Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Í heimsreisu í eitt ár með tvö lítil börn: „Lífið er of stutt fyrir efasemdir”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það var í október á siðasta ári sem Álfheiður henti fram þessari klikkuðu hugmynd að hætta í vinnum, leigja út íbúðina og fara í heimsreisu í heilt ár. Ég var ekki lengi að samþykkja þessa hugmynd og sama kvöld vorum við farnar að plana,” segir Eva Dögg Jafetsdóttir.

Fjölskyldan á góðri stundu.

Hún og eiginkona hennar, Álfheiður Björk Sæberg, ásamt tveimur börnum þeirra, Sindra Sæberg Evusyni, 4ra ára og Söru Sæberg Evudóttur, 2ja ára, ákváðu að kveðja lífið á Íslandi í heilt ár og flakka um heiminn. Heimsreisan hófst 26. júní síðastliðinn og var Asía fyrsta heimsálfan sem varð fyrir valinu, nánar tiltekið Taíland.

Gróft plan til áramóta

„Við fórum í brúðkaupsferð til Tælands 2011 og elskuðum landið, menninguna, matinn og fólkið. Því fannst okkur tilvalið að byrja þar,” segir Eva, en fjölskyldan er núna stödd í sjarmerandi borginni Chiang Mai í Norður-Taílandi, sem jafnframt er stærsta borgin í þessum landshluta. Fjölskyldan ætlar að dvelja í mánuð í Taílandi og fljúga þaðan til Víetnam. Síðan er planið að heimsækja Japan, Filippseyjar, Kambódíu, Suður-Taíland, Síngapor og Balí – í þessari röð. Eftir það er framtíðin óráðin.

„Við höfum lagt upp gróft plan til áramóta, bókað nokkur flug, gistingar og þess háttar en okkur finnst mikilvægt og spennandi að vera sveigjanlegra og opnar fyrir tækifærum á leiðinni. Eftir Balí vitum við svo sem ekkert hvað við gerum. Kannski ferðumst við áfram um Asíu eða skiptum alfarið um heimsálfu. Lífið er ævintýri og við ætlum að upplifa það.”

Aðalmálið að fá ekki bakþanka

Eins og gefur að skilja krefst mikils undirbúnings að leggja í slíka för, sérstaklega með tvö börn á leikskólaaldri með í för.

„Skipulagsferlið er langt og strangt og það þarf að huga að mörgu. Aðalmálið er að fá ekki bakþanka, en við höfðum einmitt lesið um það og vorum meðvitaðar um þá staðreynd. Að halda sig við planið og hella sér út í djúpu laugina,” segir Eva og bætir við að margir tímar hafi farið í að undirbúa förina með internetið að vopni.

„Það er erfitt að skipuleggja nákvæmlega hvert skal halda og hvernig ferðaleiðin á að vera en eftir allmargar klukkustundir á veraldarvefnum og mikla rannsóknarvinnu komumst við að grófri niðurstöðu hvað myndi henta okkur og héldum okkur við hana.”

- Auglýsing -

Seldu allt sem þær gátu

Systkinin Sindri og Sara í hitanum í Taílandi.

Svo eru það auðvitað peningamálin, en mikilvægt er að fylgjast vel með öllum fjárútlátum á ferðinni, en ekki síður áður en haldið er af landi brott í svona langa ferð. Eva og Álfheiður gripu til ýmissa ráða til að hafa efni á þessari ævintýraför.

„Við reyndum að selja allt sem við gátum selt til að afla aukatekna, tókum að okkur aukavinnur og spöruðum hverja einustu krónu. Við vissum líka vel að Asía er talsvert ódýrari en Íslandið góða. Við skelltum íbúðinni á leigu og vonumst til að tekjurnar af henni eigi eftir að fleyta okkur eitthvað áfram. Við ætlum að passa peninginn vel og skipuleggja útgjöldin í reisunni. Það finnst okkur skemmtileg áskorun og auðvitað mikilvægt ef við ætlum að vera í einhvern tíma,” segir Álfheiður. Þær reyna líka að halda farangri í algjöru lágmarki.

„Við ferðuðumst út með eina tösku og handfarangurstösku en eftir vel ígrundaðar pælingar þá höfum við ákveðið að skipta yfir í bakpoka. Við ætlum að halda farangri í lágmarki og reyna að komast af með lítið.”

