Eigandi bílskúrs sem listamaðurinn Banksy skreytti nýverið með listaverki hefur fengið nokkur tilboð í verkið. Hann er sagður vera að íhuga að taka tilboði upp á 15,2 milljónir.
Í frétt BBC kemur fram að bílskúrseigandinn hafi fengið nokkur tilboð í verkið en að hann íhugi nú að taka þessu tilboði, upp á rúmar 15 milljónir. Listaverkasafnari, sem á nú þegar nokkur verk eftir Banksy, mun hafa gert tilboð í verkið.
Lewis ætlar þó að funda með yfirvöldum bæjarins sem hann býr í, Port Talbot í Wales, til að ræða fleiri möguleika áður en hann tekur endanlega ákvörðun.
Eins og fjallað var um fyrr í vikunni er Lewis að bugast vegna álags sem fylgir því að eiga bílskúr sem skreyttur er með listaverki eftir Banksy. „Þetta hefur verið mjög, mjög stressandi og mjög súrrealískt. Þetta hefur bara verið of mikið fyrir mig,“ sagði Lewis í viðtali við BBC en honum finnst hann bera ákveðna ábyrgð á verkinu og þurfa að vernda það fyrir skemmdarvörgum. Hann sagði þá að fólk flykkist nú að bílskúrnum á öllum tímum sólarhringsins til að virða verkið fyrir sér.
Yfirvöld í Wales hafa boðist til að útvega Lewis öryggisgæslu um tíma, á meðan hann ákveður hver næstu skref verða.
Mynd / Skjáskot af Youtube
View this post on Instagram