„Þann 15. júní í fyrra var eitrað fyrir kettinum okkar með þeim afleiðingum að við þurftum að svæfa hana,“ skrifar Atli Sævarsson í Facebook-hóp íbúa í 108 Reykjavík. Byrjar hann færsluna á því að segja frá því að „dýraníðingurinn í Heiðargerði sé farinn aftur á kreik,“ en stutt er síðan fjöldi katta dó í götunni og þar í kring af völdum eitrunar. Atli og fjölskylda eru nú að ganga í gegnum það sama aftur, og þurftu þau að láta svæfa köttinn sinn, hana Slaufu, sem var sárþjáð vegna eitrunar.
„Börnin eru lömuð af sorg en eina ferðina og en eitt dýrið fær að upplifa þennan gríðarlega kvalafulla dauðdaga,“ skrifar Atli og hvetur fólk til þess að hafa augun opin fyrir matarleifum. Að lokum óskar hann eftir því að fólk, sem hafi ábendingar, hafi samband og yrði hann gríðarlega þakklátur. Málið hefur vakið óhug hjá íbúum sem óttast um dýrin sín. Þá bendir einn íbúi réttilega á að börn, geti einnig verið í hættu, komist þau í einhverskonar eitraðar matarleifar.
Fréttablaðið fjallaði fyrst um málið.