Lögregla var kölluð út síðdegis í gær þegar íbúar fjölbýlishúss áttuðu sig á því að brotist hafði verið inn í geymslur í húsinu. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort einhver sé grunaður um verknaðinn. Síðar um kvöldið var karlmaður handtekinn í hverfi 108 en sá er grunaður um að hafa brotist inn í fyrirtæki. Maðurinn var vistaður í fangaklefa lögreglu í þágu rannsóknar málsins.
Í sama hverfi stöðvaði lögregla tvo ökmenn sem báðir eru grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Starfsfólk skemmtistaðar í hverfi 104 óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs einstaklings sem var með leiðindi við starfsfólk. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvernig málinu lauk. Þá kviknaði eldur í bifreið í miðbæ Reykjavíkur. Slökkviliðið fór á staðinn og slökkti eldinn.