Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

„Hvað fær menn til að kaupa vændi?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fyrir tveimur árum sagði Eva Dís Þórðardóttir fyrst frá því opinberlega að hún hefði stundað vændi um nokkurra mánaða skeið í Danmörku árið 2004. Vændið var afleiðing kynferðisofbeldis sem hún hafði ítrekað orðið fyrir. Hún kallar eftir breyttum viðhorfum til vændiskvenna sem nánast allar stunda vændi af neyð og hún hefur áhuga á að skilja hvað einkennir hugarheim karla sem kaupa vændi.

„Ég tek því alls ekki sem sjálfsögðum hlut að ég lifði þetta af. Þetta var tvísýnt á tímabili en ég er þakklát fyrir að vera á góðum stað í dag,“ segir Eva Dís. Þarna á hún ekki við tímabilið sjálft þegar hún var í vændi heldur tímana sem komu á eftir. „Á meðan á vændinu stóð náði ég alveg að ljúga því að mér að þetta væri bara æðislegt, sjálfsvígshugsanirnar komu síðar, þegar ég fór að óttast hvað gerðist ef þetta kæmist upp. Hugsanir mínar gagnvart því að segja einhverjum frá voru að þar með væri ég að loka þeim samskiptum. Hugmyndir mínar samræmdust því ekki að fólk gæti þekkt mig áfram ef það vissi þetta, skömmin var svo svakaleg. Ég sá fyrir mér að ef þetta fréttist þá yrðu það endalokin. Gæti ég farið í ástarsamband án þess að verða heiðarleg við maka minn? Hvað með foreldra mína og systkini, myndu þau enn samþykkja mig?“

Leyndarmálið burðaðist Eva Dís með árum saman eða þar til hún fyrir röð atvika rataði til Stígamóta í ráðgjöf árið 2012. Þá voru níu ár síðan vændinu lauk og vanlíðan Evu hafði vaxið með hverju árinu sem leið. „Árið 2011 var mikið áfallaár. Faðir minn svipti sig lífi í maí eftir að hafa fallið eftir langa edrúmennsku og vanlíðan yfir því bættist ofan á allt annað sem ég hafði aldrei unnið úr. Ég var alveg brjáluð út í lífið, tilveruna og heiminn allan. Ég fór að fá kvíðaköst í vinnunni þar sem ég náði ekki andanum og það láku oft niður tár þó að ég væri ekki að gráta, þetta voru reiðitár, ég nötraði bara af reiði. Systir mín sem ég var mikið í samvistum við á þessum tíma benti mér á að hún gæti ekki umgengist mig svona uppfulla af heift. Ég yrði að gera eitthvað í málunum. Úr varð að ég fór að hitta séra Önnu Sigríði Pálsdóttur sem er vel að sér varðandi meðvirkni og alkóhólisma og hefur verið ráðgjafi hjá Lausninni. Hún mælti með því að ég færi á námskeið hjá þeim í september en þá hafði ég engan tíma til þess,“ segir Eva sem var á þessum tíma verslunarstjóri í Heilsuhúsinu.

„… hann útskýrði fyrir mér að ég væri brotin kona og hann þyrfti að gera þetta til að opna orkubrautirnar mínar. Svo nauðgaði hann mér,“

Nauðgað af meðhöndlara

Í október 2011 fór hún svo í endajaxlatöku sem hún var búin að fresta lengi. „Það verða einhver mistök í aðgerðinni, tengd taugaendum, sem tannlæknirinn vildi ekki viðurkenna. Hann rétti mér nafnspjald hjá meðhöndlara sem hann sagði mér að hitta og ég gerði. Meðhöndlarinn lagaði á mér kjálkann en vildi svo fá mig í annan tíma því hann sagðist þurfa að skoða á mér axlirnar og úlnliðina líka. Ég mætti í þann tíma og hann útskýrði fyrir mér að ég væri brotin kona og hann þyrfti að gera þetta til að opna orkubrautirnar mínar. Svo nauðgaði hann mér,“ segir Eva. Hún labbaði út frá honum eins og vofa af sjálfri sér, keyrði af stað og lenti í bílslysi. Hún hlaut nokkra áverka. Þremur vikum seinna lenti hún aftur í bílslysi, á aðfangadag 2011, þá velti hún bílnum og slasaðist enn meira. „Fyrir mér var þetta nokkurs konar „game over“ og þessi bílvelta eins og mín síðasta aðvörun – ef ég gerði ekki eitthvað í mínum málum þá myndi ég deyja,“ segir Eva sem í kjölfarið missti einnig vinnuna þar sem hún gat ekki sagt vinnuveitandanum hve lengi hún yrði að ná sér eftir slysin.

