Eftir // Jón Óðinn Waage
Ég vann í allnokkur ár á lítilli lögmannstofu hér í bæ. Mitt hlutverk var að sjá um innheimtuna. Við vorum að vinna fyrir lítið tryggingafélag. Krafa á mann sem var með litla útgerð austur á landi var komin í lögfræðiinnheimtu.
Þá fékk ég símtal. Í símanum var þáverandi framkvæmdastjóri LÍÚ. Hann var hinn almennilegasti, spurði mig hverra manna ég væri og það tók okkur ekki langan tíma að finna sameiginlegt venslafólk.
Síðan snéri hann sér að erindinu. Hann sagði mér að skila því til tryggingafélagsins að ef að krafan væri ekki tafarlaust tekin úr innheimtu þá myndi hann láta alla sína skjólstæðinga sem að væru með tryggingar hjá þeim færa þær eitthvað annað.
Ég þráaðist aðeins við, spurði hvort að skuldin væri ekki rétt. Framkvæmdastjórinn sagði að hún væri alveg rétt, málið væri bara að skuldarinn gæti ekki greitt hana núna, hann myndi gera það þegar að hann gæti en þangað til yrði tryggingafélagið að taka því rólega og veita útgerðarmanninum svigrúm.
Mér fannst hann flottur.
Skuldin var afturkölluð úr innheimtuferlinu samdægurs. Krafan var greidd þegar að úr rættist hjá útgerðarmanninum.
Þetta fékk mig til að hugsa. Þarna var framkvæmdastjóri hjá stórum samtökum sem að gaf sér tíma til að aðstoða trillukarl út á landi og gerði það með því að beita sér af fullum þunga. Mér fannst hann flottur.
Mikið vildi ég að almenningur hefði svona menn til að verja sína hagsmuni. Núna þegar bilið á milli örfárra auðugra og meginþorra almennings er orðið gríðarlegt þá get ég ekki annað en hugsað hvort að til þess kjörnir forkólfar samtaka eins og ASÍ hafi verið að vinna að einhverju gagni.
Hefur almenningur virkilega ekki þann þunga að hægt sé að beita sér eins og umræddur framkvæmdastjóri gerði?