Þriðjudagur 24. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Í samfélagi jöfnuðar ríkir friður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stærstu verkalýðsfélög landsins hafa vísað kjaradeilum sínum til ríkissáttasemjara. Forysta þeirra þykir róttæk og sumir nefna þau sem þar eru byltingarsinna. Hugsanlega vegna þess að þau nota orð eins og stéttabarátta, kúgun, frelsi og jafnrétti. Kröfur þeirra snúast um að tryggja lágmarkslaun sem lifa má af. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem landsmenn heyra það slagorð í aðdraganda samningaviðræðna. Áratugum saman hefur verkalýðsforystan hrópað á meiri jöfnuð, hækkun lágmarkslauna og gert kröfur um að laun fylgi lífskjaraþróun. En af einhverjum ástæðum stöndum við alltaf á sama stað. Stór hópur fólks getur ekki lifað af launum sínum og býr við heilsuspillandi aðstæður. Samt erum við öll sammála um að í okkar þjóðfélagi eigi að hafa velferð þegnanna að leiðarljósi.

Hvað er það þá sem klikkar? Oft hefur verið samið um þó nokkrar launahækkanir en það er eins og menn hafi ekki fyrr séð þá krónutölu prentaða á launaseðilinn en þær hverfa í þá botnlausu hít útgjalda sem blasir við flestu launafólki hér á landi. Er það þá hagkerfi okkar sem er bilað? Sumir segja að krónunni sé um að kenna, aðrir að ríkið finni ævinlega leið til að seilast dýpra í vasa almennings hafi það grun um að þar leynist fáeinir smáaurar og enn aðrir að valdastéttin, mennirnir með peningana, sjái til þess að enginn nái að rísa of hátt áður en hann er sleginn niður aftur. Það er erfitt að skilja þennan undarlega vítahring og einnig hvernig smátt samfélag eins og okkar geti orðið jafnmarglaga og óréttlátt og raun ber vitni.

Tökum til dæmis húsnæðismálin. Hér á landi hefur ávallt verið erfitt að koma sér upp þaki yfir höfuðið og leiguverð er hátt. Ungt fólk sem er að byrja búskap hefur alltaf mátt búast við erfiðleikum með að finna íbúð, halda henni og borga þá leigu sem upp er sett og fjölskyldur þar sem ein fyrirvinna er hafa alla tíð búið við gífurlegt óöryggi hvað þetta varðar. Eitt sinn var hér byggingarfélag stutt af hinu opinbera er gerði tekjulágum kleift að kaupa íbúðir á góðu verði en það var lagt niður vegna þess að hinn frjálsi fasteignamarkaður átti að tryggja öllum aðgang að þeim sjálfsögðu mannréttindum að eiga stað til að búa á. Nú horfumst við í augu við að ástandið er verra en nokkru sinni. Þessu verður að breyta. Mannkynssagan hefur kennt okkur að hinir kúguðu rísa alltaf á endanum upp gegn kúgurum sínum. Þegar óréttlætið er orðið hrópandi er stutt í að upp úr sjóði. Í samfélagi jöfnuðar ríkir friður því þar fá allir notið sín. Tækifærin eru opin og menn geta með vinnu sinni og framlagi tryggt börnum sínum ögn betra líf en þeir nutu sjálfir. Þannig eru velferðarsamfélög uppbyggð. Komandi kjarasamningar munu því líklega skera úr um hvort á Íslandi ríki velferð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -