Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gagnrýndi slæma stöðu heilbrigðisþjónustu í dreifðari byggðum í fyrrispurnartíma Alþingis í dag. Inga vitnaði til fréttar um erfiða stöðu í heilbrigðisþjónustu á Borgarfirði eystra þar sem sjúklingur var nýlega deyfður með koníaki. „Þó það sé gaman að fá sér stundum koníak er þetta eitthvað annað,“ sagði Inga.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist sjálfri hafa brugðið við fréttir af málinu. Hún hafi sótt upplýsingar innan úr heilbrigðisráðuneytinu og fengið þær upplýsingar að þjónustu á svæðinu hafi dregist verulega aftur eftir að hjúkrunarkona flutti á brott.
Fjallað var um alvarlega stöðu mála í Mannlíf síðastliðinn föstudag. Þar kemur fram að íbúar á Borgarfirði eystra kalla eftir samstarfi um viðbragðsþjónustu utan spítala þar sem óöryggi íbúanna varðandi heilbrigðisþjónustu sé algjört. Þegar alvarleg tilvik koma upp þarf að kalla eftir sjúkrabíl frá Egilsstöðum sem er í klukkutíma akstursfjarlægð yfir fjallveg. Læknir hefur ekki verið starfandi í þorpinu í áratug. Íbúi á Borgarfirði eystra segir í samtali við Mannlíf að húsnæði, sem notað er sem heilsugæsla þegar þörf er á, skorti lágmarks aðföng sem þarf til að sinna sjúklingum.
„Það er ekkert til þarna. Það slasaðist einstaklingur fyrir nokkru. Það var læknir á staðnum þegar slysið varð en hann var ekki með læknisáhöld á sér, enda á frívakt. Það fannst ekkert til að sauma manninn með en fyrir rest gróf læknirinn upp einhvern grófan tvinna og nál. Það var heldur ekkert í húsinu til að deyfa manninn með nema koníak sem einn úr hópnum hafið meðferðis,“ segir íbúinn.
Vegna aðstæðna hafa heimamenn á svæðinu þurft að mynda sérstakan viðbragðshóp vettvangsliða til að bregðast við neyðartilfellum og veita fyrstu hjálp á meðan beðið er eftir sjúkrabíl. „Við erum búin að vera með þennan viðbragðshóp í gangi síðan 2012. Við menntuðum hópinn hjá Sjúkraflutningaskólanum en þetta var leið okkar slökkviliðsins og fólksins á staðnum til að undirbúa vettvangsliðana fyrir hver þau áföll sem þeir gætu þurft að takast á við sjálfir, enda er oft ófært eða seinfarið yfir á Borgarfjörð [frá Egilsstöðum]. Niðurstaðan varð sú að kosta námskeiðin úr sjóðum Brunavarna Austurlands,“ segir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna á Austurlandi, og kveðst hafi mætt daufum eyrum hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) þegar þangað var leitað. „Þess vegna var samfélagið einfaldlega að kalla eftir þessum íbúafundi, til að fara vel yfir þessi mál.“