað á dyr. Sagði bandaríski ferðamaðurinn fyrir dómi að maðurinn hafi verið mjög æstur og fleygt honum niður stiga með ókvæðisorðum. Þá hafi Nara og eiginmaður hennar rifist þegar hann forðaði sér út úr húsinu.

Nara hélt því fram fyrir dómi að eiginmaður hennar og hin konan í samkvæminu hafi veist að henni og að hún hafi bitið hluta úr tungu hans í nauðvörn. Læknisvottorð sem lagt var fyrir dóminn sýndi að Nara hafði hlotið áverka. Bæði eiginmaðurinn þáverandi og umrædd kona, sem nú eru í sambúð samkvæmt dómnum, sögðu hins vegar að Bandaríkjamaðurinn hafi farið í mesta bróðerni og það hafi ekki verið fyrr en eftir að hann var farinn sem Nara hafi veist að þeim báðum.

Nara var dæmd í 12 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur en Landsréttur þyngdi dóminn í 18 mánuði, þar af voru þrír mánuðir óskilorðsbundnir. Mál Nöru hefur vakið mikla athygli og söfnuðust vinir hennar saman fyrir utan fangelsið á Hólmsheiði þegar hún hóf afplánun í febrúar til að sýna henni stuðning. Vinir Nöru í Ástralíu hófu undirskriftasöfnun til stuðnings henni sem um 43 þúsund manns hafa skrifað undir og sjálf hefur Jane skrifað bréf til forseta Íslands, forsætisráðherra og dómsmálaráðherra þar sem farið er fram á að hún verði náðuð.

Heillaði hana upp úr skónum

Mannlíf ræddi við Jane Lumeah, móður Nöru, sem er sérstaklega gagnrýnin á málsmeðferðina frammi fyrir dómsólum, þá sérstaklega að ekki hafi verið tekið tillit til þess að hún hafi löngum sætt ofbeldi af hálfu eiginmanns síns. Segist Jane hafa vitað að þannig væri ástatt í hjónabandi þeirra. „Það voru viðvörunarljós. Ég man eftir einu tilviki, í Brisban, þar sem hún endaði á sjúkrahúsi með brákuð bein í andliti. Nara hafði sofnað á sófanum og hann missti hana þegar hann bar hana í rúmið. Þau á sjúkrahúsinu spurðu hvort hann hafi gert þetta. þau vildu að hún kæmi aftur daginn eftir en hann leyfði henni það ekki.“

Það var hins vegar ekki fyrr en tveimur mánuðum fyrir kvöldið örlagaríka sem Nara trúði móður sinni fyrir því að hún væri beitt ofbeldi. Þá voru þær staddar í Hong Kong og átti Jane flug heim til Ástralíu daginn eftir. „Hann virkaði svo veraldarvanur og heillandi og hann heillaði hana upp úr skónum. Hún elskaði hann og fluttist til Evrópu með honum. Nara varð vör við að hann varð uppstökkur, drykkja hans jókst, aðrar konur og svo framvegis. En hún studdi hann alltaf, hún virkilega elskaði hann. Hún trúir á fólk, hún trúði á hann og var var tilbúin til að fyrirgefa honum. Hún sér það góða í fólki. “

- Auglýsing -

Fangelsið öruggara en hjónabandið

Jane komst að því að Nara hafi verið handtekin þegar hún fékk skilaboð frá eiginmanninum þáverandi. „Ég fékk skilaboð frá eiginmanni hennar sem sagði að Nara væri „…í fangelsi þar sem hún ætti heima“ og að ég „ætti að sjá hvað dóttir mín hafi gert honum“. Ég var leið fyrir hans hönd og skelfingu lostin fyrir hönd Nöru.

Ég hringdi á lögreglustöð í Reykjavík og talaði við vingjarnlegan fulltrúa. Hann sagði að Nara væri við góða heilsu og að ég gæti talað við hana daginn eftir. Ég sagði honum að eiginmaðurinn hennar hafi margoft beitt hana ofbeldi. Ég spurði hvort hún væri meidd. Mér leið virkilega illa. Þegar ég hringdi daginn eftir hafði henni verið sleppt og ég vissi ekkert hvar hún var. Það var ekki fyrr en ég talaði við Nöru nokkrum tímum síðar að ég frétti hvað raunverulega gerðist. Lögreglan hafði skutlað henni aftur til eiginmannsins og tekið vegabréfið af henni. Svo fór ég að sjá fyrirsagnir í fjölmiðlum. Ég óttaðist mjög um öryggi hennar og hún var ein á báti.“

- Auglýsing -
Landsréttur þyngdi dóm Nöru Walker úr 12 mánuðum í 18.