„Níunda janúar 2012 mætti ég á námskeið hjá Lausninni í Skálholti og ráðgjafi þar sendi mig í Stígamót í kjölfarið. Þar hitti ég magnaða konu, hana Dóru, og þar fór ég smám saman að vinna í öllu sem hafði hent mig frá barnsaldri. Ég var hins vegar búin að vera hjá henni í næstum því heilt ár þegar ég opnaði mig loksins um vændið.“

Gerði allt til að verða samþykkt

- Auglýsing -

Vændi er eitt af afleiðingum kynferðisofbeldis og þannig var það einnig hjá Evu Dís. „Fyrst þegar ég kom í viðtal hjá Stígamótum var ég látin fylla út spurningalista þar sem meðal annars átti að haka við hvaða afleiðingar ég hefði glímt við eftir kynferðisofbeldið. Einn af möguleikunum var vændi en ég hakaði ekki í hann, enginn mátti vita um það. Ég tel að margar aðrar konur í minni stöðu hugsi eins þegar þær mæta í viðtal til Stígamóta og því sé tölfræðin um þessi mál skökk.“

„Fyrst þegar ég kom í viðtal hjá Stígamótum var ég látin fylla út spurningalista þar sem meðal annars átti að haka við hvaða afleiðingar ég hefði glímt við eftir kynferðisofbeldið. Einn af möguleikunum var vændi en ég hakaði ekki í hann, enginn mátti vita um það.“

Eva Dís varð fyrst fyrir kynferðisofbeldi þegar hún var 10 ára en hún telur að einelti sem hún varð fyrir alla sína grunnskólagöngu hafi líka haft sitt að setja. „Það var mikil útskúfun í eineltinu og ég upplifði ekki samþykki. Strax og ég tók mín fyrstu skref í ástarsamböndum var komin þessi tilfinning að ég þyrfti að vera spennandi kynferðislega, til að vera samþykkt. Þegar eldri áhugaverður einstaklingur sýndi mér áhuga gerði ég allt til að halda í athyglina. Ég gerði mér enga grein fyrir að ég mætti sjálf ráða hvað mér fyndist spennandi og hvað ég vildi gera. Þannig fór ég út í lífið og upplifði oft kynferðislegt ofbeldi í samböndunum sem ég var í án þess að hafa hugmynd um það. Ég var með alls kyns furðulegar hugmyndir – sagði að fólk ætti ekki að takmarka hvort annað í samböndum – ég ætti að vera tilbúin til að upplifa hluti með maka mínum sem mig langaði ekkert endilega sjálf og gerði þá kröfu á móti. Ofbeldið var á báða bóga. Ég þráði að vera samþykkt þannig að ég var alveg tilbúin að fara yfir mörkin mín, án þess að vera meðvituð um það, ég hunsaði þau bara. Fyrsti kærastinn minn hélt fram hjá mér, foreldrar mínir skildu í kjölfar þess að pabbi hélt fram hjá mömmu og fyrir mér var það slæmt. Ég gerði því allt til að koma í veg fyrir framhjáhald eða að vera yfirgefin.“

Kenndi sér sjálfri um

- Auglýsing -

Eva hélt áfram að upplifa sig utangátta í framhaldsskóla og flosnaði um tíma upp úr skóla. Hún kláraði samt að lokum stúdentsprófið. Á þessum árum var Evu nauðgað eftir að hafa farið heim með strák af djamminu. „Það sá verulega á mér á eftir en ég fór strax að kenna sjálfri mér um; ég var of drukkin, í of stuttum kjól og það hafði sést til okkar í sleik á dansgólfinu fyrr um kvöldið. Ég tók alla skömmina á mig og fannst ég ekki hafa neina haldbæra sönnun til að kæra, enda var þetta hvort sem er í raun mín eigin sök. Ég var yfirhöfuð uppfull af sjálfshatri, sektarkennd og skömm.“

