Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Ingibjörg endaði á geðdeild: „Var eins og ég væri að fá hjartaáfall“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir eignaðist sitt fyrsta barn 15 ára gömul. Hún skildi við fyrri eiginmann sinn rúmlega tvítug og kynntist nokkrum árum síðar stóru ástinni í lífi sínu, Salman Tamimi, sem lést í lok síðasta árs. Ingibjörg talar hér meðal annars um lífið, ástina, dauðann og sorgina.

Ingibjörg Tamimi Sigurjónsdóttir ólst upp í Ólafsvík og á Hellissandi.

„Ég var rosalegur fjörkálfur, uppátækjasöm og hvatvís. Ég var óþekka dóttirin hennar mömmu. Ég var með alls konar uppátæki en við krakkarnir, vinirnir, köstuðum stundum eggjum í hurðir og stundum þegar var mikill snjór lokuðum við götum í bænum með snjóboltum. Þetta voru þannig uppátæki; að hrekkja náungann og stríða.“

Hún er spurð um drauma á þessum árum „Mig langaði náttúrlega að verða svo margt. Okkur systurnar dreymdi um að verða flugfreyjur til að komast til útlanda og gera eitthvað sem væri allt öðruvísi en það sem allir aðrir voru að pæla í.“

Ingibjörg flutti að heiman þegar hún var 14 ára en hún var búin að eignast kærasta og flutti á æskuheimli hans. „Ég held að það hafi engin hugsun verið þar á bak við hvort ég væri of ung; ég var ástfangin og bara fór að heiman. Maður var ekkert að hugsa lengra þegar maður var ungur og ástfanginn. Kærasti minn, og síðar eiginmaður, er átta árum eldri en ég og við eignuðumst eldra barn okkar, dóttur, þegar ég var 15 ára. Það kom mér ekkert á óvart þegar ég komst að því að ég væri orðin ófrísk af því að ég notaði engar getnaðarvarnir og ég vissi náttúrlega að þá gæti ég orðið ófrísk. Ég var bara mjög hamingjusöm þegar ég komst að því að ég átti von á barni. Guð hafði valið mig til að eiga þetta barn.“

Ingibjörg bjó á æskuheimli kærasta síns næstu árin og lofar fyrrverandi tengdamóður sína. „Hún var rosalega góð og hjálpaði mér í gegnum allt það sem ég þekkti ekki í einu og öllu. Það bjargaði mér alveg.“ Þau eignuðust sitt annað barn, son, þegar hún var 18 ára. Þau giftu sig svo þegar hún var 19 ára. Ingibjörg hafði hætt í skóla þegar hún var 14 ára og var heima næstu árin. Kærasti hennar og síðar eiginmaður var sjómaður og vann líka við að beita.

- Auglýsing -
„Hann er svo réttlátur, réttsýnn og heiðarlegur. Það var alveg sama hvað maður talaði um; hann gat alltaf fundið góðan punkt í öllum,“ segir Ingibjörg um eiginmann sinn heitinn.

„Ég ákvað að skilja á afmælisdaginn minn þegar ég var tvítug. Ég bara fór. Ég tók börnin mín og fór. Ég bjó í smátíma hjá mömmu minni, smátíma hjá systur minni og smátíma hjá vinkonu minni. Ég stóð svo á götunni með tvö börn og átti hvergi heima. Ég vissi ekki hvert ég ætti að snúa mér. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera.“ Hún var komin suður til Reykjavíkur og fann hvorki vinnu né pláss fyrir börnin. „Ég var bara tvítug og kunni ekki á kerfið. Ég upplifði mig á þessum tímapunkti eina í heiminum. Það var enginn bakhjarl. Enginn stuðningur. Ekkert.“

Örlögin höguðu því síðan þannig að dóttirin ólst upp hjá móður sinni en sonurinn hjá föður sínum. „Það hefur haft mjög slæm áhrif á allt mitt líf að sonur minn skyldi ekki alast upp hjá mér.“ Ingibjörg segir að þessi ár hafi verið erfið og að tvisvar hafi þurft að sprauta sig niður vegna taugaáfalls vegna andlegs álags.

