Íbúi á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík lést í gær úr COVID-19. Tveir eru sýktir af sjúkdómnum og þrír heimilismenn í einangrun og búið að taka sýni. Fimm íbúar eru í sóttkví án einkenna. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða
Þar segir að meirihluti fastra starfsmanna á hjúkrunarheimilinu séu í einangrun, þar af fimm með staðfest smit. „Aðrir fastir starfsmenn utan þriggja eru í sóttkví og er heimilinu því sinnt nær eingöngu af fólki úr bakvarðasveit eða öðrum deildum stofnunarinnar. Liðsafli hefur þegar borist úr bakvarðasveit og von er á fleirum með þyrlu Landhelgisgæslunnar seinna í dag ef veður leyfir,“ segir í færslunni.