Tvítug að aldri kynntist Eva 46 ára manni í gegnum einkamál.is sem kynnti hana fyrir BDSM sem henni fannst spennandi og tekur fram að hún hafi ekki fordóma fyrir. „Eftir á að hyggja hef ég sennilega verið að fá útrás fyrir sjálfshatur og sjálfsskaða með þessum hætti en ég var að auki með átröskun á þessum tíma. Í kjölfarið kynntist ég svo dönskum manni í gegnum BDSM-síðu sem bauð mér að koma til sín til Danmerkur. Ég laug að fólkinu mínu að ég væri farin í Kaupmannahafnar að vinna á hóteli en staðreyndin var sú að ég hafði gert samning við þennan mann um að stunda með honum BDSM gegn ókeypis fæði og húsnæði. Þegar til kom var þetta öðruvísi en ég hafði gert mér hugmyndir um og kannski var þarna einhver arða af sjálfsvirðingu sem gerði að verkum að ég vildi ekki finna mig í hverju sem var. Ég rauf því samninginn, fór sjálf að leigja og fann mér vinnu við uppvask.“

Sambandið varð strax sjúkt og ég sætti mig við alls konar skrítnar aðstæður og uppákomur. Eftir einhvern tíma reddaði hann mér vinnu á símanum í vændishúsi í útjaðri Kaupmannahafnar, en þetta var árið 2004.“

Starfaði á vændishúsum

Ekki leið á löngu uns Eva kynntist manninum sem átti eftir að hafa meiri áhrif á líf hennar en hana óraði fyrir, fyrrverandi sambýlismanni sínum. Hún heillaðist af því hve sætur og sjarmerandi hann var, hve fallega hann talaði við hana og um hana. Hann var nýskilinn og átti tvö börn sem Eva gekk í móðurstað. „Ég var bara saklaus ung stúlka frá Íslandi og gerði mér ekki grein fyrir stöðu hans í samfélaginu. Hann var í ýmsum vafasömum viðskiptum og rak meðal annars fylgdarþjónustu. Löngu eftir að við byrjuðum að vera saman sagði hann mér til dæmis frá því að hann hefði verið í fangelsi og mörgum árum seinna komst ég fyrst að raunverulegri ástæðu þess að hann sat inni. Sambandið varð strax sjúkt og ég sætti mig við alls konar skrítnar aðstæður og uppákomur. Eftir einhvern tíma reddaði hann mér vinnu á símanum í vændishúsi í útjaðri Kaupmannahafnar, en þetta var árið 2004. Þegar ég var búin að vinna þar um tíma komst ég að því að hann hafði haldið fram hjá mér, meira en venjulega. Það hafði verið þögult samkomulag um að hann væri stundum með öðrum konum en ekkert meira en það, ekki annað samband. Þegar upp komst að hann hafi haldið við konu í einhvern tíma sveið það svo mikið að ég flutti út. Þegar konurnar á vændishúsinu fóru svo að spyrja mig af hverju ég væri ekki frekar að selja mig en að vera á símanum, það væri miklu meira upp úr því að hafa, þá lét ég bara slag standa. Vildi með því líka særa sambýlismanninn minn.“

Eva vann á þremur vændishúsum þetta ár en endaði svo á að taka aftur saman við manninn. „Honum sárnaði að ég hefði verið í vændinu en það kom samt ekki í veg fyrir að hann bæði mig um að taka nokkur „gigg“ í fylgdarþjónustunni fyrir sig. Hann hafði klúðrað málunum þar, hafði verið að sofa hjá stelpunum sem unnu fyrir hann og þær fóru að svíkja hann um að taka vaktir. Þá reddaði ég auðvitað málunum.

