Síðan Harry og Meghan Markle, hertogahjónin af Sussex, greindu frá því að þau ætli að draga sig í hlé frá konungsfjölskyldunni hafa ýmsar spurningar vaknað sem breskir fjölmiðlar keppast við að reyna að svara, t.d. hvað munu Harry og Meghan fást við í framtíðinni.
Eftir fundi og gaumgæfilega ígrundað mál með Elísabetu Bretlandsdrottningu, ömmu Harrys, er niðurstaðan sú að Harry og Meghan munu frá og með vorinu segja skilið við konunglegar skyldur og titla ásamt því að missa allt opinbert fjármagn.
Þá þurfa hjónin að endurgreiða þann kostnað sem fór í endurbætur á Frogmore-setrinu eða um 2,4 milljónir punda sem gerir tæplega 390 milljónir króna. Til viðbótar við það þurfa þau að byrja að greiða leigu að Frogmore-setrinu sem verður áfram heimili þeirra í Bretlandi.
Hjónin sögðu í tilkynningu sinni að þau ætli að freista þess að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði og frelsi og þannig verja meiri tíma í Norður-Ameríku. En hvað gætu Harry og Meghan starfað við?
Í nýrri grein á vef BBC er gerð tilraun til að svara þeirri spurningu. Þar er haft eftir almannatengli að Harry og Meghan verði alltaf stórstjörnur og það hafi sína kosti hvað tekjumöguleika varðar.
Mega líklega ekki nota orðið „royal“
Breska blaðakonan Elizabeth Holmes spáir því að hjónin munu nýta sér ýmis viðskiptatækifæri þar sem gert verður út á þau sjálf sem vörumerki. Hún bendir þó á að þau hafi afsalað sér réttinum til að nota konunglegu titlana sína þegar þau ákváðu að segja sig frá embættisskyldum innan bresku konungsfjölskyldunnar.
Harry og Meghan sóttu um skráningu á vörumerkinu Sussex Royal í desember en Holmes reiknar með að þau fái ekki að nota orðið „royal“ áfram á söluvarning sinn. Holmes segir að hjónin þurfi að vanda vel til verka í þessum efnum.
„Hvaða vörumerki sem er myndi vilja vinna með þeim“ segir Holmes og bendir á að þau séu sérstaklega áhrifamikil þegar kemur að tískustraumum.
Sjá einnig: Meghan Markle mesti tískuáhrifavaldurinn
Holmes reiknar þó ekki með að hjónin fari að skapa sér tekjur með því að birta auglýsingar á samfélagsmiðlum á borð við Instagram þó að sá möguleiki sé fyrir hendi. „Það væri ekki viðeigandi.“
Harry og Meghan hafa greint frá því að nú ætli þau að einbeita sér meira að góðgerðarmálum. Holmes segir að þau muni vissulega geta skapað sér tekjur á því sviði þó að hefðin sé ekki sú að fólk í þeirra stöðu greiði sér laun fyrir slíka vinnu.
Tækifæri í skemmtanabransanum
Þar sem Meghan Markle er leikkona hafa margir spáð því að hún muni fara aftur út í skemmtanabransann. Fregnir herma að Meghan hafi nú þegar gert samning við Disney um að talsetja teiknimyndir en samkvæmt frétt BBC myndu sú laun renna til góðgerðamála.
Framkvæmdastjóri Netflix, Ted Sarandos, hefur þá lýst yfir áhuga sínum á því að vinna með hjónunum.
Bækur og blöð
Möguleikar í bókaútgáfu gætu þá verið miklir fyrir hjónin. Bók Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrúar Bandaríkjanna, er þá tekin sem dæmi. Bók Obama, Becoming, kom út árið 2017 en í mars árið 2019 hafði bókin selst í meira en 10 milljón eintökum. Meghan hefur sagt frá því að hún elski að skrifa og hafi mikinn áhuga á útgáfu af ýmsu tagi en hún tók sem dæmi að sér að vera gestaritstjóri Vogue í september í fyrra.
Þá hélt Meghan úti lífsstílsbloggi áður en hún kynntist Harry. Fólki þykir því ekki ólíklegt að hún muni taka sér einhvers konar útgáfu fyrir hendur.
Ræðuhöld og fyrirlestrar
Jeremy Lee, framkvæmdastjóri umboðsskrifstofunnar JLA, segir að hjónin geti þá klárlega skapað sér miklar tekjur með fyrirlestrum og ræðuhöldum á ýmsum samkomum og viðburðum.
Hann reiknar með að þau gæti fengið allt að 380.000 pund fyrir hvern viðburð. Hann segir tekjumöguleika þeirra þá vera meiri í Bandaríkjunum heldur en Bretlandi
Sjá einnig: Harry og Meghan draga sig í hlé