„Þetta er íþrótt sem að hver sem er getur fundið sína leið til að stunda. Allt frá rólegri „göngu“ á sléttum brautum sem hægt er að stunda nánast hvar sem er svo lengi sem nógu langur snjóskafl finnst, allt upp í harðar keppnisgöngur,” segir Árni i Tryggvason útivistarmaður og félagi í skíðagöngufélaginu Ulli sem heldur úti öflugri starfsemi í Bláfjöllum.
Árni mælir með því að byrjendur fari á námskeið. Gríðarlega mikilvægt sé að læra að ganga rétt á skíðunum strax í upphafi þannig að þau virki sem farartæki en ekki snjóþrúgur.
„Maður sem kann að ganga á skíðum er kannski að taka tvö skref á meðan aðrir sem með honum eru taka fimm. Að láta skíðin vinna fyrir sig er algjört lykilatriði. Því miður var ég búinn að ganga rangt á skíðum í 18 ár áður en ég áttaði mig á þessu og því var það mikil vinna að laga stílinn, en fyrir vikið hef ég efni á að nefna þetta óspart við aðra og ég er ekki óaðfinnanlegur enn í dag. Ýmsir aðilar bjóða upp á námskeið og nefni ég þar fyrst námskeiðin hjá okkur í Ulli sem hafa verið gríðarlega vel sótt. Auk þess eru ýmsir aðrir aðilar sem halda uppi námskeiðum”.
Árni gerir meðal annars mikið af því að ferðast um óbyggðir og víðar á gönguskíðum. Hann dregur þá viðlegubúnaðinn á eftir sér á sleða. Hann hefur farið í allt að fjögurra daga ferðir og skíðað mest 70 km á einum degi. Hann er nýkominn úr slíkri göngu frá Reykjavík og að Laugarvatni.
„Það er einhver mögnuð frelsistilfinning sem fylgir því að standa á skíðunum með allan búnað til nokkurra daga og horfa yfir víðáttuna framundan sem takast þarf á við. Draga djúpt andann, finna hvernig búnaðurinn tekur í og taka fyrsta skrefið. Sum skrefin verða þung með bakpoka og farangurssleða í djúpum snjó upp í móti en önnur létt þegar svifið er yfir harðfenni niður langar aflíðandi brekkur. Ísland er draumaland slíkrar skíðamennsku og verkefnin eru óteljandi”.
Óhætt er að segja að aðbúnaður hans hafi á köflum verið utan þægindarammans. Hann svaf í tjaldi í allt að 15 stiga frosti.
„Það bærði varla vind alla nóttina og um morguninn er tjaldið allt hélað að innan. Um morguninn set ég gaskútinn ofan í svefnpoka hjá mér, þannig að gasið er ófrosið og flæðir því greiðlega þegar kveikt er undir prímusinum í morgunnepjunni. Það er stutt að sækja vatnið í svona ferðum. Bara að moka snjó af gólfinu ofan í pottinn og innan skammst er búið að fylla alla brúsa, borða hafragraut og drekka nægju sína. Þá er bara að byrja að pakka saman dótinu sem er aðeins meiri vinna en á hlýjum sumardegi og gæta þarf þess að ekkert týnist í snjónum”.
Hann segir að fók sem hafi reynslu af ferðamennsku ætti að ráða við ferðir sem þessar. Það þurfi þó að hafa kunnáttu í rötun, útilegum að vetrarlagi og þekkingu á því hvernig á að komast af í óbyggðum.
„Bara það eitt að vakna um miðja nótt til að létta á sér getur orðið að stóraðgerð.”
„Einföldustu atriði daglegs lífs geta orðið snúin þegar komið er út í óbyggðir. Það að hokra inn i í þröngu tjaldi þar sem allar daglegar athafnir þurfa að eiga sér stað á agnarlitlum bletti innan tjaldsins verða snúnar. Bara það eitt að vakna um miðja nótt til að létta á sér getur orðið að stóraðgerð. Rífa sig upp úr svefnpokanum og klæða sig upp til að sinna þessum sjálfsögðu erindum hóflega langt frá tjaldinu getur orðið að þrekraun”.
„Ég gengst fúslega við því að þessi íþrótt sé orðin hrein ástríða hjá mér, enda held ég að ég hafi hrifið ótal manns með mér og ófáir fengið tilsögn hjá mér í skíðagöngunni seinustu árin. Það er gaman að mæta á skíðamót í dag og sjá þar töluverðan hóp fólks sem mætir með eldmóð og áhuga. Þetta sama fólk og tók sín fyrstu skref á gönguskíðum með minni tilsögn”.
Árni segir tilvalið fyrir fólk að stunda gönguskíði á þessum viðsjárverðu tímum þar sem veiran ógnar fólki og smit berst hratt á milli manna.
Þess væri óskandi að menn opnuðu augun fyrir uppbyggingu aðstöðu til skíðagöngu í ljósi atburða liðinna vikna, en skíðagöngubrautir eru eina almenningsaðstaðan í skíðaíþróttinni sem er opin á meðan allt annað er lokað. Skíðagönguna er nefnilega hægt að stunda án mikillar nándar við aðra og enginn búnaður er notaður þar sameiginlega,” segir hann.
Árni segist finna ró við að ganga á skíðunum. Að svífa um í góðri braut þar sem öll einbeiting fari í að gera þetta rétt og halda takti sé hreinsun hugans.
„Allt í einu upphefjumst við og þyngdaraflið er vart að hafa áhrif. Við fljúgum. Í skíðabrautinni þurfum við ekki að hafa áhyggjur af umferðinni eða hindrunum. Og ef við dettum, þá er bara að standa aftur upp og dusta af sér snjóinn og rjúka af stað aftur, því slysatíðnin í þessari íþrótt er með því lægsta sem þekkist. Skíðagöngumaður sem er að gera þetta rétt er að beita um 95 prósent hreyfivöðva líkamans á meðan þessu stendur,” segir hann.
Myndir / Árni Tryggvason