International Airlines Group, móðurfyrirtæki British Airways, hefur keypt spænska flugfélagið Air Europa fyrir 1 milljarð evra.
Í yfirlýsingu til kauphallar í dag segir að IAG kaupin muni verða greidd með reiðufé. Air Europa býður upp á innanlands- og millilandaflug til 69 áfangastaða, en flotinn samanstendur af 66 flugvélum.
Air Europa verður þar með eitt af flugfélögum IAG, en fyrir eru meðal annars Aer Lingus á Írlandi og Iberia á Spáni, ásamt lággjaldaflugfélögunum Vueling og Level.
Með kaupunum á Air Europa bindur IAG vonir við að Madrid verði ein helsta flugvallarmiðstöð Evrópu og geti keppt við Amsterdam, Frankfurt, London Heathrow og París. Það muni einnig opna nýjar flugleiðir til Rómönsku Ameríku og Karabíska markaðsins.
„Að eignast Air Europa bætir nýju samkeppnishæfu, hagkvæmu flugfélagi við IAG, og myndi styrkja Madríd sem leiðandi evrópska miðstöð og leiða til þess að IAG nái forystu Suður-Atlantshafsins,“ segir Willie Walsh framkvæmdastjóri IAG.
Reiknað er með að samningnum, sem fjármagnaður er með erlendum skuldum, ljúki seinni hluta árs 2020, með fyrirvara um samþykki eftirlitsaðila.