„Honum sárnaði að ég hefði verið í vændinu en það kom samt ekki í veg fyrir að hann bæði mig um að taka nokkur „gigg“ í fylgdarþjónustunni fyrir sig.“

Við fengum svo einhverjar háleitar hugmyndir um að verða „venjuleg“ fjölskylda. Hann hætti með fylgdarþjónustuna og ég hætti í vændinu. Við fórum að reyna að eignast saman barn. Ég varð nokkrum sinnum barnshafandi en missti alltaf fóstrið. Þetta var erfiður tími í öllum skilningi en börnin hans gáfu mér mikið og mér þótti vænt um þau. Vorið 2008 var lengsta meðgangan mín en þá missti ég fóstrið eftir 16 vikur. Þegar ég komst að enn einu framhjáhaldinu ákvað ég að losa mig úr sambandinu fyrir fullt og allt og flutti heim.“

Kynlíf ekki grunnþörf

Eva gerði það sem hún gat til að lifa eðlilegu lífi eftir heimkomuna. En stóra leyndarmálið nagaði hana að innan auk þess sem hún hafði ekki unnið úr öllu kynferðisofbeldinu. Það var henni því mikið lán að rata til Stígamóta. Þegar hún loksins opnaði sig um vændið við ráðgjafann hjá Stígamótum var henni boðið að fara í sjálfshjálparhóp með öðrum konum sem áttu sömu reynslu að baki, svokallaðan Svanshóp. Eva þurfti hins vegar að bíða talsvert eftir því að tækist að safna í slíkan hóp. Annað stórt verkefni beið hennar 2013. „Í febrúar það ár fór ég til læknis þar sem mér var búið að líða illa lengi. Læknarnir vildu meina að ég þyrfti bara að borða hollan mat og hreyfa mig. Þegar það datt út úr mér að ég hafði ekki farið á túr í þrjá mánuði var ákveðið að athuga með blóðgildi. Ég var send beint á bráðamóttöku þar sem kom í ljós að ég var við dauðans dyr vegna blóðleysis,“ segir Eva sem fór í alls konar rannsóknir en var svo send heim á járnkúr. Stuttu seinna var hún aftur komin á bráðamóttöku vegna yfirliðs og vanlíðunar en þá var ástandið enn hættulegra en síðast. Aftur hófust miklar rannsóknir, að lokum var ákveðið að taka sneiðmynd og í ljós kom risastórt æxli í maganum á henni. „Sextánda apríl 2013 fór ég í aðgerð þar sem tekið var heilmikið af innri líffærum; miltað alveg tekið, ⅓ af brisinu, 10 cm af ristlinum, hluti af maganum og hluti af þindinni. Ég fór svo inn og út af spítala þetta árið. En það náðist að skera allt meinið í burtu og því slapp ég við lyfjameðferð sem var mikill léttir.“

Ég komst að því að kynlíf er ekki grunnþörf en hins vegar notum við kynlíf til að uppfylla fullt af þörfum. Það er misjafnt milli persóna til hvers við notum kynlíf og það fer eftir því hvar einstaklingurinn er staddur á hverjum tíma.

