Föstudagur 25. október, 2024
6.9 C
Reykjavik

Hverjir borga skattana?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á sagan um greiðendur og þiggjendur í tekjuskattskerfinu við rök að styðjast?

Umræðu um kjaramál er nú svo háttað, að það sem einn segir hvítt, segir hinn svart. Nánar tiltekið eru það málsvarar launafólks og fjármagnseigenda sem segja svart og hvítt í kross, og er skattkerfið þar engin undantekning. Fulltrúar launafólks benda á hvernig skattbyrði lág- og millitekjufólks hefur aukist síðustu ár og áratugi, meðan fulltrúum fjármagnseigenda finnst nóg um og benda á þær krónuupphæðir sem hinir efnameiri greiða í skatta. Í víðara samhengi er sagan sem þeir segja að fáir frábærir einstaklingar beri hitann og þungann af samneyslunni og aðrir njóti góðs af.

Skýrt dæmi um þennan málflutning er Facebook-færsla sem Bjarni Benediktsson, núverandi fjármálaráðherra, birti í aðdraganda þingkosninga 2016 með þeim einu skilaboðum að stór hluti skattgreiðenda greiddi ekki tekjuskatt, en lítið brot skattgreiðenda greiddi bróðurpartinn. „Hér er graf sem sýnir frá hvaða tekjuhópum ríkið fær meira í skatt en það greiðir í bætur,“ ritaði Bjarni við línuritið sem sýndi ört hækkandi skattgreiðslur eftir því sem tekjutíundirnar voru þræddar ofar. Því miður var raunin þó sú að Bjarni hafði lesið vitlaust á grafið, auk þess sem gögnin voru ekki af því tagi að draga mætti af þeim víðtæka ályktun, svo sem Indriði H. Þorláksson fór vel yfir í greininni Öðlingar og ölmusumenn sem birtist í Kjarnanum í október 2017.

Nýjasta dæmið má svo finna í glærukynningu forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, sem haldin var á skattadegi Deloitte — og er hún tilefni þessarar greinar. Þar birtist glæra sem sýnir hvað hver tekjutíund greiðir stóran hluta af öllum greiddum tekjuskatti. Titillinn glærunnar var: „Íslenska skattkerfið. Skattbyrði dreifist þannig að lægstu tekjutíundir greiða minna.“ Reyndar voru glærurnar þrjár, og á þeim síðari var fyrst dregin athygli að því hve mikið efstu tíundirnar greiddu, og svo hve lítið neðri tíundirnar greiddu. (Tekjutíundir, fyrir þá sem ekki vita, eru töluvert notaðar í íslenskri umræðu og fást með því að raða skattgreiðendum í röð eftir tekjum og skipta þeim þvínæst í tíu jafnfjölmenna hópa sem bera má saman með ýmsum hætti). Markmiðið var auðvitað að sýna hvernig hinir efnameiri stæðu þegar undir sinni skuld við samfélagið, og að hinir efnaminni hefðu ekki efni á að kvarta undan sínum hlut.

Vandamálið er að meira er gefið í skyn en e.t.v. er innistæða fyrir. Fyrir það fyrsta er hver „skattgreiðandi“ í þeim gögnum sem stuðst er við ýmist einn einstaklingur, eða samsköttuð hjón. Tekjur samskattaðra og skattgreiðslur leggjast með þeim hætti saman, sem þýðir að í raun eru um tvöfalt fleiri einstaklingar af holdi og blóði í efstu tíundunum, en þeim neðstu! Athugum einnig að skattgreiðendur teljast allir sextán ára og eldri, þeirra á meðal allir mennta- og háskólanemar landsins. Varla er sanngjarnt að krefja námsmenn um skil á tekjuskatti til jafns við vinnandi fólk, en þeir eru að sjálfsögðu í neðstu tíundunum sem bent er á að „greiði minna“.

Leiðréttum þetta þannig að við gerum ráð fyrir að hvor samskattaður aðili um sig þéni helming teknanna. Athugum að um fjörutíu þúsund einstaklingar stunda nám á framhalds- og háskólastigi skv. gögnum Hagstofunnar, og þar sem einstaklingar á algengasta námsaldri eru einnig á tekjulægsta aldri skv. gögnum ríkisskattstjóra, og þar sem neðstu tíundirnar eru svipaðar getum við fjarlægt í því skyni fjörutíu þúsund tekjulægstu einstaklingana, sem samsvarar um það bil aldursbilinu 16-24 ára.

- Auglýsing -

Við sjáum að efstu tvær tíundir einstaklinga, greiða með þessum hætti 17 prósentustigum minna en samkvæmt reikniaðferð Samtaka atvinnulífsins. Það munar um minna. Þá veitum við því athygli að einstaklingar á eftirlaunaaldri, 67 ára og fram á nírætt, telja sem nemur einni tíund. Er athugavert að einstaklingar sem hafa aðallega framfærslu af lífeyri „greiði minna“ í ríkiskassann gegnum tekjuskattskerfið en fólk á vinnualdri? Ef ekki lækkar hlutur tíundanna tveggja um 21 prósentustig, eftir því sem næst verður komist, og súlurnar stækka enn til vinstri.

Hvaða fólk er það þá sem eftir stendur? Eru það hin frábæru sem greiða svo mikið, og hin miður góðu sem greiða minna? Auðvitað greiða sumir meira en aðrir. Hér vil ég þó segja aðra sögu, sem er að þetta erum allt við sjálf. Myndin hér að neðan sýnir meðaltekjur einstaklinga og meðalhlut einstaklinga í greiðslu alls tekjuskatts eftir aldri, frá 16 ára aldri til 90 ára. Tekjur einstaklinga vaxa langt fram á fullorðinsár, þar sem þær haldast lengi, og minnka svo aftur á efri árum. Einstaklingurinn ferðast upp og niður tekjustigann þar sem ævinni vindur fram — og skattbyrðin með.

- Auglýsing -

Því er ekki svo farið að samfélagið skiptist almennt í tvo stöðuga hópa greiðenda og farþega, nema á hverjum tímapunkti fyrir sig. Þá er auðvitað ekki öll sagan sögð. Meðaltölin fanga ekki dreifingu tekna og skattgreiðslna innan hvers aldursbils, kynslóðamun, og óendanlega flækju alheimsins. Þá skal haft í huga að tekjuskatturinn er einungis brot af heildarskattgreiðslum einstaklings, og líkt og Indriði H. Þorláksson bendir á í áðurnefndri grein eru tekjuskattur og aðrir beinir skattar „einu skattarnir sem eru eða eiga að vera stígandi, þ.e. hækka með stígandi tekjum.“ Allir aðrir skattar leggist þyngra á fólk með lægri tekjur. Að lokum legg ég til breytingu á titli glærunnar, sem er svohljóðandi: „Íslenska skattkerfið. Skattbyrði dreifist þannig að fólk greiðir minna meðan það er að koma undir sig fótunum, og á efri árum“. Hm, ekki svo galið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -