Illugi Jökulsson, fjölmiðlamaður og samfélagsrýnir, á varla til orð yfir grein eftir Katríni Jakobsdóttur, forsætisráðherra sem birtist á Innherjasíðu Vísis í fyrradag. Í greininni fer Katrín yfir áskoranir komandi árs, aðallega á sviði efnahags og atvinnulífs.
Illuga fannst afar lítið til greinarinnar koma.
„Þetta er ótrúleg grein, alveg með hreinustu ólíkindum. Þarna er EKKERT sem formaður Sjálfstæðisflokksins eða formaður Samtaka atvinnulífsins hefðu ekki getað skrifað. Ekki neitt. Ekkert um hlutskipti þeirra fátæku, þeirra lægst launuðu, öryrkja, hælisleitenda, ekki neitt. Ekki í framhjáhlaupi einu sinni, ekki orð um að þetta þurfi að hafa í huga. Ekki neitt, ekki neitt. Og í eina skiptið sem talað er um umhverfi er átt við umhverfi atvinnulífsins. Drottinn minn dýri, hvílík vinstrihreyfing, hvílíkt grænt framboð!“
Hafa þó nokkrir líkað við færslu Illuga en aðeins ein athugasemd verið skrifuð en það er Bjarni nokkur sem það gerir. En sú athugasemd er stutt og skorinort.
„Hún er að verða vinstri-helblá!“