Ingibjörg Jóna Magnúsdóttir verður jarðsungin í dag en hún var aðeins 28 ára gömul er hún lést á bráðamóttöku eftir að hafa fengið skyndilegan blóðtappa í lungu. Hún var þá gengin 19 vikur með ófætt barn sem átti að fæðast í október.
Ingibjörg fæddist í Reykjavík 16. júlí 1992. Hún lést á bráðamóttöku Landspítalans 17. maí síðastliðinn. Ingibjörg ólst upp í Reykjavík og gekk í Fellaskóla og síðar í Ölduselsskóla. Hún vann ýmis þjónustustörf.
Unnusti Ingibjargar er Gestur Ingi Reynisson og áttu þau von á sínu fyrsta barni saman. Þau trúlofuðu sig síðasta sumar og ætluðu að gifta sig næsta sumar.
Foreldrar Gests rita hlý orð í minningu Ingibjargar í minningargrein í Morgunblaðinu. „Við áttum ekki von á því að þurfa að skrifa minningargrein um ástkæra tengdadóttur okkar. Hún var skyndilega kölluð frá okkur í blóma lífsins. Lífið blasti við henni og Gesti syni okkar og áttu þau von á sínu fyrsta barni í október. Þau voru búin að skipuleggja brúðkaup næsta sumar. Við höldum fast utan um hann Gest okkar og sendum innilegar samúðarkveðjur til foreldra, systkina og annarra aðstandenda Ingu. Minning um góða stúlku lifir,“ segja tengdaforeldrar hinnar látnu.
Útför Ingibjargar fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag klukkan 13. Útförinni verður streymt hér.