Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Inga var um borð í Goðafossi þegar kviknaði í: „Eldurinn stóð nokkra metra upp“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það kviknaði í skorsteininum. Það var svipað og gerðist nokkrum árum áður,“ segir Inga Fanney Egilsdóttir stýrimaður í viðtali við Reyni Traustason um það þegar hún var að vinna um borð í Goðafossi og það kviknaði í. Hún var þá annar stýrimaður. „Það var skítabræla eins og alltaf þegar eitthvað leiðinlegt gerist. Við vorum á leiðinni til Íslands og það var búið að losa stærstan hluta af farminum; við losuðum mest í Færeyjum. Þá var skiptið stíft og leiðinlegt. Ég átti vaktina frá miðnætti og fljótlega upp úr miðnætti hringdi vélstjórinn upp og bað um að hægt yrði aðeins á ferðinni af því að það væri eitthvað vesen hjá honum. Svo hringdi hann aftur og bað um að það yrði slegið meira af og þá hringdi ég í skipstjórann, Ægi Jónsson, og hann kom upp. Það sem var oft á Goðafossi þegar maður var búinn að vera á „slowinu“ eins og í gegnum Kílarskurðinn að þegar var sett í gang þá komu eldglæur upp úr. Það var mjög algengt. Við vorum orðin svolítið leið á að bíða og það var farið að ganga hægt. Við vorum á þessum árum á svartolíu milli Íslands og Færeyja; fórum á betri olíu þegar var farið til Evrópu. Það voru bara stífari reglur í Evrópu og við máttum ekki vera á svartolíu sem er miklu ódýrari. Svo var allt í einu eins og það væri kveikt á þúsund ljósastaurum allt í kringum okkur. Það varð bara appelsínugult allt í kringum mann og eldurinn stóð nokkra metra upp úr skorsteininum. Ægir handstýrði á minnstu ferð upp í veðrið og gerði þetta allan tímann á meðan við vorum að þessu. Það var náttúrlega bara ræs og allir út og reyna að slökkva. Við kölluðum ekki SOS heldur hringdum beint í Landhelgisgæsluna. Þá sáu þeir um okkar mál.“

Það var bara að kveikja á dælunni og þá vorum við fljótari að slökkva.

Það gekk erfiðlega að ráða niðurlögum eldsins. Skipið var látið ganga á hægri ferð á díselolíu og segir Inga Fanney að um leið og skipt var yfir í svartolíu þá hafi kviknað aftur í. „Þá vorum við með allar slöngur tilbúnar og tengdar. Það var bara að kveikja á dælunni og þá vorum við fljótari að slökkva. Þá ákvað skipstjórinn að sigla bara til baka til Færeyja. Fara ekkert heim. Og Færeyingar tóku mjög vel á móti okkur.“

Var þetta mikið tjón?

„Já.“

Hellings tjón?

„Hellings tjón. En það var ekki tjón á farminum. Og það var hægt að gera við þetta.“

- Auglýsing -

 

Að hraðsjóða hrísgrjónagraut

Inga Fanny segist ekki hafa vitað hvað sjómennska var þegar hún var barn.

- Auglýsing -

„Við vorum í blokk í Reykjavík og ég vissi ekki af sjómannadeginum fyrr en við fluttum til Hafnarfjarðar þegar ég var níu ára. Pabbi vinkonu minnar var skipstjóri, Jörundur hjá Samskip, og mér fannst það voðalega merkilegt.“

Hún segir að hún hafi á unglingsárum ekki vitað hvað hún ætlaði að gera. „En ég vissi hvað ég ætlaði ekki að gera; ég ætlaði ekki að vinna í búð og ég ætlaði ekki að vinna í banka. Svo ætlaði ég að læra útvarps- og sjónvarpsvirkjun og fór í Iðnskólann. Það var gott nám að því leyti að það var bóklegt aðra vikuna eða annan hvorn dag og hitt verklegt. Þá skiptist maður á. Maður lærði sitt lítið í hverju; logsuðu, rafsuðu, járnsmíði og rennismíði og þá sá ég að útvarps- og sjónvarpsvirkjun væri ekki mitt fag. Skólabróðir minn, sem hét Sæmundur, sagði að ég ætti að fara á sjóinn og fá almennilega peninga. Og ári seinna fór ég eftir því.“

Það var auglýst í útvarpinu eftir kokki á bát frá Stokkseyri. Og Inga Fanney sótti um.

„Kona skipstjórnas vann hjá útgerðinni og hún hafði með mannaráðningar að gera og hún réði mig af því að ég væri vön á sjó. Hún spurði mig hvort ég væri vön á sjó og hvort ég væri sjóveik og ég sagði bara eins og var að ég hefði farið út um allan flóa með pabba að veiða sem var alveg rétt en það var fjögurra metra plastbátur með utanborðsvél.“

Inga Fanney fékk starfið. Og hún segist ekki hafa verið sjóveik.

Ég hafði ekki uppskriftina en flotinn skemmti sér vel þegar stelpan hringdi í mömmu og bað um uppskrift að hjónabandssælu.

Inga Fanney hafði með sér um borð bókina Unga stúlkan og heimilisstörfin. Kunni Inga Fanney að elda?

„Ekki mikið. Mamma var mjög flinkur kokkur og ég gerði eins og hún sagði. Svo kom stundum fyrir að það vantaði eitthvað og ég þurfti að fara að baka. Það eina sem ég kunni að baka með höndunum var hjónabandssæla. Ég hafði ekki uppskriftina en flotinn skemmti sér vel þegar stelpan hringdi í mömmu og bað um uppskrift að hjónabandssælu.“

Það var í gegnum talstöð og allir hlustuðu.

„Já. Þeir skemmtu sér vel yfir því. Ég frétti það seinna. Ég var ekkert að spá í það.“

Þetta var rosalegur peningur. Ég hef aldrei þénað svona vel síðan.

Það var verið að veiða humar og vann Inga Fanney líka á dekkinu. Og launin voru góð. „Þetta var rosalegur peningur. Ég hef aldrei þénað svona vel síðan.“

Hún er spurði hvernig karlarnir um borð hafi tekið henni og segir hún að þeir hafi verið mjög góðir og þægilegir.

„Ég hraðsauð hrísgrjónagraut. Þeir orðuðu þetta þannig að það þyrfti að salta hann; hann væri eitthvað skrýtinn. Svo spurði ég mömmu hvað ætti að gera og hún sagði að ég þyrfti að sjóða grautinn að lágmarki í klukkutíma.“

Inga Fanney Egilsdóttir

Sturtaði yfir hann

Svo bilaði vélin í bátnum og Inga Fanney fór á annan bát. Og svo þann þriðja. „Svo fór ég til útlanda með hýruna og eyddi öllu. Ég fór til Englands og var á flakki.

Svo komst ég á vetrarvertíð í Vestmannaeyjum árið eftir. Það var ekki jafngaman því þá voru fleiri í áhöfn. Við vorum að fara á nót á loðnu og þá var ég bara í eldhúsinu. Það var ekki eins gaman og þá var maður ekki eins tengdur áhöfninni.“

Hann ætlaði að slást við mig en honum var kippt niður af hinum.

Hún segir að það hafi gengið á ýmsu á þessum báti. „Þetta hafði verið togbátur sem hafði verið breytt í nótabóat og skipstjórinn var mjög flinkur togveiðiskipstjóri en hann var ekki alveg búinn að þjálfa sig í nótinni þannig að það lá misvel á mönnum. Það var einn karl sem var frekar leiðinlegur við alla og var að skamma mig sem kokkinn. Ég sagði að ef hann hætti ekki að röfla þá myndi ég hella yfir hann vatni. Hann hélt áfram og ég kom með stóra vatnskönnu sem var á borðinu og sturtaði yfir hann. Hann ætlaði að slást við mig en honum var kippt niður af hinum.“

Þarna var Inga Fanney um tvítugt.

Hún sigldi um tíma á Hvalvík sem var fraktari. Var kokkur um borð.

„Hvalvíkin kom til Vestmannaeyja. Hún var gulmáluð og stór og þeir voru að losa salt. Ég fór um borð í skipið og sá gröfur ofan í lestinni í saltfjallinu. Mér leist æðislega vel á þetta og ákvað að fá þarna pláss. Ég held þetta hafi verið í fyrsta skipti í tvö ár sem skipið kom til Íslands. Það var alltaf í siglingum úti. Ég hitti þá Guðmund Arason sem var skipstjóri. Við spjölluðum saman og ég sótti um þetta pláss sem kokkur en þá hafði kokkurinn hætt við að hætta. Það var dönsk kona sem var þar kokkur. Ég spurði hann þá hvort ég gæti ekki farið sem háseti.“ Inga Fanney fékk síðar vinnu um borð  þegar það kom aftur til Íslands. „Við fórum í trampið sem var æðislega gaman; það eru leiguskip og maður veit aldrei á hvaða rútínu maður er að fara. Þetta var skemmtilegur tími og það var oft langur tími í höfnum.“

Var ekkert sukk?

„Jú, jú.“

Þarna var Inga Fanney 24 – 25 ára.

 

Allt étur loðnu

Ferill Ingu Fanneyjar á sjónum er farsæll en þess má geta að hún fór svo í Stýrimannaskólann og fékk stýrimannaréttindi og útskrifaðist hún fyrir 40 árum.

Á sjómennskan við konur?

„Þetta er þægileg vinna. Allavega oftast nær.“

Þetta getur verið hark á köflum eins og á frystitogurum og línubátum.

„Ég held að það sé miklu meiri harka núna á þessum litlu línubátum heldur en var. Þetta er rosalegt úthald. Langar siglingar og þröng aðstaða. Og hraðskreiðir bátar.“

Veistu hvað eru margar konur í dag sem eru stýrimenn eða skipstjórar?

„Ætli ég sé ekki síðasti móhíkaninn.“

Inga Fanney segir að áratug eftir að hún útskrifaðist hafi engin kona bæst við sem hún segir að sé frekar lélegt.

Strákurinn fæddist 31. mars og ég fór í land 8. eða 9. mars.

Inga Fanney á mann. Sjómann. „Við vorum á sama skipinu og svo lentum við bæði á löngu fríi. Og þá varð sonur okkar til.“ Hún var þá 35 ára.  „Þegar mig var farið að gruna að ég væri ófrísk þá var komið að því að fara að sigla aftur og ég fór út á sjó. Strákurinn fæddist 31. mars og ég fór í land 8. eða 9. mars.“

Var ekkert strembið að vera á steypirnum á sjónum?

„Nei, síðasta mánuðinn var skipið í hálfan mánuð í slipp í Danmörku.“ Hún var þá stýrimaður.

Inga Fanney er spurð hvort menn hafi ekki verið hissa á því að hún væri ófrísk og að vinna sem stýrimaður.

„Ég sagði ekki mörgum frá því. Hann var frekar nettur þannig að kúlan var lítil. Ég gat skoðað alla tanka eins og þurfti að gera í slippnum. Það var ekki málið.“

Hún fór í land þegar hún varð móðir. Hún leitaði síðar að vinnu og segir að hún hafi verið í sömu sporum og sjómenn sem koma í land: Hvað gat hún gert? Hvað kunni hún?

„Ég var svo heppin að fá vinnu hjá Hafrannsóknarstofnun. Á hvaladeildinni. Það vantaði rannsóknarmanneskju,“ segir hún en það þurfti meðal annars að taka sýni af og til og svo var verið prófarkalesa texta.

„Svo kom upp verkefni, fjölstofnaverkefni, og var verið að rannsaka hver étur hvern.“

Hver var merkilegasta uppgötvunin?

„Allt étur loðnu.“

Hún tók sér stundum launalaust leyfi til að fara einn og einn túr á sjóinn. Svo fór hún á sjóinn á vegum Hafrannsóknarstofnunar.

 

Flóttamenn á fleka

Svo fékk Inga Fanney leyfi til að sækja rannsóknarskipið Feng sem hafði verið við Grænhöfðaeyjar og átti að lána það til Mið-Ameríku í tvö ár. Sonur hennar var þá tveggja til þriggja ára og fór hún í þetta verkefni í tvo mánuði. „Pabbi og mamma voru með strákinn stóran hluta tímans og ég var svo heppin að njóta þess.

Fengur var gott sjóskip þótt hann liti hræðilega út og væri fullur af kakkalökkum. Þegar við vorum að sigla norður Florida-sundið þá sá skipverji eitthvað á sjónum og við fórum að skoða þetta. Þá voru það kúbverskir flóttamenn á fleka; það voru fimm uppblásin dekk bundin saman með bambusprikum og þeir héngu á þessu.“

Máttuð þið bjarga þeim?

„Við gáfum þeim að borða og drekka og kölluðum á bandarísku strandgæsluan og létum þá vita. Við vildum ekki taka þá um borð. Í fyrsta lagi vorum við bara fimm og þeir voru fimm.“

Þú veist aldrei hvað getur gerst.

„Ég hefði alveg treyst mönnunum en ég hefði ekki treyst bandarískum yfirvöldum til að taka olíu með þá um borð.“

Það er ekkert sjálfgefið; það má ekki bjarga fólki í þessum aðstæðum. Þá ertu búin að taka ábyrgð og þá situr útgerðin uppi með ákveðinn skell.

„Já. Það var málið. En við vorum með spænskumælandi fólk þannig að þeir gátu talað saman.“

Látið fólk og mæður sem voru búnar að missa börnin sín sem voru dáin.

Inga Fanney segir að bandaríska strandgæslan hafi sent flugvél af stað sem flaug yfir svæðið. „Svo komu þyrlur og hraðbátar frá Bandaríkjunum því það var allt Florida-sundið fullt af svona flekum. Við vorum heppin en þetta voru fimm karlar á lífi og á besta aldri. En lýsingarnar; það var verið að taka upp suma flekana og ástandið var stundum skelfilegt. Látið fólk og mæður sem voru búnar að missa börnin sín sem voru dáin. Ég heyrði að á einum flekanum hafi verið kona sem vildi ekki fara vegna þess að einhvers staðar í sjónum voru tveir synir hennar. Mér líður enn illa þegar ég hugsa um þetta. En Kaninn bað okkur að bíða hjá þeim á meðan þeir væru að sópa upp hitt liðið þannig að við vorum þarna í allmargar klukkustundir við hliðina á þeim. Þeir sóttu þá seinast af því að við vorum tilbúin að vera hjá þeim. Þeir vildu bjarga öðrum áður.“

 

Dallurinn lélegur

Inga Fanney segist bara hafa verið annar stýrimaður hjá Eimskip.

Af hverju er það?

„Þeir geta notað mig sem yfirstýrimann þegar þarf að flytja fólk eins og á Herjólfi og Baldri.“

Þú færð að vera yfirstýrimaður hjá Eimskip á svona skipum. Er það ekki svolítið súrt? Ættir þú ekki að vera orðin skipstjóri?

„Ég veit það ekki. Það er þeirra. Þeir eiga þetta og stjórna þessu.“

Hún leysti af á Herjólfi þear Eimskip rak ferjuna og hún segist hafa verið í afleysingum á Baldri í nokkur ár. Hún er búin að vera í fríi undanfarna mánuði. „Það var afskaplega skemmtilegt að hitta skemmtilegt fólk; fraktin talar við mann. Er ekki dauðir gámar.“

Hún talar um fegurðina á Breiðafirðinum. „Það er fallegt á Breiðafirðinum en þegar maður er búnn að vera lengi þá getur maður ekki lokað augunum fyrir því hvað dallurinn er lélegur.“

Þetta er bátur sem ég treysti ekki.

Af hverju gera menn ekkert í því?

„Eimskip er vorkunn að einu leyti. Þeir fá alltaf skammtímasamning fyrir að reka þetta og þú ert ekkert að fjárfesta í einhverju sem þú veist ekki hvað verður. Heimamenn eru þakklátir fyrir góða vinnu og vilja hafa þetta. Vegagerðin með öll sín fjárhagsmál í ólestri á að sjá um hluta af þessu. Þetta er sambland af mörgu. En þetta er bátur sem ég treysti ekki. Og annað: Þetta er erfið siglingaleið í slæmu veðri. Það má lítið út af bregða. Þú mátt ekki vera vélarvana lengi.“

Það eru eyjar og sker og allavega.

„Já, skipstjórar eru mjög flinkir og þekkja út og inn hvernig straumarnir eru. Það má engu muna og þetta hefur verið að bila inn á milli. Það er meira en að segja það að koma fólki í annan bát ef það þarf að losa skipið. Bara til að komast í björgunarbátana þá þarf að fara upp á þilfar og upp brattan stiga. Þarna er fólk sem er kannski hreyfihamlað.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -