Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

„Í fullkomnum heimi þarf ekki siðanefndir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Megintilgangur nýrra siðareglna fyrir alþingismenn er að efla gagnsæi í störfum þingmanna og ábyrgðarskyldu þeirra, og jafnframt að efla tiltrú og traust almennings á Alþingi. Margir hafa þó efast um gildi siðareglna – sérstaklega í ljósi þess að erfitt hefur reynst að fá sátt um siðareglur og þá sérstaklega siðanefndir. Gríðarlega mikil umræða hefur sprottið upp í kjölfar nýlegra niðurstaðna forsætisnefndar þar sem hún féllst á álit siðanefndar í nokkrum umdeildum málum.

Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri, hefur skrifað bók og greinar um siðareglur til fjölda ára. Hann segir í samtali við Kjarnann að tilgangurinn með siðareglum sé margvíslegur. Að hans mati er þó mikilvægasti tilgangur skráðra siðareglna sá að bæta menningu innan hópsins sem setur sér reglunar. Það þýði að þessi hópur hagi samskiptum sínum og vinnubrögðum á betri hátt með tilliti til tilgangs hópsins.

Þá sé hægt að spyrja sig hvort „dýnamíkin“ innan hóps hjálpi honum að sinna hlutverki sínu vel og ef svo er ekki þá þurfi að bæta menninguna innan hans. Að setja siðareglur væri þá aðferð til að gera hann betur færan til að sinna sínu hlutverki og gætu þær jafnframt miðlað uppsafnaðri þekkingu. Þá sé hægt að læra af mistökum, til að mynda er varða samskipti og freistnivanda.

Umræðan ætti að verða málefnalegri

„Með því að setja siðareglur er gerður nokkurs konar sáttmáli innan hópsins,“ segir Sigurður. Þá lofi fólk – þegar það gengst við siðareglunum – að standa við þær gegn því að aðrir geri það líka og að taka þær fram yfir sína eigin hagsmuni. Hann bendir á að siðareglur miðli einnig mikilvægum skilaboðum út á við, það er þegar loforð er gefið til skjólstæðinga, eða í tilviki stjórnmálamanna til kjósenda sem síðan dæma gjörðir þeirra á endanum.

„Þegar slíkur sáttmáli er kominn þá verður umræðan málefnalegri,“ segir hann og bætir því við að í þeim tilfellum verði siðareglur hjálpartæki þegar á þarf að halda.

Sigurður segir að tilgangur siðareglna sé að bæta þessa menningu og að þær séu þetta hjálpartæki, meðal annars til að samræma væntingar – frekar en ytra eftirlit. „Lykilatriðið er að þær eru liður í sjálfræði hópsins, sameiginlegar reglur. Þær virka ekki sem ytra valdboð.“ Mikilvægt er, að hans mati, að vandað sé til verka þegar siðareglur eru gerðar. „Ferlið skiptir oft meira máli en útkoman sjálf,“ segir hann. Á endanum sé engin forskrift að siðareglum.

- Auglýsing -

Fara verður varlega í að beita viðurlögum

Þegar talið berst að siðareglum þingmanna segir Sigurður að fara verði varlega í það að beita viðurlögum. „Ef við lítum á siðareglur sem innri og ytri sáttmála þá koma ytri viðurlögin frá kjósendum.“ Þeir ákveði með atkvæði sínu hvort þingmenn hafi staðið við sáttmálann. Hvað varðar innri sáttmála þá væri hægt að líta svo á að ef þingmenn brjóta siðareglur þá njóti þeir ekki trausts innan þingsins. Viðurlög gætu í því tilfelli verið tímabundin, þeir gætu til að mynda ekki verið formenn í nefndum eða sinnt ákveðnum trúnaðarstörfum. Þessi leið er þó vandmeðfarin, að mati Sigurðar.

Hann segir enn fremur að siðareglur geti verið til trafala í erfiðum og flóknum málum á borð við Klaustursmálið. „Það er alltaf sú hætta fyrir hendi að þegar búið er að setja upp siðanefnd sem úrskurðar um brot þá fari málið að snúast um málsmeðferð – eins og fyrir dómstólum.“ Kosturinn við að hafa siðareglur en ekki siðanefnd er sá að þá sé skýrara að hlutverk reglnanna sé að styðja við málefnalega umræðu og ígrundun.

- Auglýsing -

Á hinn bóginn séu ákveðin rök fyrir því að setja á fót sérstaka siðanefnd, til dæmis hjá fagfélögum. Það geti verið liður í að vernda skjólstæðinga og þá gefist fólki jafnframt kostur á að verja sig gegn tilhæfulausum ásökunum. Vandaðir úrskurðir geta búið til gagnleg viðmið.

En hvað þyrfti Alþingi að gera til að öðlast traust almennings og þingheims? Sigurður telur það skynsamlegt að endurskoða siðareglurnar og ferlið í heild sinni á ný, eins og til stendur að gera í vetur. „Mér finnst það vera aðalatriðið að allir þingmennirnir hafi samráð og að úr verði raunverulegur sáttmáli milli þeirra.“ Þá vonar hann að sú endurskoðun verði ekki gerð að pólitísku bitbeini og að áhersla verði lögð á að reglurnar séu fáar og almennar. Með umræðum um siðareglur þokist málin í átt að niðurstöðu sem almenn sátt geti verið um.

Siðanefndir óþarfar í fullkomnum heimi

„Í fullkomnum heimi þarf ekki siðanefndir heldur bara almenn viðmið til að umræðan þokist í einhverja góða átt. Í ófullkomnum heimi þarf stundum siðanefnd,“ segir Sigurður. Hann telur jafnframt að sem flestir þingmenn þurfi að taka þátt í að skapa ferlið – vegna þess að það sé sannarlega samfélagssáttmáli.

„Heppilegast væri að hafa siðanefndina án tengsla við stjórnmálin, þá koma síður upp vanhæfnisspurningar,“ segir hann. Þá sé mikilvægt að forsætisnefnd mati ekki siðanefnd, að hún hafi frjálsara umboð – það er taki við kvörtunum og setji sér sjálf starfsreglur sem þingið staðfesti. „Vonandi skilar hún sér þessi vinna sem fram undan er,“ segir hann að lokum.

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu Kjarnans sem birtist á kjarninn.is og í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -