Það er líf og fjör í kringum og inn í Costco og þá ekki síður á samfélagsmiðlum; þar eru til nokkrir hópar tileinkaðir versluninni og flestir eru þeir fjölmennir. Og þar geta skapast ansi áhugaverðar umræður um allt milli himins og jarðar sem tengist Costco á einn eða annan hátt.
Það hefur verið lengi til umræðu í samfélaginu hvort leyfa eigi gæludýr eins og hunda og ketti á kaffihúsum, verslunum og líka til dæmis í strætó.
En hvað með Costco? Í einum Costco-hópnum var þessi spurning lögð fram um hvort ætti að hleypa hundum inn í verslunina og sköpuðust miklar og fjörugar umræður um málið:
Kona ein spyr: „Hæ, vitið þið hvort að Costco leyfi litla hunda í bandi inn í búð? Svo margar búðir sem farnar eru að leyfa þetta og vona að Costco geri það líka. Síðast þegar ég spurði í afgreiðslunni þá voru þau ekki viss og ég átti að finna einhvern yfirmann sem ég fann ekki.“
Önnur kona svarar – með spurningu – og hefur engan áhuga á hundahaldi í risaversluninni áðurnefndu: „Hvernig tryggir þú að hundurinn pissi ekki innandyra i Costco?“
Konan sem bar upp spurninguna um mögulegt hundahald í Costco er ekki sein til svars og er bara nokkuð hnyttin: „El hana upp að pissa ekki innandyra neins staðar. Hvernig tryggir þú að þín börn pissa ekki á sig í búðum?“
Þá grípur maður einn orðið: „Samkvæmt reglum sem heilbrigđiseftirlitinu er gert ađ starfa eftir og er væntanlega eftirlitsađili međ Costco, þá má ekki leyfa nein dýr ì bùđum sem versla međ matvæli, þannig ađ þeir geta væntanlega lent ì vandamálum ef þeir leyfa þetta.“
Annar maður segir: „Hundur á ekki erindi í stórverslun; ekki vegna hrædds fólks heldur sjálfs síns vegna; þarna inni er ekkert sem gerir hunda glaða en margt sem hræðir og stressar þá.“
Að lokum blandar enn einn maðurinn sér inn í umræðuna og er hlynntur áframhaldandi hundabanni – klárar eiginlega umræðuna með þessum orðum:
„Ég er hræddur við öfga-femínista. Á ekki að banna þá i búðum eða láta passa þá? Og ekki gleyma öllum sem eru hræddir við trúða; það verður að banna alþingismönnum að fara í Costco svo við hin getum verslað þar óhrædd.“