Lögreglan hvetur fólk til að vera vakandi fyrir grunsamlegum mannaferðum í kringum páskana.
Í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er fólk beðið um að vera vakandi fyrir grunsamlegum mannaferðum í kringum páskana. Þá er fólk beðið um að taka niður bílnúmer, skrifa niður lýsingar og taka ljósmyndir ef það sér eitthvað sem gæti talist grunsamlegt.
„Innbrotsþjófar fylgjast gjarnan með húsum áður en þeir láta til skarar skríða, hringja jafnvel dyrabjöllunni og þykjast vera að spyrja eftir einhverjum, og því er mikilvægt að hafa þessi atriði í huga,“ segir meðal annars í færslunni.
Þá segir einnig að fólk ætti að tilkynna grunsamlegar mannaferðir til lögreglu. „Munið að það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan.“