Ingibjörg bjó svo ásamt dóttur sinni í nokkur ár á Hvammstanga þar sem hún vann á saumastofu. „Þar átti ég mjög gott líf með dóttur minni.“

- Auglýsing -

Ingibjörg segir að hún hafi lent í ýmiss konar áföllum á þessum árum sem ekki sé hægt að segja frá þar sem þau tengjast öðru fólki. „Ég vissi það ekki fyrr en þegar ég kynntist Salmann 25 ára gömul að ég var manneskja í rúst. Gjörsamlega í rúst. Það var honum að þakka að ég gerði mér grein fyrir því en hann sá að það var eitthvað mikið að og ég fór smátt og smátt að leita mér aðstoðar.“

Annar heimur

Ingibjörg fór á ball í Þórskaffi sumarið 1986. „Ég sá einhver kall þar sem ég talaði við en var ekkert að pæla í honum.“ Það var Salman Tamimi sem var frá Palestínu.

Það leið ár.

„Ég var einu sinni að versla í KRON í Breiðholti og þegar ég kom út þá stóð Salman þar. Hann spurði mig hvort ég myndi ekki eftir sér og við fórum að spjalla fyrir utan verslunina eins og við hefðum þekkst alla tíð. Svo spurði hann hvort hann mætti ekki bjóða mér í kaffi. Ég var til í það en ég sagðist gera það síðar. Ég lét aðeins bíða eftir mér. Svo fór ég til hans í kaffi nokkrum dögum síðar og við spjölluðum lengi saman. Þetta gerði ég nokkrum sinnum.“

Ingibjörg leigði íbúð í Breiðholti ásamt annarri konu. Leigunni var sagt upp og hún spurði Salman einn daginn um þremur mánuðum eftir að þau hittust fyrir utan KRON hvort hún gæti leigt herbergi á heimili hans um tíma. „Hann hélt nú að það væri í lagi og sagði að ég þyrfti ekki að borga neina leigu en ég mætti kannski taka til í íbúðinni. Þannig hófst samband okkar.“

Salman kom til Íslands árið 1971 og kvæntist síðar íslenskri konu og eignuðust þau tvær dætur. Þau voru skilin þegar Ingibjörg kom inn í líf hans.

Ingibjörg er spurð hvað hafi heillað hana við Salman. „Hann er svo réttlátur, réttsýnn og heiðarlegur,“ segir hún og notar nútíð, enda stutt síðan hann lést. „Það var alveg sama hvað maður talaði um; hann gat alltaf fundið góðan punkt í öllum. Svo var hann náttúrlega með sína persónutöfra. Hann hafði góðan húmor og var mikill sprellikarl.“

Ingibjörg segist ekki hafa vitað neitt um Palesínu þegar þau Salman kynntust. „Hann kynnti mig smátt og smátt fyrir landi sínu og þjóð sem og fólkinu sínu og Islam. Hann sagði mér til dæmis að Jaffa-appelsínur væru frá Palestínu sem ég ólst upp við að borða í kringum jólin. Þetta var bara annar veruleiki sem hann kynnti fyrir mér; annar heimur. Við spiluðum mikið arabíska tónlist og ég fékk að heyra tungumálið hans þegar hann las upp úr Kóraninum og þegar hann bað. Þetta var allt nýtt.“

Snerist til Islam

Ingibjörg og Salmann giftu sig hjá sýslumanni árið 1994. Hún gerðist múslimi þremur árum síðar.

„Þetta var bara annar veruleiki sem hann kynnti fyrir mér; annar heimur. Við spiluðum mikið arabíska tónlist og ég fékk að heyra tungumálið hans þegar hann las upp úr Kóraninum og þegar hann bað. Þetta var allt nýtt.“

Ingibjörg segir að Salman hafi ekki ýtt á sig að skipta um trú. „Hann sagði alltaf að það væri undir mér komið en það væri skylda sín að fræða mig um Islam en allt hitt væri undir mér komið. Það sem mér fannst það góða við Islam er að allir spámennirnir eru í því og þar með Jesú og Múhameð er sá eini sem bættist við. Og það sem hann var búinn að vera að boða í sinni trú var nákvæmlega það sama og ég var búin að læra sem krakki um kristna trú nema að Múhameð er ekki í kristinni trú. Mér fannst vera svo fallegt sem haft er eftir honum í Kóraninum og margt fallegt varðandi réttlæti og siðferði. Þetta varð til þess að ég skipti um trú því ég var í rauninni ekkert að skipta svo mikið um trú. Við trúum alveg á sama guðinn og alla spámennina en það bættist bara einn við.“

Ingibjörg skráði sig úr þjóðkirkjunni og fór með trúarjátningu Islam. Vitnin voru tvö. „Þá var það búið.“

Múslímar biðja almennt fimm sinnum á dag en Ingibjörg segir að þau hjónin hafi ekkert gert það almennt. „Ég bað hins vegar fimm sinnum á dag þegar ég var að fasta. Við reyndum okkar besta en að sjálfsögðum erum við bara mennsk og ekki fullkomin.“

Hjónin eiga tvö börn, son og dóttur, og ólust þau upp í Islam.

Ingibjörg segir að hún og fjölskylda sín hafi orðið fyrir fordómum vegna þess að þau eru múslímar. Hún segir að flestir séu jákvæðir gagnvart því en að auðvitað séu undantekningar. „Ég lít alltaf miklu meira á það góða og fallega sem er í kringum okkur. Varðandi fordóma þá hef ég til dæmis heyrt sagt að sumir myndu ekki líta mig réttum augum þegar ég hef sett upp slæðu, hijab. Við höfum orðið fyrir fordómum þegar við höfum verið að fasta sem hafa meðal annars falist í athugasemdum og svo höfum við fengið hótanir; fólk hefur hringt og sagst vera fyrir utan heimili okkar og hótað að drepa okkur af því að við erum múslímar. Við kærðum einu sinni þegar maður hótaði að drepa Salman og það fór fyrir dóm. Þetta er vont. Maður er stundum hræddur. Það er engi lygi. Dómarinn spurði hvort við vildum fá einhverjar miskabætur en við Salman sögðum að það væri ekki aðalmálið heldur að láta vita um þetta. Við vildum bara láta vita að það er ekki heilbrigt að láta svona.“

„Tíminn heldur áfram. Mér finnst að hann ætti að stöðvast en hann heldur áfram og ég þarf alltaf að takast á við nýjan dag.“

Draumur Salmans var að moska risi í Reykjavík. „Ég trúði því ekki að hann myndi deyja áður en moskan risi. Þetta var forgangsmál hans.“ Ingibjörg segir að Félag múslíma, sem Salman stofnaði, hafi enn vilyrði fyrir lóð við hlið Herkastalans en að enn vanti fjármagn til að hefja framkvæmdir. „Við erum að fjármagna þetta sjálf og það gengur fremur hægt.“

Sprautað á okkur gasi

Ingibjörg, Salman og börn bjuggu í Palesínu í eitt ár frá 1990-1991 og hún hefur oft farið þangað.

„Við bjuggum fyrst í borginni Ramallah, sem er á Vesturbakkanum, og svo í Palestínu, í Jerúsalem sjálfri. Það var rosalega gott að eiga heima þarna þó við höfum verið þar á mjög slæmum tíma. Það var Intifada-uppreisn; Intifada þýðir uppreisn. Um var að ræða röð mótmæla Palestínumanna á árunum 1987 -1993 þar sem þeir mótmæltu hernámi Ísraelsmanna. Það voru mikil átök og mörg dauðsföll. Við og fjölskylda Salmans tókum einu sinni þátt í mótmælum. Það var sprautað á okkur gasi og skotið í áttina að okkur. Fólk gerir sér ekki grein fyrir hvernig þetta er nema að upplifa það. Þetta var rosalega mikil taugaveiklun og hræðsla. Mágkona mín sá að það var búið að setja strák í herbíl og hún kallaði á mig og bað mig um að koma af því að ég var ljóshærð og þá urðu Ísraelsmennirnir hræddir og vildu ekki láta sjá hvað þeir voru vondir. Við rifumst báðar við þá – og ég á íslensku – og við björguðum þarna allavega einum 13 ára stráki.“

Ingibjörg segir að fólk hafi verið einstaklega elskulegt við sig, ljóshærðu konuna með fjögur börn; dætur Salmanns af fyrra hjónabandi fóru með þeim út ásamt dóttur Ingibjargar og syni sínum, Yousef, sem var þá eins árs.

„Gömlu konurnar í gömlu borginni þar sem við versluðum í matinn voru svo góðar og yndislegar. Þær voru farnar að þekkja mig og vissu hvað ég væri að fara að kaupa og voru farnar að kenna mér hvað maturinn og hlutirnir hétu á arabísku. Strætisvagnabílstjórinn stoppaði og beið eftir mér með allan skarann ef hann sá okkur. Það var yndislegt að eiga heima þarna á þessum tíma. Það var alveg æði. Ég hef aldrei kynnst eins góðu fólki.“

Fjölskyldan flutti til Íslands um það leyti sem Persaflóastríðið skall á. „Það var byrjað að reyna að redda gasgrímum og fólk var farið að tala um hvernig það ætti að snúa sér í þessu öllu og þá ákváðum við að fara heim. En það er alltaf jafnyndislegt að koma til Palestínu. Menningin er yndisleg. Það er farið niður í bæ og það eru allir að toga í mann og vilja láta mann kaupa eitthvað af sér. Svo standa menn með tanka á bakinu og er að selja djús sem er rosalega þægilegur í þessum hita. Maður kemur við veggina í gömlu borginni við kastala sem þar er og hugsar með sér hvað þetta er rosalega gamalt og hve margir hafa komið við veggi gömlu borgarinnar í Jerúsalem. Það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni. Við förum í mosku og kirkjuna þar sem Jesú er grafinn,“ segir Ingibjörg en Kirkja hinnar helgu grafar í Jerúsalam er einn mesti helgidómur kristinna manna og var reist í kringum grafhýsi þar sem talið er að Jesú hafi verið grafinn. „Við höfum gengið þar sem hann á að hafa stoppað með krossinn. Veistu það, það er ekki hægt að lýsa þessu nema að fara þangað og finna þessa tilfinningu. Þetta er svo rosalega heilagur staður fyrir mannkynið.“

Aðstoðaði hælisleitendur

Lífið hélt áfram á Íslandi. Ingibjörg vann um árabil sem hjúkrunarritari á Landspítalanum og hjónin stofnuðu þrjú fyrirtæki. Barnafataverslunina Tinna, þungarokksverslunina Kiss og pítsastað. Fjölskyldan stækkaði og barnabörn fóru að koma í heiminn. Í dag eru barnabörnin 12. „Við vorum mikið fjölskyldufólk og vorum mjög oft með matarboð þar sem öllum börnum og barnabörnum var boðið.“

„“Mér finnst vera sorglegt þegar fólk er sent úr landi. Það skilur eftir stórt sár í hjarta mínu.“

Salman aðstoðaði marga hælisleitendur sem komu til landsins og árið 2012 tóku hjónin að sér 15 ára gamlan dreng frá Marokkó sem kom fylgdarlaus til landsins og bjó hann hjá þeim í fjögur ár. Ingibjörg kallar hann fósturson þeirra. „Hann er búinn að eignast barn með íslenskri konu og eru þau búin að kaupa sér hús. Það má segja að Salman hafi verið félagsfulltrúi hælisleitenda en ef einhvern vantaði aðstoð eða eitthvað þurfti að gera þá mætti hann. Hann túlkaði fyrir þá og hjálpaði þeim varðandi húsnæði. Hann var til staðar og hann var alltaf til í að hjálpa öllum.“ Ingibjörg segir að sér finnist að það ætti að bjóða alla velkomna sem sækja um hæli á Íslandi. „Það á ekki að setja fólk í einhverja dilka. Það á að bjóða fólk velkomið ef það er með hreinan skjöld. Sumt af þessu fólki er hámenntað og það þarf kannski að hjálpa því smávegis til að aðlagast landinu og nýta sér menntun sína. Heimsmynd mín hefur stækkað mikið eftir að ég bjó í Palesínu og einnig samkennd mín með fólki sem lendir í einhverju hvort sem það er hér eða annars staðar. Ef ég fengi að ráða fengju allir að vera hjá mér – bæði dýr og menn.“

Krabbinn

Salman fór að finna til heilsuleysis tengt hjartanu sem hann lifði með í mörg ár. „Ég þekki ekki annað í mörg ár en að vera með hann inn og út af spítala. Það voru alls konar vandamál tengd hjartanu og við höfum þurft að kveðja hann þrisvar sinnum. Hjartavöðvinn var of stór.“

Salman greindist með krabbamein í brisi í desember 2016 og fór í aðgerð í mars árið 2017. Allt virtist ganga vel en svo greindist hann aftur í desember 2019. „Þá fundu þeir krabbamein í eitlunum og í öðru lunganu en þetta voru meinvörp eftir síðasta krabbamein. Svo var þetta smátt og smátt að aukast og var komið í lifrina og þá vorum við látin vita að hann væri kominn með fjórða stigs krabbamein og það væri ekkert hægt að gera.“

Ingibjörg segir að þegar Salman hafi greinst í fyrra skiptið þá hafi hún hugsað með sér að þetta væri ekkert sem þau hefðu ekki ráðið við áður. „Hann fór í aðgerðina og krabbameinið fór. Við höfðum það gott og vorum ekkert mikið að pæla í þessu. Svo kom eitthvað óeðlilegt fram í blóðprufu áður en hann greindist í síðara skiptið og þá var okkur sagt að hann væri aftur kominn með krabbamein. Ég hugsaði þá með mér að þetta væri enn eitt verkefni í viðbót til að takast á við og að nú þyrftum við að ganga í gegnum þetta aftur. Hann þurfti að fara í lyfjagjafir sem tóku svolítið á. Ég verð mjög sterk þegar vandamál eru annars vegar en þá einblíni ég á verkefnið sem þarf að klára. Ég hugsaði alveg um Salman sem var stundum fárveikur inni á baðherbergi og búinn að kasta upp eftir lyfjagjafir. Það var ekkert annað að gera. Þetta var verkefni sem þurfti að takast á við. Svo var sagt að að hann færi ekki í fleiri lyfjagjafir og þá fóru að renna á mig tvær grímur. Ég talaði við lækni og sagði að þeir hlytu að geta fundið einhver lyf fyrir hann og að það gengi ekki að hann væri lyfjalaus. Ég varð bæði hrædd og örvæntingarfull; ég var hrædd um að missa hann. Þetta voru blandaðar tilfinningar. Ég hugsaði um hvernig það yrði fyrir börnin mín að missa pabba sinn og barnabörnin að missa afa sinn. Ég var ekki svo mikið að pæla í mér sjálfri. Salman var besti vinur minn og stóra ástin í lífi mínu og hann er farinn frá mér. Ég held ég sé ekki búin að átta mig á því að hann sé farinn. Mér finnst eins og hann sé í útlöndum. Mér finnst ég alveg eins eiga von á honum aftur. Ég er kannski að vinna mér inn hugarró. Ég veit það ekki.“

Salman lést á heimili sínu umkringdur fjölskyldu sinni og Iman – trúarleiðtoga – sem las bænir upp úr Kóraninum þegar hann var að kveðja þetta líf. „Það héldu allir einhvers staðar í hann og þannig fór hann frá okkur ljúft inn í Paradís.“

„Ég hef grátið mikið. Mér finnst vera leiðinlegt að koma heim og það er enginn heima. Næturnar eru erfiðar.“

Sorgin

Áföllin hafa verið nokkur í gegnum tíðina, en Ingibjörg vill ekki segja frá miklu, og hún segist hafa krassað á vinnustað árið 2013. Hún hefur síðan verið á örorkubótum. „Ég brotnaði niður. Það var eins og ég væri að fá hjartaáfall. Andleg heilsa mín var ekki búin að vera góð. Ég var búin að takast á við gríðarlega mörg vandamál og byrgja þau inni. Ég fór á geðdeild og fékk róandi lyf og var talað um taugalost. Ég fór til sálfræðings í framhaldinu og hef síðan verið með kvíða og kvíðaröskun; ég held ég hafi glímt við kvíða frá því ég var barn. Það kom allt upp á yfirborðið. Ég komst í geðheilsuteymi og þar fékk ég mikla hjálp. Ég hef farið í gegnum lífið á hörkunni. Á hnefanum. Það var það eina sem ég kunni. Ég er farin að þekkja tilfinningar mínar og leyfi þeim að koma út í stað þess að fara allt á hnefanum. Það þarf að tala og tjá sig og segja frá ef manni líður illa en ef maður gerir það ekki þá kemst maður í sálarkreppu. Salman var búinn að berja í mig stálinu í gegnum árin og segja mér að leita mér hjálpar. Ég leitaði mér nokkrum sinnum hjálpar og svo fannst mér það vera ómögulegt. Hann vissi að ég myndi krassa einn daginn. Hann var ánægður að ég væri búin að vera að vinna í mér síðustu ár og sáttur þegar hann dó. Hann vissi að ég var orðin sterk.“

„Ég hef farið í gegnum lífið á hörkunni. Á hnefanum. Það var það eina sem ég kunni.“

Ingibjörg fer ekki lengur til sálfræðings „Ég fer bráðum á námskeiðið „Makamissir“ á vegum Krabbameinsfélagsins og þar getur maður talað um sorgina, missi maka og fleira og það er ábyggilega viss úrás.“

Ingibjörg segist vera kvíðin fyrir framtíðinni. „Ég er hrædd við það sem er fram undan. Ég spyr mig hvort ég geti haldið húsnæðinu, hvort ég verði nóg fyrir krakkana eins og við Salman erum búin að vera og ég finn fyrir kvíða fyrir að standast ekki kröfur. Ég veit að ef ég væri með Salman við hlið mér þá gætum við talað saman og komist að niðurstöðu. Mér finnst vera vont að hafa hann ekki til að ræða um þetta. Við ræddum oft snemma á morgnana í um klukkutíma um lífið og tilveruna.“

Ingibjörg segist vera innantóm. „Ég hef grátið mikið. Mér finnst vera leiðinlegt að koma heim og það er enginn heima. Næturnar eru erfiðar. Salman horfði oft á sjónvarpið inni í stofu eftir að hann veiktist og gat ekki sofið og þegar ég vakna á næturnar þá fer ég oft inn í stofu og bíð eftir að hann segi „hæ, ég var að bíða eftir þér“ eins og hann sagði alltaf á þessu tímabili þegar ég vaknaði líka á nóttunni og fór inn í stofu. Það er svo margt svona sem er svo erfitt. Ég á sem betur fer góða fjölskyldu og við erum búin að vera mikið saman.“

Ingibjörg hefur dreymt Salman eftir að hann dó. Hún segir frá eftirminnilegum draumi. „Mér fannst vera rosalega mikill snjór í Reykjavík og við Salman vorum úti með krakkana eitthvað að vesenast. Svo sagði hann við mig: „Búum til engil.“ Ég spurði hann síðan hvenær hann nennti að gera engil í snjónum og sagði að ég hafi verið búin að biðja hann um það í mörg ár. Hann lagðist síðan í snjóinn og gerði engil og sagði mér að gera líka engil.“

Ingibjörg segir að hún hafi haldið að tíminn myndi stöðvast þegar sorgin bankaði upp á. „Tíminn heldur áfram. Mér finnst að hann ætti að stöðvast en hann heldur áfram og ég þarf alltaf að takast á við nýjan dag.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -