Nokkrir aðilar eiga og nytja eyjaklasann Hvallátur á Breiðafirði og koma saman á hverju vori ásamt fjölskyldum sínum, njóta náttúrudýrðar svæðisins og fara í dúnleitir. Við slógumst í för með dúnbændum í sumar.
Þarna sameinast kynslóðirnar í leik og starfi í faðmi náttúrunnar og fyrir marga er þetta besti tími ársins. Börnin kynnast náttúrunni á eigin forsendum, læra að bera ábyrgð og njóta þess að þarna gilda ekki strangar reglur. Dúntekjurnar nýtast til að reka húsnæði, vélar og bátakost sem notaður er í eyjunum.
Í Hvallátrum eru dúnleitir jafnan fyrripartinn í júní, leitað er í 200 eyjum, hólmum og skerjum sem tilheyra svæðinu og samtals eru hreiðrin milli þrjú og fjögur þúsund talsins. Í fyrri leitum kemur megnið af dúninum í hús en í seinni leitum er tekinn dúnn úr hreiðrum sem leitarfólki kann að hafa yfirsést og hjá kollum sem verpa seint. Þegar dúnninn er tekinn er sett hey í staðinn sem er ekki síðra fyrir útungunina en dúnninn, sérstaklega í rigningartíð.
Á Heimaeynni er stórt íbúðarhús og aðstöðuhús fyrir dúnþurrkun, unga í fóstri, geymslur og fleira. Niðri við höfnina er einnig gömul skipasmíðastöð sem starfrækt var í Hvallátrum um árabil. Þar inni er báturinn Egill sem smíðaður var í Hvallátrum árið 1904 af Ólafi Bergsveinssyni, bónda og skipasmið í Hvallátrum. Sonarsonur hans, Aðalsteinn Eyjólfur Aðalsteinsson, gerði bátinn upp í lok síðustu aldar.
Frí frá stressi og streitu
Veðrið þarf að vera gott til að hægt sé að halda í dúnleitir. Vindur má ekki vera mikill til að fært sé til sjós á gúmmíbátum og rigning er óæskileg. Eftir dag í leitum er komið með dúninn í Heimaeynna. Ef vel viðrar er blautum dúni gjarnan dreift á túnið til þurrkunar fyrir framan dúnhúsið áður en hann er hristur og settur á grindurnar. Eftir að dúnninn hefur verið þurrkaður á grindunum er hann hitaður í þar til gerðum potti en hitinn gerir gras og annað í dúninum stökkt. Dúnninn er svo settur í krafsarann þar sem þetta stökka er mulið úr. Þá er dúnninn sendur í hreinsistöð í Stykkishólmi.
Fólkið sem stendur að dúnnytjunum er ekki að því í hagnaðarskyni heldur til að eiga sér griðastað í þessu einstaka umhverfi. Það er jafnan glatt á hjalla þegar hópurinn hittist eftir veturinn, tilbúinn til að hverfa um stund frá streitunni sem gjarnan fylgir hversdeginum.