Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Meirihluta lesenda Mannlífs fannst Skaupið lélegt eða í lagi: „Ég fílaði eldgosagrínið alveg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á slaginu 22:29 í gærkvöldi sátu líklegast velflestir landsmenn límdir við sjónvarpsskjái sína og fylgdust með Áramótaskaupinu. Allir hafa álit á Skaupinu og getur það verið jafn misjafnt og við erum mörg. Mannlíf setti í loftið könnun að Skaupinu loknu og spurði einfaldlega „Hvernig fannst ykkur Skaupið?“

Niðurstöðurnar eru þessar.

Rúmlega 40% af þeim sem kusu þóttu Skaupið ömurlegt. Rúm 22% sögðu það frábært og rúm 45% fannst það „Svona allt í lagi“.
Ekki nema um 2% þeirra sem tóku þátt í könnuninni horfðu ekki á Skaupið.

Mannlíf fékk einnig nokkra valinkunna álitsgjafa til að leggja mat sitt á Áramótaskaupið.

Hildur Eir Bolladóttir, prestur.

Mér finnst afar ólíklegt að nokkur muni sitja eftir með sárt ennið eftir skaupið í ár, enginn tekinn fyrir með mjög meinlegum hætti enda voru mörg stærstu mál ársins 2021 það erfið að kannski vildu höfundar skaupsins fara mjúkum höndum um þjóðarsálina. Skaupið sótti í sig veðrið þegar á leið, Kristín Þóra Haraldsdóttir átti stórleik sem Lilja Alfreðsdóttir, mér fannst karlabjörg brandarinn mjög góður og satt best að segja hló ég líka upphátt að krabbameinssýna brandaranum, Kötlugrínið var gott svo voru bara líka þarna leikarar sem eru alltaf fyndnir.

- Auglýsing -

Eva Ruza Miljevic, fjölmiðlakona og skemmtikraftur með meiru.

Áramótaskaupið byrjaði vel með upphafsatriðinu og framan af hugsaði ég, já þetta er að svínvirka. Ég skellihló til dæmis yfir kaðlaatriðinu og fjölskyldunni sem skellti sér að eldgosinu, tengdi stíft við það að góla á fjölskylduna að passa sig á covidkaðlinum. Ég hló líka hatt yfir Only Fans pabbanum og 75.000 kr tipsinu hans. Eeeeen hinsvegar fór það allt í einu að missa pung og ég fór að detta út. Villi Neto er ótvíræður áramótaskaupsmeistari og ég hefði viljað sjá hann loka skaupinu með einhverri neglu. Hvar var atriðið um alla sem tóku sprettinn í Laugardalshöllina eins og brjálæðingar til að fá fyrstu sprautuna? Og hvaaaaar var Bónus svínasketsinn!? Ég hefði viljað sjá það í skaupinu. Skaupið fær 6,3 í einkunn sem er hægt að námunda upp í 6,5. Krakkaskaupið fær hinsvegar 10 í einkunn

 

- Auglýsing -

Grétar Þór Eysteinsson, prófessor í stjórnmálafræði.

Mér hálf-síð-miðaldra karlinum hefur yfirleitt fundist áramótaskaupið vera ágætt fyrir mína parta. Gildir þá einu hvort ég hef skellihlegið að öllu Skaupinu eða ekki, að það hefur alltaf mátt finna eitthvað gott til að hlæja að og svo botnar maður ekkert í sumu og finnst eitthvað líka vera misheppnaðir fimmeyringar. Þetta skaup er engin undantekning frá þessu. Mér fannst nú brandarinn um fótboltalandsliðið vera ágætis hugmynd en var teygt úr honum um of. Það sem ekki var teygt um of var talningin í Borgarnesi. Þar hefði mátt gera meira úr en gert var og einn stuttur fimmeyringur var eini afraksturinn. En nóg af einhverri neikvæðni – sem á alls ekki að vera aðalinntakið hér. Mér fannst gaman að því að sjá djammþyrsta fólkið tekið í bakaríið í covidgríninu. Eins skemmtu bólusetningarbesserwisserarnir mér vel og líka færsér orðaleikirnir sem voru skemmtilega fléttaðir yfir í að gera grína að öðru – nefnilega Facebook fólkinu sem er svo mikilvægt og áhrifavaldandi. Ég fílaði eldgosagrínið alveg en toppurinn var þó undir lokin þegar Freyr Eyjólfsson brá sér í gervi Jakobs Frímanns þingmanns og Stuðmanns. Það var bara nóg að sjá Frey.
En semsé, almennt slapp þetta Skaup alveg til hjá mér. Það væri eitthvað að ef að hálf-síð-miðaldra karlfauskur norður í landi myndi hlæja sig máttlausan af öllu efninu í áramótaskaupinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -