Lögregla veitti bíl eftirför í nótt eftir að ökumaður hundsaði merki um að stöðva. Eftirförin, sem hófst í Garðabæ, endaði á Lögreglustöðinni í Kópavogi þangað sem bílstjórinn keyrði rakleitt með lögregluna á eftir sér.
Var maðurinn handtekinn grunaður um ölvunarakstur. Auk þess var hann án ökuréttinda.
Skömmu fyrir miðnætti barst lögreglunni tilkynning um hávaða frá vinnusvæði í hverfi 105. Lögreglan mætti á svæðið og fékk iðnaðarmennina til þess að hætta vinnu sem hélt að öllum líkindum vöku fyrir fólki í hverfinu.
Grunsamlegar mannaferðir og mögulegt innbrot var tilkynnt til lögreglu í gærkvöldi. Þegar lögreglan mætti á vettvang hafði þar verið fyrrum leigjandi íbúðar sem braut sér leið inn. Afgreiddi lögreglan málið á staðnum.
Einn var stöðvaður vegna hraðaksturs. Sá reyndist sviptur ökuréttindum og er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna.