Lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson skrifar um fyrningu kynferðisbrota í sinn nýjasta pistil. Í pistli hans kemur fram að fórnarlamb sem verður fyrir nauðgun núna verður að kæra brotið til lögreglu eigi síðar en árið 2034 svo það fyrnist ekki. Sé fórnarlambið hins vegar yngra en 18 ára, byrjar þessi tími þó ekki að líða fyrr en á 18 ára afmælisdegi þess. Þetta á þó ekki alltaf við því sum kynferðisbrot fyrnast aldrei.
„Á sama tíma og þessum pistli er á engan hátt ætlað að taka nokkra afstöðu til þess, hvort einhverjir af þeim aðilum sem mest hefur verið fjallað um hafi gerst sekir um nokkurn skapaðan hlut, langar mig að reyna að varpa smá ljósi á það hvaða reglur gilda um fyrningu kynferðisbrota,“ skrifar Ómar.
„Á meðal alvarlegustu kynferðisbrotanna er klárlega nauðgun og liggur allt að 16 ára fangelsisrefsing við slíku broti. Gerist einhver sekur um nauðgun í dag, verður fórnarlambið að kæra brotið til lögreglu eigi síðar en árið 2034 svo það fyrnist ekki. Sé fórnarlambið hins vegar yngra en 18 ára, byrjar þessi tími þó ekki að líða fyrr en á 18 ára afmælisdegi þess.“
Í pistli Ómars kemur þá fram að þau kynferðisbrot sem aldrei fyrnast séu þegar börnum er nauðgað eða þau verða fyrir sifjaspellsbrotum.
Pistil Ómars má lesa í fullri lengd hérna.