„Ég kalla þetta líf, ekkert líf„ segir Zesilua þegar blaðamaður stendur fyrir utan tvö rauð tjöld sem tjaldað hefur verið fyrir utan Útlendingastofnun í Hafnarfirði og spyr þá sem inni sitja hvort þeir vilji tala.
Zesilua, Elah Amadou og einn annar koma skríðandi út úr tjöldunum í nístingsfrosti og hávaðinn frá umferðinni á Fjarðarhrauni er yfirgnæfandi. Í það minnsta þrír umsækjendur alþjóðlegrar verndar hafa tjaldað í mótmælaskyni þar sem þeir hafa nú verið sviptir lágmarksþjónustu.
„Við höfum ekki rétt á mat, strætókorti, ekkert að gera og svo er okkur bolað út, – Til hvers?“
Búsetuúrræði á vegum ríkislögreglustjóra í Hafnarfirði lokar klukkan 10 á morgnanna og mennirnir sendir út: „Við erum sendir út, en í hvað? Við eigum enga fjölskyldu hér eða aðstandendur og erum án peninga.“
Lýsa mennirnir framgöngu mála hjá Útlendingastofnun sem endalausri bið sem engum árangri skili. Krafa mannanna er afnám þjónustusviptingarinnar og að hljóta alþjóðlega vernd hér á landi.
„Ég mun deyja hér,“ segir Zesilua en mennirnir eru í hungurverkfalli og segja þeir félaga sína hafa reynt að færa þeim eitthvað til að borða en þeir neitað.
Útlendingastofnun hefur engu skeytt um mótmæli þeirra og lýsa þeir vonbrigðum sínum og eru þeir endalaust þreyttir á biðinni. Mennirnir eru réttinda laustir og mega ekki að vinna eða sjá sér farborða. „I want to work,“ segir einn þeirra en þar sem þeir eru ekki með kennitölu standa þeir réttindalausir. „Ég get ekki skilið, af hverju ég fæ ekki kennitölu. Ég sótti um kennitölu en var sagt að hætta að reyna.“
Endanleg synjun
„Ríkislögreglustjóri tók við þessu búsetuúrræði af Vinnumálastofnun og úrræðið er fyrir þá sem eru komnir með endanlega synjun. Þeir geta verið í úrræðinu í 30 daga en ef þeir eru í samstarfi geta þeir verið lengur.
Ef menn eru ekki tilbúnir til samstarfs, sem lítur helst að öflun ferðaskilríkja, þá er þjónustan felld niður í samræmi við 33. grein útlendingalaga eftir að henni var breytt,“ segir Kristín María Gunnarsdóttir, deildarstjóri stoðdeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is. Jafnframt kemur fram að mönnunum sé velkomið að nýta sér búsetuúrræði ríkislögreglustjóra að því gefnu að þeir séu samvinnuþýðir að sínum brottflutningi samkvæmt ákvæðum útlendingalaga.