Félög innan Icelandair Group samsteypunnar hafa fengið samanlagt um fjóra milljarða króna frá ríkinu i uppsagnastyrki. Stærstu ferðaþjónustufyrirtæki landsins raða sér efst á listann yfir þau fyrirtæki sem hafa hlotið þessa aðstoð frá ríkinu.
Þetta má sjá á lista sem Skatturinn birti á vef sínum en Kjarninn greindi frá. Um er að ræða ríkisstuðning til fyrirtækja vegna launagreiðslna til starfsfólks á uppsagnarfresti.
Á Covid-tímabilinu hefur ríkið greitt uppsagnarstyrki á heildina fyrir um 8 milljarða króna og hefur Icelandair því fengið um helmings alls þess sem ríkið hefur styrkt. Flugfélagið sagði líka upp nærri 1.900 starfsmönnum og beygði nýverið flugfreyjur félagsins til að taka á sig 25 prósent launaskerðingu.
Í efstu sætum listans má finna stóru hótelkeðjurnar sem hafa sagt upp fjölda starfsfólks vegna Covid-19. Er þar um að ræða Fosshótel Reykjavík og Íslandshótel sem hafa fengið nærri 600 milljónir frá ríkinu í stuðning vegna uppsagna tæplega 600 starfsmanna.
Bláa lónið sagði einnig upp nærri 550 starfsmönnum sínum og hefur fengið ríkisstyrk uppá 425 milljónir króna vegna uppsagnanna. Rútufyrirtækin Grey Line og Kynnisferðir eru einnig ofarlega á lista Skattsins.
Ríkið hefur ekki greitt út allt af þeim uppsagnarstyrkjum sem gert var ráð fyrir í frumvarpi. Þar er gert ráð fyrir 27 milljarða upphæð en búið er að greiða 8 milljarðal eða því sem nemur um 30 prósentum vegna úrræðisins.