Íbúar miðborgarinnar eru orðnir langþreyttir á þeirri þjófaöldu sem þar gengur yfir ef marka má skrif í Facebook hóp hverfisins og vilja grípa til sinna ráða.
„Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sú fáránlega þjófa-alda sem gengur í miðborginni, öllu stolið steini léttara, allt hlaupahjólum og stærri tækjum upp í kerrum og barnavögnum, brotist inn í bíla og vaðið um.
Flest vitum við að þessi þjófabylgja er í grunninn byggð á heilbrigðisvanda, við íbúar höfum samband við lögreglu sem getur ekkert gert, eða gerir ekkert, ég held að það séu margvíslegar ástæður fyrir því,“ skrifar Helga nokkur íbúi hverfisins og heldur áfram.
„Ég held líka að flest okkar geti verið sammála um það að það er hvimleitt að tala illa um lögregluna, kalla hana aumingja og tala hana niður, það er mun betra að sjá fyrir sér hvernig við viljum hafa hana, stefna að því og hafa það að sameiginlegu markmiði, lögreglan er mikilvægt þjónustustarf í nær-umhverfi okkar og á að vera það.“
Segir Helga ástandið vera orðið algjörlega ólíðandi, þjófar vaði um og taki það sem þeim sýnist og það haldi áfram á meðan þýfið er gjaldmiðill í undirheimunum fyrir næsta skammt, „að því leytinu er þetta heilbrigðismál,“ skrifar hún.
Stingur Helga upp á að haldinn verði fundur, jafnvel fundarröð, með íbúum miðborgarinnar, þar sem þessi mál séu rædd og fólk geti sagt frá reynslu sinni af þjófnaði og reynslu af lögreglunni.
„Síðan væri hægt að halda áfram með að búa til erindi til lögreglunnar, skapa þar samtal svo lögreglan geti sagt frá takmörkunum sínum upphátt í þessum málum og þaðan er hægt að skoða hvað við íbúar getum gert, hugsanlega í samstarfi við yfirvöld.“
Vel er tekið í þessa hugmynd Helgu og því ljóst að margir þrá úrbætur á núverandi ástandi.