Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Hvers vegna að viðhalda helvíti á jörðu?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á næsta ári opnar neyslurými fyrir fólk sem er illt í hjartanu og taldi kvalastillandi lyf í æð á einhverjum tímapunkti sinn besta kost.

Þar verður örugg aðstaða til inntöku slíkra efna með aðgengi að hreinum sprautubúnaði og grunnheilbrigðisþjónustu. Til þessa verks hefur ríkisstjórnin tekið frá fjármuni á fjárlögum, og leggur heilbrigðisráðherra fram frumvarp eftir áramót um breytingar á lögum um ávana- og fíkniefni til að tryggja þjónustunni lagastoð. Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar tekið að sér umsjón þjónustunnar.

Sú ímynd sem segja má að ríkt hafi af „sprautufíklinum“ sem hálfgerðri goðsagnaveru, manneskju varla af holdi og blóði sem tilheyrir einhverjum öðrum veruleika, heyrir vonandi sögunni til. Þessi hópur og aðstæður þessara einstaklinga hafa fengið mikla umfjöllun á árinu, og hlýtur hálf þjóðin að hafa séð heimildarþættina Lof mér að lifa, umfjöllun Ísland í dag um Frú Ragnheiði og kvikmyndina Lof mér að falla, svo eitthvað sé nefnt.

Þar standa mikil áfallasaga og andleg veikindi augljóslega upp úr sem sameinandi þáttur þessa hóps, en undirliggjandi hjartahlýja og manngæska er einnig meiri en margir hefðu e.t.v. gert sér í hugarlund. Það sem allir viðmælendur eiga þó sameiginlegt er helvítið sem lýst er meðan á neyslu stendur, í formi ofbeldis og sorgar, sem herðir svo enn tak fíknarinnar.

Hvatinn hlýtur að vera kærleikur

Hvatinn að baki opnunar þessa neyslurýmis hlýtur að vera kærleikur og manngæska, viljinn til að hjálpa þessum hópi til betra lífs. Þess vegna þykir mér miður að þetta hænuskref sé látið duga, og að lyfin sem þessir einstaklingar eru líkamlega háðir verði ekki einfaldlega afhent á staðnum.

Fyrir þeirri tilhögun mætti skrifa langa rökfærslu og draga fram skýrslur og gögn um ávinning og árangur erlendis, en í kjarna sínum er það nákvæmlega með þessum hætti sem samfélagið getur bætt hag þessara einstaklinga stórkostlega — með því að rjúfa tilbúinn og ónauðsynlegan veruleika þess að fárveikir einstaklingar neyðist til að verða sér úti um háar fjárhæðir daglega til að fjármagna líkamlega fíkn, og eiga að auki ekki annan kost en að eiga viðskipti við aðila í undirheimum. Þarna ætti auðvitað líka að vera skilyrðis- og tafarlaus aðstoð í boði fyrir þá sem eru tilbúnir að hefja heilbrigðara líf.

Frumvarp heilbrigðisráðherra er enn ekki komið fram. Enn er tími til að haga framkvæmdinni með þessum hætti. Tilefni er til að rifja upp orð aðstandenda kvikmyndarinnar Lof mér að falla þess efnis að myndin byggi nær einvörðungu á raunverulegum atburðum, og eingöngu hafi verið vikið frá raunveruleikanum þegar ástæða þótti til að draga úr atvikum.

- Auglýsing -

Stanslaus peningaþörf veikra einstaklinga og viðskipti við andstyggilegar persónur eru undirstaða þess frumskógar sem birtist í þeirri mynd. Hann skulum við ryðja með öllu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -