Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, telur að afar illa hafa verið staðið að reglugerð um skylduvistun á sóttkvíarhóteli sem hafi einfaldlega farið öfugt ofan í marga landsmenn. Hún veltir fyrir sér hvort frekar eigi að skikka eingöngu ferðamenn á sóttkvíarhótelið.
„Jæja, nú ætla ég að hætta mér út á hálan ís og tjá mig um sóttvarnir á landamærum. Upphaflega reglugerðin sem skikkaði alla á sóttkvíarhótel var fádæma klaufaleg og gerræðisleg. Lagagrunnur frelsissviptingarinnar var mjög veikur,“ segir Ingibjörg Sólrún í færslu á Facebook. Hana ritar hún þar sem hún er sjálf stödd í sóttkví á sóttkvíarhótelinu við Katrínartún.
Ingibjörg Sólrún undrar sig á því hvers vegna ekkert tillit hafi verið tekið til aðstæðna fólks og meðal annars útivera leyfð. „Að auki var þolendum gert að greiða 50 þúsund krónur fyrir hana! Af hverju má ekki gera greinamun á ferðamönnum og fólki með heimilisfestu á Íslandi? Allir ferðamenn fari á sóttkvíarhótel og greiði sanngjarnt verð fyrir það. Fólk með heimili á Íslandi geti valið um að vera í sóttkví heima hjá sér eða fari ella á sóttkvíarhótel sér að kostnaðarlausu,“ segir Ingibjörg og bætir við:
„Þannig verði litið á sóttkvínna sem þjónustu af hálfu yfirvalda og samfélagsábyrgð af hálfu þegnanna en ekki dóm og refsingu.“
Fjölmargir tjá sig undir færslu Ingibjargar og segist Gréta vera innilega sammála. Hún kemur með viðbót tengda heimasóttkvínni. „Mér finnst að það eigi að ganga út frá því að fólk muni fara eftir reglum en ekki að það ætli sér að brjóta þær. Það mætti bjóða fólki að velja á milli þess að dvelja í sóttkví á stað sem uppfyllir ákveðin lágmarks skilyrði með ökklaband svo hægt sé að fylgjast með ferðum viðkomandi og þess að taka út sóttkví á sóttkvíarhóteli, segir Gréta.