Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.7 C
Reykjavik

„Í Hvallátrum eru engar reglur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nokkrir aðilar eiga og nytja eyjaklasann Hvallátur á Breiðafirði og koma saman á hverju vori ásamt fjölskyldum sínum, njóta náttúrudýrðar svæðisins og fara í dúnleitir. Við slógumst í för með dúnbændum í sumar.

Farið er með gúmmíbátum á milli eyja. Á fjöru er mikilvægt að hafa löng bönd í bátunum til að ekki flæði yfir landfestina meðan leitað er.

Þarna sameinast kynslóðirnar í leik og starfi í faðmi náttúrunnar og fyrir marga er þetta besti tími ársins. Börnin kynnast náttúrunni á eigin forsendum, læra að bera ábyrgð og njóta þess að þarna gilda ekki strangar reglur. Dúntekjurnar nýtast til að reka húsnæði, vélar og bátakost sem notaður er í eyjunum.
Í Hvallátrum eru dúnleitir jafnan fyrripartinn í júní, leitað er í 200 eyjum, hólmum og skerjum sem tilheyra svæðinu og samtals eru hreiðrin milli þrjú og fjögur þúsund talsins. Í fyrri leitum kemur megnið af dúninum í hús en í seinni leitum er tekinn dúnn úr hreiðrum sem leitarfólki kann að hafa yfirsést og hjá kollum sem verpa seint. Þegar dúnninn er tekinn er sett hey í staðinn sem er ekki síðra fyrir útungunina en dúnninn, sérstaklega í rigningartíð.
Á Heimaeynni er stórt íbúðarhús og aðstöðuhús fyrir dúnþurrkun, unga í fóstri, geymslur og fleira. Niðri við höfnina er einnig gömul skipasmíðastöð sem starfrækt var í Hvallátrum um árabil. Þar inni er báturinn Egill sem smíðaður var í Hvallátrum árið 1904 af Ólafi Bergsveinssyni, bónda og skipasmið í Hvallátrum. Sonarsonur hans, Aðalsteinn Eyjólfur Aðalsteinsson, gerði bátinn upp í lok síðustu aldar.

Frændsystkinin Anna Vigdís Magnúsdóttir og Brynjar Árnason hrista dún og dreifa honum á grindur.

Frí frá stressi og streitu
Veðrið þarf að vera gott til að hægt sé að halda í dúnleitir. Vindur má ekki vera mikill til að fært sé til sjós á gúmmíbátum og rigning er óæskileg. Eftir dag í leitum er komið með dúninn í Heimaeynna. Ef vel viðrar er blautum dúni gjarnan dreift á túnið til þurrkunar fyrir framan dúnhúsið áður en hann er hristur og settur á grindurnar. Eftir að dúnninn hefur verið þurrkaður á grindunum er hann hitaður í þar til gerðum potti en hitinn gerir gras og annað í dúninum stökkt. Dúnninn er svo settur í krafsarann þar sem þetta stökka er mulið úr. Þá er dúnninn sendur í hreinsistöð í Stykkishólmi.
Fólkið sem stendur að dúnnytjunum er ekki að því í hagnaðarskyni heldur til að eiga sér griðastað í þessu einstaka umhverfi. Það er jafnan glatt á hjalla þegar hópurinn hittist eftir veturinn, tilbúinn til að hverfa um stund frá streitunni sem gjarnan fylgir hversdeginum.

Texti og myndir / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Gerða Friðriksdóttir, Skær Sindrason, Jón Örn Friðriksson, Bryndís María Jónsdóttir og Elísa Friðriksdóttir á leið í dúnleitir.
Guðmundur og sonur hans, Arnar, að koma að hreiðri.
Þorvaldur tekur dún úr hreiðri.
Dæmigert æðarhreiður með dún.
Þorvaldur að skyggna egg til að sjá hversu langt er síðan kollan verpti. Leitarfólk er ávallt með tvo poka á sér, annan fyrir dún og hinn með heyi.
Hér er búið að setja hey í hreiðrið í staðinn fyrir dún. Ungarnir eru að byrja að klekjast út og sjá má í goggana á þeim. Hvíti punkturinn fremst á goggunum heitir eggtönn sem unginn notar til að brjóta eggið en svo dettur hún af eftir nokkra daga.
Þrjár kynslóðir saman í dúnleitum.
Gott og orkuríkt nesti er mikilvægt í leitum; kók, prins og kókómjólk.
Verið að undirbúa brottför eftir kaffipásu.
Reynt er að halda mávi og öðrum vargfugli í skefjum til að vernda varpið.
Guðmundur með svartbaksunga.
Djúpey.
Svo verður líka að taka svolítið í nefið og snýta sér hressilega á eftir.
Guðmundur heilsar upp á gamlan vin.
Þorvaldur hefur um árabil haldið tölu yfir fjölda varpfugla á svæðinu. Vitað er um 39 tegundir sem orpið hafa í eyjunum. Teista er einn þessara fugla og rauði gómurinn eitt af sérkennum hans.
Æðarungar að skríða úr eggjum.
„Ertu á sokkunum niðri á bryggju að taka á móti okkur,“ spurði ég Friðrik Bjarna Jónsson þegar við komum að landi. „Já,“ svaraði hann, „það eru nefnilega engar reglur í Hvallátrum.“
Bryggjukollan svokölluð hefur verpt á bryggjunni á Heimaeynni í Hvallátrum um árabil. Hún lætur ekkert trufla sig.
Ef vel viðrar er blautum dúni gjarnan dreift á túnið til þurrkunar fyrir framan dúnhúsið áður en honum er dreift á grindur inni í húsinu.
Dúnninn sóttur af grindunum til að setja í pottinn.
Eftir að dúnninn hefur verið þurrkaður á grindunum er hann hitaður í þar til gerðum potti. Hitinn gerir gras og annað í dúninum stökkt.
Friðrik Jónsson setur dún í í krafsara þar sem þetta stökka er mulið úr.
Bræðurnir Guðmundur og Þorvaldur Björnssynir, eða Bubbi og Doddi, eru ávallt hressir. Þeir þekkja náttúruna vel og eru fullir af fróðleik um allt henni tengdri.
Ungar sem tapað hafa mæðrum sínum eru teknir í fóstur í ungahúsið á Heimaeyjunni þar sem þeim er gefið fóður og kennt að finna sér marflær og annað fæði í fjörunni. Krakkarnir sjá um að mestu leyti um ungauppeldið af miklum áhuga og ástríðu. Hér er Hlynur Örn Hjálmarsson að spjalla við ungana.
Fjara. Á Breiðafirði er mesti munur flóðs og fjöru á landinu og getur farið upp í fimm metra þegar mest er.
Stórstraumsflóð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -