Sunnudagur 29. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Hverfið mitt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

SKOÐUN eftir Kolbrúnu Baldursdottir Nýlega kom út skýrsla átakshóps um aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði og leiðir til að auka framboð á íbúðum í Reykjavík. Í skýrslunni eru fjölmargar góðar tillögur og margt gagnlegt kemur þar fram. Í skýrslunni er þó ekki sérstaklega fjallað um félagslega blöndun og mikilvægi þess að í hverfum séu fjölbreyttar gerðir húsnæðis á ólíku verðbili.

Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir að hverfin í borginni eigi að vera félagslega blönduð. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar og má í því sambandi nefna Fellahverfið. Þar hefur fjöldi fólks einangrast félagslega og menningarlega. Að vinda ofan af þeim mistökum gæti reynst þrautin þyngri fyrir borgarmeirihlutann. Í svari við fyrirspurnum um leiðir til að rjúfa einangrun íbúa Fellahverfis kemur fram að eitt og annað sé verið að reyna í þeim efnum. Meðal annars er verið að auka samstarf skólanna í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti til að freista þess að efla félagslegan jöfnuð.

Mikilvægt er að gera ekki sömu mistökin aftur. Um það geta allir verið sammála. Í Reykjavík hefur stéttaskipting vaxið síðustu ár. Bilið milli ríkra og fátækra hefur stóraukist. Hópur þeirra sem skilgreindir eru undir fátæktarviðmiði velferðarráðuneytisins hefur stækkað og mun fara stækkandi nema gripið verði til róttækra aðgerða til að spyrna við fótum. Þetta er átakanleg staðreynd í borg þar sem allir ættu að hafa nóg ef rétt væri haldið á spilunum. Þegar talað er um að halda vel á spilunum felur það í sér kröfu um að fjármagni sé forgangsraðað í þágu grunnþarfa. Allir þurfa fæði, klæði og húsnæði til að geta lifað með reisn og sinnt börnum sínum á sómasamlegan hátt.

Einn liður í baráttunni gegn stéttaskiptingu er að hanna hverfi með þeim hætti að innan þess séu margar gerðir húsnæðis, misstórt og misdýrt hvort heldur um sé að ræða eign eða leiguhúsnæði. Verð íbúða ræðst einkum af stærð þeirra en einnig landgerðinni, gerð húsnæðis og hvort hægt sé að beita afkastamiklum vinnubrögðum við byggingu húsnæðisins.

Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Hafa má í huga að oft eru fleiri en einn skóli í skilgreindu hverfi. Skólinn ætti að vera staðsettur þannig að nemendur komi bæði úr einbýlishúsakjarna og blokkakjarna. Mikilvægt er fyrir börn að fá staðfestingu á því að allir séu jafnir og eiga aldrei að líða fyrir efnahag foreldra sinna hvernig sem hann kann að vera. Liður í því er að gera alla aukaþjónustu grunnskóla ókeypis svo sem frístundastarf og mat. Einfalt ætti að vera að skipuleggja byggð út frá skóla þar sem horft er á hann sem félagslega grunneiningu. Staðsetningu skóla ráða skipulagsyfirvöld í borginni svo hæg ættu því heimatökin að vera.

Höfundur er sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -