Sífellt fleiri gagnrýna áform ríkisstjórnarinnar um að opna landið þrátt fyrir hættuna sem því fylgir. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í aðsendir grein í Kjarnanum að ríkisstjórnin sé í raun að ákveða að velja útlendinga fram yfir Íslendinga, frelsi þeirra eykst en frelsi Íslendinga skerðist. Hann segir einungis tvo innlend aðila sem gætu gleðst yfir þessum áformum, stórrekstraraðilar í flutningi ferðamanna og söluaðilar gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
Þórólfur rifjar upp hvernig Íslendingar voru frjálsir ferða sinna innanlands síðasta sumar. Alveg þangað til ákveðið var að opna landið fyrir þá sem voru frá „grænum svæðum“. Fyrirsjáanlega „léku“ menn af rauðum svæðum á það kerfi og allt var sett í lás stuttu síðar.
„Nú, þegar liðnar eru 3 vikur af mars er staðan sú að afar fá innanlandssmit hafa greinst í tvo og hálfan mánuð. Tilefni er til frekari tilslakana á samkomutakmörkunum innanlands. Landsmenn geta farið að horfa á dagatalið og hringja í sveitahótelin og skipuleggja sumarferðina með fjölskyldunni. Það getur svo aukið bjartsýni að undir lok sumars gæti þekjun bólusetninga innanlands verið orðin nægjanlega víðtæk til að koma í veg fyrir möguleika sjúkdómsins til að breiðast út samkvæmt lögmálum veldisvaxtarins,“ segir Þórólfur.
„Þess í stað verður Covid-19 sjúkdómurinn á pari við mislinga og rauða hunda. Alvarlegur fyrir óbólusetta, en ekki ógn við lýðheilsu. „Öfundsverð staða“ fyrir almenning í landinu. Þeir einu sem geta með nokkrum rétti verið með ósáttir vegna þessa ástands eru stór-rekstraraðilar í flutningi ferðamanna og söluaðilar gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Þó verður ekki séð að opnun landamæra yrði þeim til framdráttar ef vel er að gáð eins og rakið verður hér á eftir.“
Hann segir meinta talsmenn frelsis í raun beita sér fyrir skert frelsi Íslendinga. „Talsmenn ríkisstjórnarinnar bera fyrir sig nauðsyn þess að draga úr þessum frelsisskerðingum þrátt fyrir gang veirunnar í heiminum, m.a. með því að rýmka aðgang erlendra aðila búsettra á „grænum“ og „gulum“ svæðum að landinu. Rétt er það að opnun landamæra mun auka frelsi erlendra ríkisborgara til að koma til Íslands. En við það eykst réttur íslenskra ríkisborgara ekkert, nema síður sé. Reynsla opnunarinnar í júlí 2020 bendir til þess að uppúr miðjum maí gæti þurft að herða enn á samkomutakmörkunum, fækka gestum í rýmum niður í 10-15 og taka upp harða útgáfu af 2 metra reglunni, fyrirskipa lokun veitingastaða klukkan 20:00 eða 21:00 á kvöldin í stað 22:00 eins og nú er.“
Hann segir að þetta fólk virðist varla átta sig á því að fjórða bylgjan myndi veri áhrif á efnahaginn en að loka landinu aðeins lengur. „Um miðjan maí gæti því þessi meinta frelsisaukandi aðgerð hafa takmarkað frelsi venjulegra Íslendinga verulega frá því sem nú er. Einn talsmaður ríkisstjórnarinnar svaraði áhyggjum þessu tengd í Kastljósi 18. mars á þá leið að við þyrftum að halda uppi samkomutakmörkunum og sprittun og öðrum takmörkunum til að takmarka útbreiðslugetu veiru sem kynni að berast með erlendum ferðamanni til landsins eftir 1. maí. Þ.e.a.s. sumir talsmenn ríkisstjórnarinnar telja í lagi að takmarka frelsi Íslendinga til að auka frelsi erlendra aðila til að koma til Íslands! Það verður stundum skrítið hugtak, frelsishugtakið!,“ segir hann og vísar til orða Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdótttur dómsmálaráðherra.
Hann segir að lokum að þetta sé stórhættuleg tilraun. „Galopin landamæri fyrir óbólusetta gætu hugsanlega fjölgað ferðamönnum eitthvað tímabundið. Af því gætu einhverjir haft tekjur, tímabundið. Galopin landamæri gagnvart óbólusettum stóreykur líkur á fjórðu bylgju faraldurs á Íslandi. Tekjutap sem myndi fylgja fjórðu bylgjunni yfirskyggir mögulegan ávinning af opnun. Er ástæða til að gera slíkar tilraunir í nafni einnar atvinnugreinar og á kostnað allra hinna?“