Hvergerðingar eru komnir í stórsókn gegn hatursfólki sem málaði slagorð yfir regnbogafána í bænum sem málaður hafði verið hinseginfólk til heiðurs. Í gærmorgun mætti íbúum í Hveragerði sú ömurlega sjón að níðyrði og tákn á borð við nasistafánann höfðu verið krotuð á fánann. Viðbrögðin urðu þau að íbúar sameinuðust um að mál enn stærri fána og gefa þannig skemmdarvörgunum ælangt nef.
Sigríður Hjálmarsdóttir markaðsfulltrúi bæjarins sagði við Morgunblaðið að aðförin að hinsegin fólki hafi þannig snúsist upp í andhverfu sína.
„Málstaðurinn fær bara meiri byr fyrir vikið,“ segir Sigríður við Morgunblaðið.
Í gærkvöld söfnuðust yfir 60 manns saman í bænum til að mála yfir skemmdarverkin. Meðal þeirra sem lögðu sitt lóð á vogarskálarnar var Pétur Markan bæjarstjóri.
„Hatrið út, kærleikanum allt! Það er og verður viðbragðið okkar í Hveragerði,“ sagði Pétur á Facebook.
Fáninn var lengdur og bæjarbúar settu sumir upp regnbogafána við heimili sín til að undirstrika stuðning við hinsegin fólk. Skemmdarverkin urðui þannig til þess að Hveragerði slær í dag öll met í skreytingu til stuðnings hinseginfólki.
„Ég vona bara að hverjir sem gerðu þetta læri einhverja lexíu af þessu og snúi sér að einhverju öðru. Þetta hefur allavega ekkert upp úr sér hjá þeim,“ segir Sigríður við Moggann.