Eftir að hún fékk krabbameinið ákvað hún að breyta algerlega um lífsstíl – meðal annars næringunni og viðmótinu gagnvart sjálfri sér. Eva hefur þurft að byggja sig upp líkamlega með fram hinni andlegu uppbyggingu undanfarin ár meðal annars í Virk, á Heilsustofnun í Hveragerði og á Reykjalundi sem hún segir vera himnaríki á jörðu. Einnig hefur hún verið í 12 spora samtökum við meðvirkni, verið hjá sálfræðingum og geðlæknum. „Ég er búin að fara alls konar leiðir. Fara á geðlyf, í samtalsmeðferðir, í Áfalla- og sálfræðimiðstöðina, Kvíðameðferðastöðina, í alla mögulega sjúkraþjálfun, í verkjaskóla, til heilara, hnykkjara, í dáleiðslur og nálastungur, bara nefndu það. Það breytti líka miklu þegar ég fór á námskeið hjá Umhyggjuríkjum samskiptum en þá opnaðist nýr heimur fyrir mér, ekki síst hvernig ég talaði um og við sjálfa mig. Ég fór að skilja betur hvað ég hef þörf fyrir og það byggðist á þarfalíkani. Það er munur á því hvers við þörfnumst og aðferðunum sem við notum til að uppfylla þarfirnar. Ég komst að því að kynlíf er ekki grunnþörf en hins vegar notum við kynlíf til að uppfylla fullt af þörfum. Það er misjafnt milli persóna til hvers við notum kynlíf og það fer eftir því hvar einstaklingurinn er staddur á hverjum tíma. Kynlíf getur til dæmis verið notað til að uppfylla nánd, tengsl, samveru, innileika og ást. Svo getur það verið notað til að uppfylla samþykki, virðingu og viðurkenningu. Það eru grunnþarfir að fá samþykki, viðurkenningu og kærleika. Kynlíf er ekki grunnþörf, það er alveg hægt að vera án þess. Þegar ég byrjaði hjá Stígamótum ráðlagði ráðgjafinn mér að prófa að loka á allt varðandi karlmenn og kynlíf í sex mánuði meðan ég væri að vinna í sjálfri mér og finna mörkin mín. Síðan eru liðin sex eða sjö ár og mig hefur annað slagið langað að prófa einhver náin samskipti, ekkert endilega kynferðisleg, heldur nánd, traust og innileika. Svo hef ég ekki verið tilbúin,“ segir Eva.

Frelsi að koma fram undir nafni

Í janúar 2016 var búið safna í Svanahóp í Stígamótum en að ganga í svona hóp er ekki sjálfgefið og því var oft löng bið á milli hópa en það hefur breyst. „Þarna hitti ég æðislegar konur, algerar hetjur. Það var frelsandi að geta rætt þetta á jafningagrundvelli, jafnvel gert grín. Sjá að allar vorum við að glíma við sömu afleiðingarnar. Meira að segja sjálfsvígshugsanirnar urðu á einhvern hátt eðlilegri. Hjá mér notaði ég þær eins og ventil. Ég gat lifað í dag því ég þurfti ekkert endilega að lifa á morgun og þannig komst ég í gegnum daginn. Ég lærði að hætta að dæma mig fyrir þessar hugsanir og það gaf mér aukið frelsi líka. Hins vegar eru ekkert allar konur sem lifa þetta af og ein kona sem var í hópnum 2016 er dáin.“

„Eftirspurnin eftir vændi hér á landi er mikil og óvægin. Menn sækjast jafnvel eftir að kaupa konur sem eru ekki í slíkum hugleiðingum. Þeir eru ófeimnir við að senda þeim skilaboð á samfélagsmiðlum og bjóða þeim fjárhæðir.“

Haustið 2016 þegar Eva var búin með vinnuna í Svanahópnum var fjáröflunarþáttur í sjónvarpinu fyrir Stígamót. Evu var boðið að taka þátt. „Starfskonur Stígamóta voru nærgætnar og vildu alls ekki að ég gerði þetta nema ég væri alveg viss og buðu mér að koma fram nafnlaust. Ég var hins vegar búin að ákveða að ef ég kæmi fram þá yrði það undir nafni. Það væri kominn tími til að skila skömminni. Þarna var ég líka í fyrsta sinn tilbúin að láta mína nánustu vita og ég sagði þeim frá vændinu fyrir þáttinn. Viðbrögðin voru ofboðslegur skilningur, það var sýnilega búið að vera mikið að hjá mér lengi og fólk skildi ekki af hverju ég væri að glíma við allt þetta myrkur. Ég fékk miklu meiri skilning og samþykki en ég hafði haldið. Inn í það spilaði öll sjálfsvinnan þar sem ég var meðal annars búin að læra að tjá mig. Ég gat sagt frá á yfirvegaðan, kærleiksríkan og virðingarfullan hátt. Gat sagt fólki að það mætti hafa sínar skoðanir og mætti líða eins og því liði og mér mátti líða eins og mér leið. Við gátum átt samskipti með gagnkvæmri virðingu. Áður var svo miklu meiri sársauki í kringum þetta og ég svo viss um að enginn myndi samþykkja mig. En á þessum tímapunkti var ég komin á þann stað að þurfa ekki samþykki frá öðrum því ég var farin að samþykkja sjálfa mig,“ segir Eva og bætir við að önnur ástæða hafi orðið til þess að hún ákvað að koma fram undir nafni. „Ef það að ég stíg fram hjálpar bara einni konu þá er það þess virði og það hefur nú þegar gerst. Það hafði kona samband við mig eftir söfnunarþáttinn og sagði mér að hún hefði verið búin að taka ákvörðun um sjálfsvíg en hætt við eftir að hún sá viðtalið við mig. Við grétum saman í símann.“