Jane er sannfærð um að dóttir hennar hafi verið beitt óréttlæti við málsmeðferðina. „Í öllum öðrum Schengen-löndum hefði frumkvæðismaðurinn að ofbeldinu, sá sem hefur beitt heimilisofbeldi árum saman, verið látinn bera sök á því sem átti sér stað þetta kvöld. Ég skil ekki hvers vegna áralangt heimilisofbeldi var ekki tekið til greina, að ekki hafi verið hlustað á dóttur mína. Ég er mjög leið yfir því.“

Jane segir að fangelsisvistin hafi vissulega tekið á Nöru en að sama skapi hafi hún fengið tækifæri til að uppgötva sjálfa sig. „Hún hefur sagt að fangelsið sé í raun öruggara en hjónaband hennar. Hún hefur nýtt tímann vel, hún hefur skrifað, æft og málað. Hún fær að hringja í mig á Skype einu sinni í viku. Það er eins og veisla fyrir mér. Þegar við tölum saman sé ég að hún er að reyna að gera það besta úr stöðunni en ég sé líka að þetta er henni erfitt, að vera aðskilin frá vinum sínum, einangruð, ófrjáls.“

Jane segir að til að bæta enn á óvissuna hafi Nöru borist bréf þar sem henni var tilkynnt að hafið sé ferli um mögulega brottvísun úr landi eftir að afplánun lýkur. Slík niðurstaða gæti þýtt miklar hömlur á ferðafrelsi hennar í Evrópu, segir Jane sem býst þó við að Nara snúi aftur til Ástralíu eftir að hún hefur setið af sér dóminn. „Hún þarf tíma með fjölskyldu sinni til að jafna sig. Hún hefur lifað í samfelldum ótta undanfarna 17 mánuði. Hún hefur þurft að glíma við aukin einkenni áfallastreituröskunar, áralangt ofbeldi og nú síðast réttarhöldin sem virðast framlenging á misnotkuninni.“

Jane býst þó ekki við að hún verði heima lengi. Eitt af fyrstu verkum Nöru verði að fara með málið skrefi lengra, til Strassborgar. „Hún ætlar með málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hún vill gera það, ekki bara sín vegna heldur einnig fyrir þær konur sem hafa þurft að ganga í gegnum sömu reynslu. Hún vill að lögin veiti konum sem hafa þurft að sæta heimilisofbeldi meiri vernd.“

Fékk heimsókn frá forsetafrúnni

Þrátt fyrir að dvöl Nöru á Íslandi hafi verið þyrnum stráð segir Jane hana tala vel um land og þjóð. Hér hafi hún eignast góða vini og fengið stuðning úr mörgum ólíkum áttum. „Hún hefur fengið stuðning frá mörgu dásamlegu fólki. Til dæmis þeim sem mættu fyrir utan fangelsið og forsetafrúnni, Elízu Reid, sem heimsótti hana sem almennur borgari, þessir hlutir skipta hana svo miklu máli. Nara hafði hitt forstafrúna áður en hún var sakfelld og ég brast í grát þegar ég heyrði að hún hefði heimsótt hana. Það er svo mikil viðurkenning fyrir dóttur mína og endurspeglar það sem er svo gott við Ísland. Ég og Nara erum svo þakklátar fyrir þann stuðning sem okkur hefur verið sýndur, bæði á Íslandi og annars staðar.“

Nara Walker hóf þriggja mánaða afplánun í febrúar.

Jane býst þó ekki við að dóttir hennar staldri lengi við í Ástralíu. „Ég held að hún óttist hvaða áhrif dómurinn og möguleg brottvikning hafi á hennar ferðafrelsi og atvinnu. Það munu verða margar hindranir. Hún mun koma aftur til Ástralíu og tengjast landinu og fjölskyldunni á ný. Við erum mjög náin en ég veit að hún mun fara aftur þegar henni er batnað. Hennar atvinna er alþjóðleg, hún nærist á öllum menningarkimum. Hún hefur myndað djúp og einlæg tengsl við landið ykkar. Hún hefur kynnst fólki sem eru orðnir henni eins og fjölskyldumeðlimir og það er á Íslandi sem hún hefur komist í raunveruleg kynni við sjálfa sig. Arfleifð okkar er evrópsk og Ísland er orðið eins og annað heimili. Ég hef tvívegis heimsótt Nöru til Íslands og þótt tilgangurinn hafi verið í tengslum við þennan skelfilega atburð þá var ég hrærð yfir þeim móttökum sem ég fékk frá fólkinu. “

Fangelsismálastofnun hafnaði beiðni Mannlífs um að ræða við Nöru og var vísað til hagsmuna brotaþola, það er eiginmanns hennar, við þá ákvörðun og þess hversu stór hluti refsingarinnar er skilorðsbundinn.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -