Þó að Ísland sé lítið eyríki og búi að því að vera með landamæri sem eru auðveldari viðureignar en mörg önnur ríki – þar sem sjór umlykur landið – þá er vel hægt að halda því fram að vandi sem tengist fíkniefnum á Íslandi sé ógnvænlegur þessi misserin.
Tíð dauðsföll, ekki síst vegna of stórra skammta af verkjalyfjum og viðlíka efnum, hafa skilið eftir sig sár sem gróa aldrei í fjölmörgum fjölskyldum.
Í fyrra létust í það minnsta 29 ungir einstaklingar, undir fertugu, vegna of stórs skammts fíkniefna.
Þetta er hátt hlutfall í alþjóðlegum samanburði og verulegt áhyggjuefni að sama mynstur sést og víða má nú greina í Bandaríkjunum þó þar sé um djúpstæðari vanda að ræða.
Vandamálin geta hins vegar magnast upp og reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir vel skipulagt starf lögreglu – og góðan vilja og lagaramma sem er ætlað að sporna gegn vanda sem tengjast fíkniefnum – þá tekst með engu móti að hindra að fíkniefni komist í umferð til þeirra sem eru háðir þeim, eða þeirra sem vilja neyta þeirra.
Ítarleg fréttaskýring um málið er á vef Kjarnans.