Eva starfar nú sjálf sem leiðbeinandi hjá Stígmótum og stýrir sjálfshjálparhópum bæði vegna vændis og kynferðislegs ofbeldis. „Eftirspurnin eftir vændi hér á landi er mikil og óvægin. Menn sækjast jafnvel eftir að kaupa konur sem eru ekki í slíkum hugleiðingum. Þeir eru ófeimnir við að senda þeim skilaboð á samfélagsmiðlum og bjóða þeim fjárhæðir. Þar með eykst hættan á að fleiri dragist út í vændi því þegar er búið er að fara yfir þessi mörk einu sinni er ekkert aftur snúið. Ég veit einnig að menn sem hafa keypt ákveðnar konur eru oft ekkert tilbúnir að sleppa af þeim tökunum þó þær vilji draga sig út úr samskiptunum. Þeir sitja jafnvel um þær og eru tilbúnir að skipta um símanúmer og þess háttar ef þær reyna að blokka þá. Konur gera sér ekki alltaf grein fyrir hvers konar ormagryfju þær lenda í þegar þær leiðast út í vændi,“ segir Eva.

Vill skilja karla sem kaupa vændi

Eva segist hafa velt því töluvert fyrir sér hvað fái karlmenn til að kaupa vændi og hana langi að reyna að skilja það. „Ég væri svo til í að eiga samtal við vændiskaupendur. Hvað er svona heillandi við að eiga þessi nánu innilegu samskipti við einhvern sem þú ert algerlega aftengdur tilfinningalega? Ég skil ekki þessa grimmd, að meiða svona og svo útskúfa fólki úr samfélaginu okkar. Mig langar að sjá sjálfshjálparhópa fyrir karlmenn sem eru tilbúnir að skoða sína eigin hegðun og eigin sársauka. Ekki bara þann sársauka sem þeir valda til dæmis vændiskonunni. Hvað er þeim svo sárt og óheilað? Hvað þurfa þeir að laga til að geta farið að njóta samskipta við aðra, orðið betri menn og farið að blómstra í lífi sínu? Það eru til hópar fyrir karlmenn sem hafa beitt ofbeldi og vilja hætta því, af hverju ættu ekki að vera til hópar fyrir menn sem vilja hætta að kaupa vændi? Í framtíðinni væri gaman að geta litið til baka og sagt; „hey, manstu einu sinni var hægt að kaupa kynlíf af annarri manneskju“, eða „spáið í það að einu sinni fannst fólki allt í lagi að stunda kynlíf með einhverjum sem kannski vildi það ekki alveg“. Ég held við séum á leiðinni þangað, öll þessi umræða gerir þetta svo miklu opnara.

Það eru til hópar fyrir karlmenn sem hafa beitt ofbeldi og vilja hætta því, af hverju ættu ekki að vera til hópar fyrir menn sem vilja hætta að kaupa vændi?“

Meðan samfélagið er ekki tilbúið að bera virðingu fyrir konum sem stunda eða hafa stundað vændi þá er skiljanlegt að þær séu ekki tilbúnar til að ræða opinskátt um reynslu sína. Hugmyndin um hamingjusömu hóruna er ekki sá innri sannleikur sem ég kannast við, ef hún er til ber ég virðingu fyrir henni. En við getum ekki tekið hana fram fyrir þær þúsundir vændiskvenna sem þjást í þögninni.“

Sjá líka: „Ætlaði bara að prufa og bakka út þegar ég vildi“

Vændismálum á borði lögreglu fækkar þrátt fyrir „sprengingu“

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -