Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Icelandair sagt fara gegn tilskipun Bandaríkjamanna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bandarísk stjórnvöld hafa gefið út tilskipun þar sem ítrekað er við flugfélög að farþegar sem hafa keypt flugferð sem er aflýst eða breytt vegna kórónuveirunnar eigi rétt á endurgreiðslu. Ekki megi bjóða farþegum inneign í staðinn. Athygli vekur að á sama tíma og bandarísk stjórnvöld senda tilskipunina frá sér kynnir Icelandir nýja tæknilausn sem sendir viðskiptavinum upplýsingar um að flugi hafi verið aflýst og boð um inneign.

Bandaríska samgönguráðuneytið hefur sent frá sér tilskipun til flugfélaga þar sem þau eru minnt á að í ljósi ástandsins sem ríki vegna Covid-19 faraldurins eigi farþegar rétt á endurgreiðslu verði röskun á flugi. Gripið verði til aðgerða gegn flugfélögum sem fari ekki eftir tilskipuninni. Heimildamaður sem gjörþekkir flugrekstur segir í samtali við Mannlíf að tilskipun bandaríska samgönguráðuneytisins geti sett Icelandair í erfiða stöðu. Félagið hafi ekki endurgreitt farþegum ferðir sem hafa fallið niður vegna Covid-19 en verði nú að gera það samkvæmt þessu, vilji það eiga kost á því að flytja áfram farþega til og frá Bandaríkjunum.

Í tilskipun samgönguráðuneytisins sem það sendi frá sér á föstudag er ítrekað við flugfélög að farþegar, sem eiga m.a. flug til eða frá Bandaríkjanna, eigi rétt á fullri endurgreiðslu verði röskun á flugi. Þar segir að ráðuneytinu hafi borist fjöldi fyrirspurna frá farþegum sem hafi annaðhvort ekki fengið farmiða endurgreidda þótt flugi þeirra hafi verið breytt eða aflýst eða þeim hafi verið boðnir flugpunktar eða inneign í staðinn. Hvort tveggja gangi þvert á tilskipunina. Segist ráðuneytið ætla að veita flugfélögum svigrúm til að fara eftir tilskipuninni, það muni fylgjast vel með framvindu mála og grípa til aðgerða ef þess gerist þörf.

Fyrrnefndur heimildamaður Mannlífs segir að skilja megi tilskipunina sem svo að þau flugfélög sem ekki fari eftir henni fái einfaldlega ekki að flytja farþega til eða frá Bandaríkjunum. Hann segir þetta setja Icelandair í erfiða stöðu fjárhagslega. Upp hafi komið mál þar sem Icelandair hafi ekki endurgreitt farþegum sínum vegna niðurfelldra flugferða í tengslum við Covid-19 faraldurinn, en nú eigi og verði félagið að gera það samkvæmt þessari tilskipun ráðuneytisins, vilji það flytja áfram farþega til og frá Bandaríkjunum.

Hann furðar sig ennfremur á því að á sama tíma og bandaríska samgönguráðuneytið sendir frá sér tilskipunina, þar sem flugfélög eru minnt á að í ljósi ástandsins eigi farþegar rétt á endurgreiðslu verði röskun á flugi, þá skuli Icelandair kynna til sögunnar nýja tæknilausn sem gerir fyrirtækinu kleift að aflýsa ferðum lengra fram í tímann en hægt hefur verið hingað til. Lausn sem sendir viðskiptavinum upplýsingar um að flugi hafi verið aflýst og boð um inneign. Með hliðsjón af tilskipun bandaríska samgönguráðuneytisins megi segja að þessi „töfralausn sé ólögleg“ gagnvart farþegum á leið til eða frá Bandaríkjunum.

Neytendasamtökin gagnrýna tæknilausn Icelandair

- Auglýsing -

Mannlíf ræddi málið við Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, sem bendir á að þessi tilskipun bandaríska samgönguráðuneytisins sé sambærileg við reglugerð Evrópusambandsins. Þar sé tekið fram að farþegar eigi þrenns konar rétt þegar flugfélag breytir eða aflýsir flugi; þ.e. að félagið bjóðist til að bóka handa farþegunum annað flug á samabærilegan áfangastað á sambærilegum tíma, eða bjóði þeim inneignarnótu eða endurgreiðslu. Breki segir að með hliðsjón af þessari reglugerð Evrópusambandsins hafi Neytendasamtökin einmitt gert athugasemd við þessa fyrrnefndu tæknilausn frá Icelandair.

„Þegar Icelandair kom fram með þessa lausn, settum við nánar tiltekið út á það við Icelandair að þessi réttindi neytenda skyldu ekki koma fram í tölvupósti sem félagið sendi á fólk, og við höfum undir höndum; þ.e. við settum út á það að í tölvupóstinum skuli félagið bara greina frá þessari inneign sem fólk býðst, ef breytingar verða á flugi, en það greini ekki frá réttinum til annars flugs eða endurgreiðslu.“

„Þegar Icelandair kom fram með þessa lausn, settum við … út á það við Icelandair að þessi réttindi neytenda skyldu ekki koma fram í tölvupósti sem félagið sendi á fólk, og við höfum undir höndum.“

Breki segir Neytendasamtökin enn fremur hafa sett út á framsetningu tæknilausnar Icelandair. „Við kvörtuðum yfir því við félagið sjálft og komum því á framfæri á heimasíðu okkur að á heimasíðu Icelandair væri miklu auðveldara fyrir fólk að velja inneign en að fá endurgreitt. Maður þarf bara að smella á einn stað til að fá inneignarnótu, en maður þarf aftur á móti að fara inn á nýja vefsíðu og slá þar inn allar upplýsingar ætli maður að fá endurgreiðslu. Það er gert mun flóknara.“

- Auglýsing -

„Ekki flugfélagsins“

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað töluvert um réttindi flugfarþega á tímum kórónuveirunnar. Í frétt sem birtist á Vísi 13. mars kom fram að Samgöngustofa meti það svo að þeir sem hafa keypt sér flugmiða í ferðir sem hafa verið felldar niður vegna faraldursins eigi rétt á endurgreiðslu. Samhliða þessu vakti Vísir athygli á því að mat Samgöngustofu virtist stangast á við skilning Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, ef marka mátti ummæli sem Bogi lét falla í fréttum Stöðvar 2 kvöldið áður. Þar sagði Bogi: „Ef farþeginn hefur ekki heimild til þess að fljúga til ákveðins lands þá er það í raun farþegans, má segja. Þetta er ekki eitthvað sem við höfum stjórn á. Það hefur verið þannig hjá okkur og öðrum flugfélögum að ef farþegi hefur ekki leyfi til að fljúga til ákveðins lands og fær ekki landvistarleyfi er það í raun ekki flugfélagsins.“

Sama dag og Vísi birti frétt sína kom Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, því á framfæri við Vísi að misskilnings gætti varðandi svör Boga við spurningum um endurgreiðslurétt farþega. Sagði Ásdís rangt að Bogi hefði farið með fleipur eins og sagði í fyrri útgáfu fréttarinnar á Vísi: „Ef Icelandair fellir niður flug á farþegi rétt á endurgreiðslu. Það er skýrt og er Bogi ekki að vísa í slík tilfelli,“ sagði Ásdís við fréttastofu Vísis og bætti við: „Það sem hann á við er að ef viðkomandi flug er á áætlun er það á ábyrgð farþegans að hafa tilskilið landvistarleyfi, hvort sem um er að ræða vegabréfsáritun eða, í þessu tilfelli, að fylgja því komubanni sem er í gildi í Bandaríkjunum.“ Fréttin var uppfærð með ábendingu upplýsingafulltrúans.

Breki Karlsson segir í samtali við Mannlíf að Neytendasamtökin séu með fjölda mála og hafi fengið tilkynningar um önnur þar sem Icelandair hefur ekki endurgreitt farþegum sínum vegna niðurfelldra flugferða í tengslum við kórónuveiruna innan tilskilinna sjö daga, samkvæmt reglugerð Evrópusambandsins. Samkvæmt Breka eru málin til skoðunar.

Ekki náðist í Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, eða Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, við vinnslu fréttarinnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -