Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.9 C
Reykjavik

Ingibjörg ritari fjármálaráðherra lést á afmælisdegi sínum: „Við munum alltaf sakna þín“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ingibjörg Björnsdóttir, sem lengst af var lykilmaður á skrifstofu fjármálaráðherra, lést á afmælisdegi sínum 6. ágúst síðastliðinn, þá orðin 85 ára að aldri. Fjölmargir fara um hana fögrum orðum í minningargreinum Morgunblaðsins í dag, þeirra á meðal fyrrum ráðherrarnir Ögmundur Jónasson, Friðrik Sophusson og Geir H. Haarde ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrum forseta.

Blessuð sé minning Ingibjargar.

Ingibjörg fæddist 6. ágúst 1936 í Reykjavík. Barnabörn Ingibjargar eru 26 og barnabarnabörnin eru orðin 23, það yngsta fæddist nokkrum dögum eftir lát hennar.

Ingibjörg var gagnfræðingur frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar, nam tónmennt og fiðluleik við Tónlistarskólann í Reykjavík í tíu ár og sótti húsmæðraskóla í Danmörku. Hún vann á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur í fjögur ár en frá árinu 1972 í fjármálaráðuneytinu hér á Íslandi, fyrst sem ritari en frá 1979 sem deildarstjóri og ritari fjármálaráðherra til starfsloka. Sem lykilmaður í ráðuneytinu starfaði hún með 11 fjármálaráðherrum Íslands.

Börn Ingibjargar minnast móður sinnar með hlýjum orðum í minningargrein.

„Elsku mamma. Þú minntir okkur á hringrás lífsins, á gleðina og þakklætið og líka á hverfulleikann þegar þú kvaddir okkur á 85 ára afmælisdaginn þinn. Við fögnuðum lífinu þínu eina stundina og grétum þig þá næstu. Við vorum svo heppin að eiga þig ekki bara að mömmu og besta bakhjarli sem nokkur getur óskað sér heldur líka að trúnaðarvini sem hlustaði alltaf og dæmdi ekki þótt þú værir ekki alltaf sammála og við gætum alveg tekist á. Það er skrítið og sárt að geta ekki lengur tekið
upp símann eða komið við á Kópavogsbrautinni til að spjalla um heima og geima, sækja í
viskuna þína eða bara hlæja og fíflast saman. Við munum alltaf sakna þín en vitum að minningarnar um dillandi hláturinn þinn og þínar hlýju og mjúku hendur munu lifa með okkur. Fyrir okkur eru allir þínir tónar bjartir.“

Ögmundur Jónasson.

Þau Ögmundur, fyrrverandi ráðherra og þingflokksformaður VG, voru systkinabörn. „Hún hafði passað okkur á unga aldri, eins konar stóra systir og á lífsleiðinni áttum við margar gefandi stundir í návist hennar. Alltaf stafaði frá henni hlýju. Það er ekki öllum gefið að
vera sá sem allir reiða sig á, öllu heldur saman, sjálft límið. Þannig var Ingibjörg frænka okkar. Öllum leið vel í návist hennar. Við kveðjum Ingibjörgu Björnsdóttur með miklum söknuði,“ segir Ögmundur.

- Auglýsing -

Friðrik Sophusson naut þess að vinna með Ingibjörgu í ráðherratíð sinni. „Góðir ráðherraritarar voru gulls ígildi. Ingibjörg Björnsdóttir kom til starfa í fjármálaráðuneytinu og vann þar í 34 ár með 11 ráðherrum, sem höfðu viðkomu í ráðuneytinu í mislangan tíma. Ingibjörg var afar fær í sínu starfi og næm á þau atriði, sem skiptu máli. Ég á afar góðar minningar frá þeim sjö árum, sem ég starfaði í fjármálaráðuneytinu. Ingibjörgu þakka ég sérstaklega samstarf og vináttu,“ segir Friðrik.

|
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti.

Ólafur Ragnar, fyrrverandi forseti, minnist Ingibjargar sem valdakonu hins virðulega virkis sem fjármálaráðuneytið er. Hún var hinn mikilvægi hliðvörður. „Titillinn ritari í raun dularklæði þessarar valdakonu hins virðulega ráðuneytis. Í fræðunum er rætt um
hliðverði. Þá sem stjórna inngöngu í valdsins vé. Ingibjörg var í áratugi í slíkri
stöðu. Stýrði nánast allri vinnu ráðherrans. Tók á móti gestum með brosi. Allir
fóru glaðir burt. Höfðu alla vega hitt Ingibjörgu,“ segir Ólafur og heldur áfram:

„Hún var gædd einstökum mannkostum. Klár, öguð, skipulögð; ávallt kát og létt í lundu.
Hjartað og sálin í hinu háa ráðuneyti. Elskuð af öllum. Sumir sögðu að ráðherrann væri í raun bara í vinnu hjá Ingibjörgu. Samvinna okkar var einstök. Í raun gleðigjafi. Tilhlökkun að hitta Ingibjörgu á hverjum morgni. Á kveðjustund koma ljúfar minningar í hugann; þakkir fyrir liðna tíð.“

- Auglýsing -
Geir H. Haarde.

Geir, fyrrverandi fjármálaráðherra, segist seint gleyma öllum þeim ánægjustundum sem hann átti með Ingibjörgu. „Mér líður vel og er sátt og þakka fyrir gott og gjöfult líf,“ skrifaði hún í einum síðasta póstinum til mín í vor. Ingibjörg Björns var máttarstólpi í fjármálaráðuneytinu öll þau ár sem ég þekkti þar til. Ingibjörg var einstök í samstarfi, ómetanleg hjálparhella, fljótvirk en jafnframt þolinmóð, ákveðin en lipur. Þannig var hún aldrei í vandræðum með að ná sambandi við fólk. Þess utan var hún glaðsinna sem auðveldaði öll samskipti okkar sem oft voru á léttum nótum. Ingibjörg lauk gjarnan póstum og orðsendingum til mín með orðunum „Þín einlæg“ og vil ég nú nota þessi sömu orð til að kveðja hana hinstu kveðju. Þinn einlægur, kæra Ingibjörg,“ segir Geir.

Útför Ingibjargar fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag. Mannlíf vottar aðstandendum samúðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -