Lögregla var kölluð út seinnipart dags í gær vegna hunds sem réðst á mann í Laugardal. Maðurinn hafi verið að skokka þegar hundurinn stökk á hann og beit hann í lærið. Hlaut maðurinn minniháttar áverka og var MAST tilkynnt um atvikið. Um svipað leyti barst lögreglu tilkynning um þjófnað á hóteli í sama hverfi. Fartölvu hafði verið stolið og þjófurinn á bak og burt.
Ölvaður maður ,,rústaði’’ bifreið sinni er hann ók utan í gröfu í Hafnarfirði í gærkvöldi. Maðurinn var einnig undir áhrifum fíkniefna og fékk aðhlynningu á slysadeild áður en hann var látinn gista í fangaklefa lögreglu. Þá hafði lögregla afskipti af fimm öðrum ökumönnum í gærkvöldi og nótt. Voru þeir allir undir áhrifum vímuefna og einn reyndist vera á stolinni bifreið. Að lokum óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð lögreglu í Kópavogi eftir að farþegi neitaði að borga fyrir farið og flúið af vettvangi.