„Snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði í nótt eru miklar hamfarir,“ skrifar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, í færslu á Facebook. Hún segir að landsmenn allir séu Vestfirðingar í dag.
Katrín skrifar að hún hafi heyrt í nokkrum Vestfirðingum í morgun sem allir voru slegnir. „Heyrði líka í nokkrum kærum vinum að vestan og fann hversu þungt þessir atburðir lögðust á þá. Í dag erum við öll Vestfirðingar.“
Hún segir að blessunarlega hafi ekki orðið manntjón og að gott hafi verið að varðskipið Þór hafði verið sent vestur vegna slæmrar veðurspár. Varðskipið lagði af stað frá Ísafirði kl. 9:05 og er nú á leið til Flateyrar með vistir og búnað til íbúa.
Katrín segir að stjórnvöld muni áfram fylgjast grannt með gangi mála. „Allir viðbragðsaðilar hafa verið á fullu frá miðnætti og aðgerðir standa enn en fjöldahjálparmiðstöð verður opnuð á eftir á Flateyri. Veður er enn vont og mikilvægt að standa vaktina áfram. Stjórnvöld munu fylgjast grannt með.“
Færslu Katrínar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.