Starfsfólk Arion Banka sem hefur viðeigandi menntun hefur verið hvatt til að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Starfsfólk er áfram á fullum launum hjá bankanum á meðan það leggur sitt af mörkum innan heilbrigðiskerfisins.
Helga Halldórsdóttir, forstöðumaður mannauðs hjá Arion banka, staðfestir þetta í samtali við Mannlíf. Hún segir bankann hafa fyrir helgi hvatt starfsfólk bankans sem hefur heilbrigðismenntun að skrá sig. „Okkur þykir tilvalið að hvetja þetta fólk til að bjóða fram krafta sína ef það hefur tök á.“
Spurð út í hvort margir starfsmenn Arion banka séu með heilbrigðismenntun segir Helga: „Þetta eru kannski ekkert margir en í svona stóru fyrirtæki eins og Arion banki er þá leynist alltaf fólk með fjölbreyttan bakgrunn.“
Frá upplýsingatæknisviði yfir á öldrunardeild
Hjúkrunarfræðingurinn og tölvunarfræðingurinn Kristrún Louise starfar á upplýsingatæknisviði Arion banka og hefur gert frá febrúar 2019 Hún hefur nú skráð sig í bakvarðasveitina og var kölluð til vinnu á öldrunardeild Landakots.
„Ég útskrifaðist úr hjúkrun 1999 og vann á gjörgæslu og vöknun á Landspítalanum Hringbraut allan minn starfsferil sem hjúkrunarfræðingur. Hætti endanlega í september 2015 þegar ég fékk vinnu sem tölvunarfræðingur,“ segir Kristrún í samtali við Mannlíf.
„Ég hef bara held ég aldrei á ævinni verið eins þreytt og eftir fyrstu vaktina…“
Kristrún segir afar krefjandi tímabil blasa við. „Það er mjög skrýtið að fara aftur að vinna á spítalanum. Það hefði alveg verið auðveldara að gera þetta ekki. Ég hafði aldrei unnið á almennri deild, svo það var soldið „extra effort“ að fara eitthvað annað en á gjörgæslu. Ég hef bara held ég aldrei á ævinni verið eins þreytt og eftir fyrstu vaktina, samt gerði ég ekki mikið. En þetta er allt að koma – og starfsfólkið á deildinni er mjög þolinmótt við okkur hin.“
Kristrún segist afar þakklát vinnuveitanda sínum og samstarfsfólki fyrir sýndan skilning. „Að sjálfsögðu þurfti ég aðeins að hugsa mig um þó í raun hafi ekki komið til greina að gera það ekki. Ég er í fullri vinnu og var ekki viss hver viðbrögð míns vinnuveitanda og míns yfirmanns væru. En þegar ég fór að tala um þetta, var svarið bara: „Auðvitað gerir þú það sem þú þarft að gera“. Og það sama var að segja um samstarfsfólk mitt í bankanum. Ég hef fengið mjög mikinn stuðning og hvatningu frá samstarfsfólki, bæði núverandi og fyrrverandi, yfirmanni og vinnuveitanda, fjölskyldu og vinum. Og það er alveg ómetanlegt.“