Háværa umræðu má finna á svæði íslenskra hundeigenda á Facebook um gæludýrin og Covid. Hundaeigendur eru margir ráðalausir hvort þeim sé óhætt að vera með dýrunum á tímum einangrunar og sóttkvíar.
Sigurdís Helgadóttir hundeigandi stofnar til umræðunnar. Hún segist þar Covid-smituð og leitar ráða hjá kollegum hvort hún megi fara út með hundinn sinn, tíkina Sonju sem sé orðin nokkuð göngutúrasvellt að mati eigandans. „Er ekki einhver hér sem veit hvernig það virkar, èg er með Covid. Ætli það sè í lagi að vinkona mín fari með hundinn minn í göngutúr? Væri æði ef bara þeir sem vita þetta 100% myndu svara,“ segir Sigurdís.
Og ekki stendur á svörunum í hópnum. Ylfa Carlsson kemur sér beint að kjarnanum. „Þú ert með FLENSU, ekki hundurinn,“ segir Ylfa sem telur öðrum greinilega heimilt að fara út með Sonju.
Rósa Björk Guðjónsdóttir telur það einnig í lagi. „Það þarf að fara út með hundinn! Það ætti að vera í lagi að félagi/ vinkona fari út með hundinn eða taki hann tímabundið í fóstur og passi eftir fremsta megni uppá sóttvarnir. Gangi ykkur vel. Ps. það er ekkert 100% í þessu,“ segir Rósa.