- Auglýsing -

En hvernig tóku ættmenni og vinir fjölskyldunnar í heimsreisuna?

„Það hafa verið skiptar skoðanir hjá fólkinu í kringum okkur og auðvitað efasemdir sem plantast í huganum: Hvað erum við að pæla? Eigum við ekki bara að skella okkur í tveggja vikna sólarlandaferð í staðinn? Getum við þetta? Viljum við stökkva svona langt út fyrir þægindahringinn? Og svarið er allan daginn: Já. Við getum þetta og ætlum að gera þetta. Lífið er of stutt fyrir efasemdir.”

Menning, lærdómur, skemmtun og samvera

Lítið hefur reynt á nánar samvistir fjölskyldunnar enn sem komið er, enda er þessi reisa rétt að byrja og enn eins og hefðbundið sumarfrí. Eva segir að reisan eigi eflaust eftir að reyna á en að sama skapi styrkja fjölskylduböndin.

„Auðvitað mun þetta vera viðbrigði og jafnvel álag á fjölskylduna. Að fara úr hversdagsleikanum í svona mikla samveru í algjörlega nýjum aðstæðum, en við erum mjög opnar í okkar samskiptum og meðvitaðar um þá staðreynd að stundum þarf maður tíma fyrir sjálfan sig og við ætlum að gera allt í okkar veldi til að láta ekkert verða ósagt. Við elskum að vera saman sem fjölskylda en allir þurfa sinn tíma líka. Þetta mun styrkja okkar fjölskyldubönd og vináttu og við munum læra svo ótalmargt. Við ætlum ekki að láta þessa reisu verða að margra mánaða sólarlandaferð með brjálaðri afþreyingu upp á hvern einasta dag. Auðvitað gerist það eflaust að sjálfsdáðum svona fyrstu vikurnar en svo er draumurinn að þetta verði að lífsstíl. Við ætlum að leggja upp með fjórar megin áherslur sem við ætlum að hafa til hliðsjónar í ferðinni, en þær eru; menning, lærdómur, skemmtun og samvera.”

Lífið er ævintýri.

Misstu næstum því af fluginu

Taílendingar elska börn.

Er eitthvað fyndið eða sérkennilegt sem fjölskyldan hefur lent í hingað til?

„Við munum án efa lenda í ýmsum óförum, en það sem komið er ber kannski hæst þegar við vorum næstum því búin að missa af fluginu okkar til Taílands, en við áttum þá bara tuttugu mínútur til að tjékka okkur inn,” segir Álfheiður og hlær. „Hér úti í Tælandi eru börnin algjörar stórstjörnur og allir vilja snerta þau og taka myndir. Við höfðum einmitt lesið okkur til um það og eflaust verður þetta þreytandi til lengdar en enn sem komið er er þetta bara krúttlegt og skemmtilegt,” bætir hún við. Þær Eva hafa einnig í huga að kanna aðstæður hinsegin fólks í hverju landi þar sem þær eru sjálfar hinsegin.

„Verandi tvær konur með börn, eða svokölluð hinsegin fjölskylda, þurfum við að skoða vel og vandlega hvernig hvert land tekur okkur og þær hættur sem kunna að skapast einungis út frá þessari staðreynd. Öryggi okkar og sérstaklega barnanna okkar eru að sjálfsögðu i forgangi. Við höfum ekki áhuga á að heimsækja lönd þar sem við erum óvelkomnar eða illa séðar. Að ferðast með tvö ung börn á eftir að vera erfitt og mikil áskorun en við hlökkum til að takast á við þetta.”

Lífið er núna

Áhugasamir geta fylgst með ferðum fjölskyldunnar á Snapchat og Instagram undir nafninu worldtravelmoms. Einnig halda þær úti heimasíðunni worldtravelmoms.com.

„Við ákváðum að opna okkur á samfélagsmiðlum og leyfa öðrum að njóta með okkur. Vonandi getum við verið hvatning fyrir aðra eins og við fengum hvatninguna til að skella okkur í þetta,” segir Eva og Álfheiður tekur í sama streng. Þær geta ekki beðið eftir að sjá hvert framtíðin leiðir þær og börnin þeirra tvö.

„Við erum ótrúlega spenntar fyrir þessu ævintýri okkar. Lífið er núna og við ætlum að njóta þess.”

Þreyttir ferðalangar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -