„Það er svo mikilvægt þegar maður er minntur á hverfulleika efnahagslífsins að muna hvað við eigum. Þá sér maður þessa seiglu í samfélaginu, samheldnina og fólkið sem stendur í ströngu, til dæmis í heilbrigðisþjónustunni, hjá almannavörnum, í skólunum og verslunum þar sem starfsmenn standa í framlínunni og þurfa að takast á við það að mæta fólki allan daginn. Fólk í atvinnulífinu horfir fram á mjög erfiðar aðstæður en ætlar sér að komast í gegnum þetta. Ég segi stundum að eftir svona vetur eins og þessi vetur hefur verið þá sé ekki tilviljun að við búum hérna. Það er svo mikil seigla í Íslendingum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Í samtali við Mannlíf ræðir hún hinn skæða Covid-19 faraldur sem herjar á þjóðina, stjórnmálin og einkalífið.
Fjölmiðlar greindu frá því á dögunum að Covid-19 smit hafi komið upp í skóla eins af þremur sonum Katrínar, þurfti hann að fara í sóttkví og flutti ásamt föður sínum út af heimilinu þar til fyrirskipaðri sóttkví lauk, tveimur vikum eftir að drengurinn hafði verið útsettur fyrir smiti. „Ég var í vinnunni og maðurinn minn hafði strax samband við mig eftir að rakningateymið hafði haft samband,“ segir Katrín, þegar hún er spurð út í þetta. „Við brugðumst hratt við og gerðum eins og okkur var sagt. Auðvitað var bara tímaspursmál að eitthvað svona gæti gerst þar sem faraldurinn hefur færst nær okkur öllum á undanförnum vikum. Ég var heima með hina tvo syni okkar. Ég upplifði nú engan ótta vegna þessa en auðvitað kemur þetta róti á hversdagslífið. Við erum frekar náin og maður saknaði þeirra þótt við töluðum saman daglega á Skype. En við vorum heppin, sóttkvínni er lokið og allir eru frískir.“
Katrín segist sjálf þekkja fólk sem hefur veikst af Covid-19 og viti að það er ekkert grín. „Ég, eins og allir aðrir landsmenn, finn hvaða áhrif það hefur á mann þegar það hægist svona á samfélaginu í kringum mann. Það eru allir í sömu stöðu og við hittum miklu færri en áður. Við erum öll ofboðslega mikið úti í göngutúrum til að fá tilbreytingu frá því að vera svona mikið heima við. Þessar aðstæður hafa auðvitað áhrif á hvernig okkum öllum líður og ég held að við skynjum öll bæði samheldni en líka alvarleika í stöðunni.
Í svona aðstæðum erum við öll á sama báti. Við skynjum að þetta er utanaðkomandi vá. Þess vegna hef ég líkt þessu við stríðsástand og það gerir það að verkum að maður finnur þessa miklu samheldni í samfélaginu. Og það finnst mér vera hið jákvæða í þessu öllu saman. Mér finnst aðdáunarvert að yfirgnæfandi meirihluti landsmanna fylgir reglum og gerir hlutina eins vel og fólk getur.“
Lestu viðtalið í heild sinni í Mannlífi.