Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Icelandair og FFÍ undirrita nýjan kjarasamning – „Flugfreyjur og flugþjónar ætíð verið tilbúin til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nýr kjarasamningur Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og Icelandair var undirritaður í nótt. Icelandair og FFÍ sendu frá sér fréttatilkynningu um nýja samninginn í nótt.

Þar kemur fram að Icelandair og FFÍ hafa skrifað undir nýjan kjarasamning sem gildir til 30. september 2025. Samningurinn er í samræmi við þau markmið sem lagt var upp með um að auka vinnuframlag og sveigjanleika fyrir félagið en á sama tíma verja ráðstöfunartekjur flugfreyja og flugþjóna er fram kemur í tilkynningunni.

Í henni er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair að það sé ánægjulegt að hafa gengið frá samningnum. Hann segir að með nýja kjarasamningnum séu flugfreyjur og flugþjónar að taka á sig aukið vinnuframlag en hann segir saminginn einnig tryggja góð kjör og sveigjanleika fyrir starfsfólk.

„Það er virkilega ánægjulegt að hafa gengið frá langtímasamningi við flugfreyjur og flugþjóna en það er mikilvægur þáttur í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og liður í að auka samkeppnishæfni þess til lengri tíma. Töluverðar breytingar til einföldunar voru gerðar frá fyrri samningi sem fela í sér aukið vinnuframlag og aukinn sveigjanleika til þróunar á leiðakerfi Icelandair en samningurinn tryggir jafnframt góð kjör og sveigjanleika fyrir starfsfólk. Með þessum samningi eru flugfreyjur og flugþjónar að leggja sitt af mörkum til að styrkja rekstrargrundvöll Icelandair til framtíðar,“ segir Bogi.

Komu til móts við Icelandair í gjörbreyttu landslagi

Í tilkynningunni er haft eftir Guðlaugu Líney Jóhannsdóttur, formanni FFÍ að flugfreyjur og flugþjónar hafi alltaf verið tilbúin að leggja sitt af mörkum til að mæta fyrirtækinu á erfiðum tímum.

- Auglýsing -

„Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) hefur frá upphafi þessarar löngu og flóknu samningalotu fundið til ábyrgðar og sýnt mikinn samningsvilja. Líkt og flugmenn og flugvirkjar hafa flugfreyjur og flugþjónar ætíð verið tilbúin til að leggja sitt lóð á vogarskálarnar og mæta fyrirtækinu á erfiðum tímum. Starfsöryggi félagsmanna FFÍ var eitt af aðaláhersluatriðum samninganefndar í viðræðunum. Með nýjum samningi kom FFÍ til móts við Icelandair í því gjörbreytta landslagi sem blasir við fyrirtækinu og gerir því kleift að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika félagsins,“ segir Líney.

Kynntur á föstudaginn

Nýr kjarasamningur verður kynntur fyrir félagsmönnum FFÍ á föstudaginn og kjósa félagsmenn um hann í framhaldi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -