Snjóflóð féll í Norðfirði í nótt, vestan leiðigarða við Urðarteig. Flóðið fór yfir Strandgötu og í sjó fram. Verið er að rýma eitt hús. Unnið er að því að meta aðstæður annarsstaðar í þéttbýlinu og víðar. Íbúar Norðfjarðar hvattir til að halda kyrru fyrir heima, hlémegin í húsum og bíða frekari upplýsinga.
Mikil snjókoma var á Austurlandi nótt og hefur því hætta skapast víða í fjallshlíðum ofan við þéttbýliskjarna.
Öllu skólahaldi hefur verið aflýst í Fjarðabyggð sem og almenningssamgöngum.
Leiðbeiningar við rýmingu
Lögreglan á Austurlandi hefur gefið út leiðbeiningar til íbúa um hvernig skuli bera sig að við rýmingu húsa. Listi yfir helstu nauðsynjar hefur verið tekin saman, þá skulu húsin merkt sérstaklega og skal því næst halda tafarlaust til þeirrar fjöldahjálparstöðvar sem ákveðin hefur verið til skráningar fólks.
Færslu lögreglunnar á Austurlandi má sjá hér:
Fréttin er í framvindu.